Bæjarhátíðin Sumar á Selfossi er haldin um helgina en hátíðin fagnar 30 ára afmæli í ár. Það eru piltarnir í Knattspyrnufélagi Árborgar sem halda um stjórntaumana og þar er fremstur í flokki matreiðslumeistarinn Bjarni Haukur Guðnason, sem er framkvæmdastjóri hátíðarinnar í ár.

Fullt nafn: Ég heiti Bjarni Haukur Guðnason.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fæddur 18. október 1988 í Reykjavík en var fluttur þaðan nokkurra daga gamall heim til Hveragerðis þar sem ég bjó fram að tvítugu.
Fjölskylduhagir: Ég er kvæntur Elsie Kristinsdóttir og saman eigum við tvær dásamlegar dætur. Við erum búsett á Selfossi og viljum hvergi annars staðar vera.
Hverra manna ertu: Ég er Sonur Ebbu Lóu sem að allir sem að hitta vita hver er, enda með eindæmum dásamleg og getur einhvern veginn gert allt, hún er til dæmis einhverskonar geitunga hvíslari og fjarlægir geitungabú eins og hún hafi aldrei gert neitt annað. Faðir minn heitir Guðni Guðjónsson rafvirki og kennari úr Hveragerði sem að er, eins og svo margir sem alast upp í Hveragerði og ég meðtalinn, svokallaður Þvergerðingur. Það er Hvergerðingur sem að er svo þver að hann skiptir stundum um skoðun bara til að vera ósammála.
Menntun: Ég er nú bara kokkur. En menntunin heitir samt sem áður matreiðslumeistari.
Atvinna: Ég er núna á haustdögum að taka við yfirkokks stöðunni á nýju hóteli sem að er að opna við Óseyrarbrúna og nefnist Black Sand Hotel. Síðastliðið árið hef ég unnið á einum albesta vinnustað sem að ég hef unnið á, í Laugalandsskóla. Og svo var ég plataður til að vera framkvæmdastjóri Sumar á Selfossi
Besta bók sem þú hefur lesið: Það myndi vera Kitchen Confidential eftir Anthony heitinn Bourdain. Mjög skemmtileg lesning fyrir þá sem að vilja lesa hvað er á mörgum stöðum raunveruleikinn á bak við hreinu hvítu jakkana og fallega góða matinn sem að kokkar eru þekktir fyrir.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: The Office og Brooklyn 99 fá stundum að rúlla í bakgrunni þegar ég er að brasa eitthvað annað, en The Bear og The Boys eru í miklu uppáhaldi um þessar mundir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Lord of the Rings og Harry Potter hafa rúllað ófáa hringi í gegnum tækið en síðan hef ég vandræðalega oft séð She’s All That og 10 Things I Hate About You í gegnum tíðina.
Te eða kaffi: Uppáhellt kolbikasvart kaffi
Uppáhalds árstími: Síðsumar og fram á haust, allt svo fallegt í haustlitunum, endalaust af fersku grænmeti, berjum, sveppum, villibráð og nýslátruðu.
Besta líkamsræktin: Ég er of góður við sjálfan mig til að leggja á mig líkamsrækt af einhverju viti og mér finnst skipulögð líkamsrækt frekar leiðinleg. Besta líkamsræktin sem að ég hef hins vegar farið í var VIPPIÐ hjá Óttari Guðlaugs.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég á erfitt með að svara því útaf því að ég er minn helsti gagnrýnandi. En ef ég á að segja eitthvað þá geri ég grimma brúnaða blómkálssúpu.
Við hvað ertu hræddur: Ég er logandi hræddur við hryllingsmyndir. Ekki myrkur eða skepnurnar sem að eru í þeim heldur myndirnar sjálfar. Svo óttast ég ekkert meira en að maturinn sem að ég panta sé vondur, það er ekkert verra en að bíða eftir mat og svo er hann vondur.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Alltaf aðeins seinna en ég ætlaði mér.
Hvað gerir þú til að slaka á: Horfi á sjónvarp, spila tölvuleiki, spila golf og/eða nýt lífsins með konunni minni og dætrum.
Hvað finnst þér vanmetið: Íslenska, bæði í rituðu- og töluðu máli og að leyfa sér að vera skrítinn.
