Skammdegishátíðin Þollóween er nú í fullum gangi í Þorlákshöfn en henni lýkur næstkomandi sunnudag. Dagskráin er skelfilega fjölbreytt og spennandi. Magnþóra Kristjánsdóttir er ein nornanna í Þollóween-nefndinni en sá hópur samanstendur af nokkrum dugmiklum konum, sem hafa lagt nótt við dag í sjálfboðavinnu við að undirbúa hátíðina.

Fullt nafn: Magnþóra Kristjánsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd á kvenréttindadaginn 19. júní 1976 á Selfossi og er því 47 ára gömul.
Fjölskylduhagir: Ég giftist Birni Þór Gunnarssyni húsasmíðameistara á afmælisdaginn minn árið 1999. Við eigum saman fjögur börn á aldrinum 14-27 ára, þrjár stelpur og einn strák. Við eigum þrjú tengdabörn og einn yndislegan sonarson.
Hverra manna ertu: Faðir minn heitir Kristján Gestsson frá Forsæti og móðir mín Anna Guðbergsdóttir úr Garði. Þau eru kartöflubændur í Forsæti IV í Flóahreppi.
Menntun: Ég er grunnskólakennari að mennt og lauk kennaranámi frá KHÍ árið 2006. Um þessar mundir er ég í mastersnámi í hagnýtri menningarmiðlun og stefni á útskrift í vor.
Atvinna: Ég starfa sem grunnskólakennari við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri og kenni þar nemendum í 7.-10. bekk á Eyrarbakka íslensku. Ég starfa einnig sem ritstjóri Hafnarfrétta.
Besta bók sem þú hefur lesið: Mjög erfið spurning því ég hef lesið svo margar góðar. Ætla samt að nefna bækurnar um Auði djúpúðgu eftir Vilborgu Davíðsdóttur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi lítið á sjónvarp en ætli Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sé ekki uppáhalds þátturinn minn.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég elska íslenskar bíómyndir og eru myndirnar um félagana Þór og Danna þar efstar á blaði; Nýtt líf, Dalalíf og Löggulíf.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Sumarið er minn besti tími.
Besta líkamsræktin: Mér finnst yndislegt að taka góða göngu út í Hafnarnes, hlusta á sjóinn og fuglana og njóta þess alls sem umhverfi Þorlákshafnar hefur upp á að bjóða.
Hvaða rétt ertu best að elda: Kjötsúpa er sá réttur sem ég tel mig vera hvað lunknust við að gera enda kenndi mamma mér allt sem ég kann í þeim efnum.
Við hvað ertu hrædd: Ég er hrædd við fáfræði og fordóma.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég stilli klukkuna alltaf á 6:50 en drattast yfirleitt ekki framúr fyrr en um 7:30.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hlusta á tónlist, les eða prjóna.
Hvað finnst þér vanmetið: Mér hefur alltaf fundist mysingur vanmetin gæðafæða.
En ofmetið: Peningar og völd eru frekar ofmetin.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Sweet Home Alabama með Lynyrd Skynyrd.
Besta lyktin: Lyktin af nýslegnu grasi er best í heimi.
Bað eða sturta: Sturta
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst ægilega leiðinlegt að elda mat og geri hvað ég get til að forðast það verkefni.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Vertu alltaf þú sjálf.
Nátthrafn eða morgunhani: Einu sinni var ég mikill nátthrafn en ætli aldurinn sé ekki farinn að segja til sín því nú er ég meiri morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Skorradalur.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það er nú svosem ekki margt sem fer í taugarnar á mér en ef ég á að nefna eitthvað eru það fordómar.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það er eiginlega ekki birtingarhæft. Ég er hins vegar óttalegur klaufi svo ég á mörg spaugileg atvik í handraðanum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig langaði að verða söngkona í hljómsveit. Langar það reyndar enn.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Maðurinn minn segir langbestu fimmaurabrandarana.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera köttur vegna þess að ég er forvitin um hvað þeir dunda sér og hvert þeir ferðast í sínum vökustundum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég hugsa að ég noti Facebook mest, enda miðaldra.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi banna fordóma, leiðindi og geðvonsku.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er með brúnan blett í vinstra auganu.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín eru mín mestu afrek. Ég verð alltaf meyr að hugsa um hvað þau eru góðar og vel gerðar manneskjur.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara til 6. áratugarins og upplifa tónlistarmenninguna sem þá ríkti.
Lífsmottó: Vertu þú sjálf – þú getur ekki verið nein önnur.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég ætti að sjálfsögðu að vera að taka þátt í Þollóween í Þorlákshöfn um næstu helgi þar sem ég er ein af undirbúningsnornunum en verð hins vegar í þeirri merku borg Prag ásamt manninum mínum og vinnufélögum hans og mökum. Ég mæli eindregið með því að allir aðrir leggi leið sína á Skammdegishátíðina Þollóween og kíki í Draugagarðinn, láti hræða úr sér líftóruna í Draugahúsinu og síðan þurfa allar nornir að fara á Nornaþing.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Magnþóra, Björn Þór og barnabarnið Kristopher Atlas Viktorsson. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinVill auðvelda ættliðaskipti bújarða með undanþágu frá erfðafjárskatti
Næsta greinEllefu unglingar af HSK svæðinu í Úrvalshópi FRÍ