Bjarki Freyr Sigurjónsson, kjötiðnaðarmeistari hjá SS á Hvolsvelli, sigraði í fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna sem fram fór á dögunum. Bjarki Freyr hlaut þar með titilinn Kjötmeistari Íslands 2020 eftir spennandi keppni.

Fullt nafn: Bjarki Freyr Sigurjónsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 12. ágúst 1993 á Landspítalanum Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Er í sambúð með Lindu S. C. Gustafsson og eigum við saman einn pjakk, Jóhannes Erik.
Menntun: Sveinsbréf í kjötiðn 2013 og síðar meistarabréf 2017.
Atvinna: Verkstjóri í pylsugerðinni hjá SS á Hvolsvelli.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég er nú ekki mikill lestrarhestur þannig að ég segi ökunámsbókin. Ég er í það minnsta mjög þakklátur að hafa lesið hana.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Hef ekki bundið ástfóstri við ákveðna þætti en Vikings koma sterkt til greina og einnig Norseman.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Cool Runnings. Hún hefur fylgt mér allt frá fæðingu. Ég horfði einmitt síðast á hana um páskana og kynnti þá Lindu minni fyrir henni.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn. Skal samt endurskoða málið ef einhver getur boðið mér te sem smakkast eins vel og það lyktar.
Uppáhalds árstími: Þær hafa allan sinn sjarma, en vorið og sumarið standa sennilega uppúr.
Besta líkamsræktin: Að moka taðgólf með kvísl og hjólbörum.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég hugsa að þegar kjöt er annarsvegar þá klikkar eldamennskan ekki.
Við hvað ertu hræddur: Ég er mjög feginn þegar lítið sést til geitunga.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Við venjulegan vinnudag þá hringir klukkan 6:10 og ekki í boði að snúsa. Annars eru óvenjulegir tímar í gangi í dag eins og flestir vita og þá þarf ég að fara á fætur á enn óvenjulegri tíma eða 3:30 og það elskar Bjarki ekkert mjög mikið.
Hvað gerir þú til að slaka á: Um leið og ég er kominn í skítagallann heima þá kemst maður í andlega slökun en sennilega er sófinn eða rúmið best fyrir líkamlega slökun.
Hvað finnst þér vanmetið: Sjálfbær landbúnaður.
En ofmetið: Áhrifavaldar og samfélagsmiðlar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ef að Helgi Björns er annarsvegar þá eru allir sexý.
Besta lyktin: Að kveikja undir hangikjeti.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að ganga frá í eldhúsinu eftir hana Lindu mína og skipta um á rúmum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Veit að þetta hljómar kannski frekar klisjukennt en gullna reglan á alltaf vel við.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Eyjafjöllin og allt sem þeim tilheyrir!
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Tillitsleysi og skortur á almennri skynsemi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það var frekar neyðarlegt einu sinni þegar ég var ásamt hópi fólks um nótt í gömlu Seljavallalauginni. Þar var fyrir annar hópur af fólki sem var enskumælandi. Þegar sá hópur fór uppúr þá vorum við mikið að velta fyrir okkur hvort ein stúlkan væri án klæða og var það rætt í bak og fyrir. Svo þegar stúlkan var að labba í burtu kom klassísk kveðja frá henni: „góða skemmtun í kvöld“.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig langaði alltaf að verða vörubílstjóri með krana. Einhverra hluta vegna hef ég nú ekki enn öðlast þau réttindi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Hjálmar Hjálmarson finnst mér ansi fyndinn leikari, sérstaklega karakterinn í Hæ Gosi.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Captain Jack Sparrow. Ég held það væri frekar ævintýralegur og eftirminnilegur dagur.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Það mun vera Facebook, kann voða lítið á annað.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi byrja á að splæsa á eina með öllu og allt undir (líka sinnepið) og ískaldri eyfellskri mjólk á alla. Svo fæða og klæða heiminn.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Þegar ég var 11 ára gamall fékk ég lægstu einkunn í minni skólatíð. Það var 1,0 í myndmennt.
Mesta afrek í lífinu: Jóhannes Erik, sonur okkar Lindu, er efstur á afrekslistanum.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara aftur í tímann og vilja vera farþegi með langafa mínum Brandi Stefánssyni (Vatna-Brandi) þegar hann keyrði um vegleysur og óbrúuð fljót á Suðurlandi víða, fyrstur manna.
Lífsmottó: Fyrst og fremst að hafa húmor fyrir sjálfum sér.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Hér í sveit er búið að skipuleggja tiltekt meðfram öllum vegum sveitarinnar á laugardaginn. Ég hvet alla sem munu eiga leið um svæðið að skella í eitt vink eða flaut.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÞrír strokupiltar handteknir í Þykkvabænum
Næsta greinGuðmundur Hólmar í Selfoss