En ofmetið: Að fylgjast með öllu sem að áhrifavaldar gera og lifa lífinu eftir því sem að þeir gera, galin pæling.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Með Stjörnunum með Herberti Guðmunds sem að er einmitt einn af gestunum á Stórtónleikum Hr. Eydís á Sumar á Selfossi.
Besta lyktin: Nýslegið gras, túlípanar, greni og sjávarlykt
Bað eða sturta: Sturta, því ég er of langur í baðkarið heima.
Leiðinlegasta húsverkið: Það er ekkert verra en að ganga frá fötum inn í skáp, sem að er búið að brjóta saman.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: „Það er enginn svo vitlaus að það sé ekki hægt að læra af honum, í versta falli lærirðu hvernig á ekki að gera hlutina“ og „ekki stressa þig á einhverju sem þú getur ekki breytt, nautalundin eldast ekki hraðar þó að þú sért stressaður“.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er nátthrafn sem gaslýsir sjálfan sig, til að halda að hann sé morgunhani, sem ég er alls ekki.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þeir eru mjög margir staðirnir sem að ég hef komið á. Mér þykir óendanlega fallegt í kringum Hveragerði, Hamarinn á haustin þar sem hægt er að ná sér í villijarðaber á þægilegri göngu, Marardalur og Kattartjarnir eru perlur sem að fáir leggja leið sína til að skoða þrátt fyrir nálægð við byggð. Svo þykir mér ströndin sjávarmegin við Ölfusárósinn einstaklega falleg, sérstaklega þegar að von er á lægð.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Lélegir dómarar í fótbolta gera mig brjálaðan, líka þegar að rangir dómar falla með mínu liði. Fólk sem að kann ekki á hringtorg og líka bílstjórar sem negla niður og gefa í til skiptis og þeir sem að taka mjög tæpt fram úr til að sitja fastir í umferð 20 metrum framar en þeir voru.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég var busi í FSu stökk ég út í Hornið að ná mér í eitt pizzastykki. Þegar ég geng inn í FSu labba ég rakleitt á eina stífbónaða glerhurð sem að aðskilur anddyrið frá alrými skólans og mér tekst að stimpla hvíta fína bolinn minn með pizzastykkinu, sem betur fer voru bara nokkrar hræður sem að sáu þetta. Ætli þetta hafi ekki bara verið karma fyrir að vera alltaf inni á skónum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég stefndi á, þangað til ég var 17 eða 18 ára, að verða jarðfræðingur með það að markmiði að fara í fyrstu geimferðina til Mars
Fyndnasta manneskja þú veist um: Konan mín er ein fyndnasta og skemmtilegasta manneskja sem ég veit um. Svo þykir mér orðheppnir einstaklingar eins og Ingimar Helgi Finnsson einstaklega skemmtilegir.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég held að ég væri til í að prófa að vera annað hvort Shaun White eða Travis Pastrana, ég gæti aldrei gert það sem þeir gera í sínu sporti en ég væri til í að prófa það.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Þessa dagana nota ég alla miðla þar sem að einhver getur haft samband við mig. Venjulega nota ég mest Facebook messenger og Instagram, ég er lítið að vinna með samfélagsmiðlana.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég held því miður að síðustu kjánarnir sem að stunda stríðrekstur séu ekki ennþá fæddir þannig að það er illmögulegt að stoppa það bull. Þannig að ég myndi koma í veg fyrir að nokkur maður, kona, kvár eða krakki fari nokkurn tímann aftur svangur/svöng að sofa og að allir myndu fá kjarngóðan mat, ekki ofunnið rusl sem að er verra fyrir fólk að neyta en skipalakk.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég borða ekki banana eða tómatsósu, hvoru tveggja er afsprengi djöfulsins.
Mesta afrek í lífinu: Dætur mínar eru mitt mesta afrek þvílíkir föðurbetrungar, bráðgáfaðar, fyndnar, skemmtilegar og frábærar í alla staði.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi vilja fara til 1950 til Vienna í Frakklandi að vinna hjá Fernand Point á La Pyramide sem að mörgum talinn hafa verið einn besti veitingastaður sögunnar.
Lífsmottó: Þetta fer aldrei verr en illa.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að gera það sem allir Selfyssingar eiga líka að gera, taka virkan þátt í Sumar á Selfossi og styrkja stærsta litla fótboltalið í heimi Knattspyrnufélag Árborgar.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinKlara Einars stóð af sér storminn á Þjóðhátíð
Næsta greinEldur í bíl á Laugarvatnsvegi