Ungir vísindamenn voru verðlaunaðir á Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs HÍ á dögunum. Þar fékk Selfyssingurinn Guðjón Reykdal Óskarsson verðlaun Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Í rökstuðningi valnefndar sagði: Guðjón er afkastamikill vísindamaður sem hefur á skömmum tíma náð að birta tvær mjög viðamiklar rannsóknir þar sem hann ásamt meðhöfundum einangrar erfðabreytileika sem hafa umtalsverð áhrif á myndun blóðrauða. Í erindi sínu á þinginu kynnti hann nýja rannsókn þar sem bornir eru saman erfðabreytileikar og útlitseinkenni hvítra blóðkorna í 88 þúsund Íslendingum. Með þessu mátti einangra mjög sjaldgæfan breytileika með sterka sýnd sem tengja mátti beint við fjölskyldu með Pelger-Huet heilkennið. Framlag Guðjóns til vísindanna er því verulegt og því ljóst að hér er á ferðinni efnilegur vísindamaður.

Fullt nafn: Guðjón Reykdal Óskarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 1. maí 1991, Falun í Svíþjóð.
Menntun: Grunnám og meistaragráða í lyfjafræði en er að klára doktorsnám í líf- og læknavísindum.
Atvinna: Rannsakandi hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Á þessari stundu er það Hundrað ára einsemd eftir kólumbíska skáldið Gabriel García Márquez.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Klárlega Adventure Time sem þýðist að öllum líkindum sem Ævintýrastund á íslensku.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Á fullorðinsaldri hef ég séð Monty Python and the Holy Grail furðu oft en svarið er samt Space Jam ef litið er til fjölda ánægjulegra klukkutíma á minni ævi, þó ég hafi ekki séð hana í nokkur ár.
Te eða kaffi: Uppáhellt kaffi, ekki spurning.
Uppáhalds árstími: Sumarið er nú alltaf skemmtilegast.
Besta líkamsræktin: Þú ert ekki að spyrja réttan mann, en mér þykir ósköp gott að lesa.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Sennilega tacos með öllu tilheyrandi. Er samt meira í bakstri.
Við hvað ertu hræddur: Virðist vera verslunarmiðstöðvar, allavegana miðað við fjölda martraða varðandi þær.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Svona 7:15.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hlusta á tónlist eða lesa.
Hvað finnst þér vanmetið: Uppáhellt kaffi.
En ofmetið: Kenningar Jordan Peterson.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Elephant með Tame Impala peppar mig alltaf.
Besta lyktin: Þegar eitthvað gott bakkelsi er að bakast í ofninum hjá mér.
Bað eða sturta: Já.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst engin húsverk leiðinleg.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Skrifa fyrst, hugsa svo og laga.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani, morgnarnir eru bara of góðir til að missa af þeim.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Sennilega Alparnir þegar ég fór með lest frá Sviss til Austurríkis.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það er en nú ekki margt sem fer í taugarnar á mér en það sem fer næst því eru fordómar og þess háttar leiðindi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég vil nú vera Sunnlendingur vikunnar, svo það þarf að bíða betri tíma.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Fer eftir aldri en lengst af var það lögreglumaður eða vísindamaður.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ólafur Börkur Þorvaldsson kemur mér fyrst í huga, ég hef oft hlegið með honum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að prufa að vera John Malkovich, til að vita um hvað málið snýst.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Sennilega Reddit sem tekur of stóran hluta dagsins.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi sýkja alla jarðarbúa af svokölluðu alfa-gal heilkenni þar sem fólk fær ofnæmi fyrir rauðu kjöti. Ég er samt ekki grænmetisæta.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Held það sé ekkert, ég er aðeins of opinn.
Mesta afrek í lífinu: Að klára doktorsritgerðina.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég væri til í að fara svona hundrað ár fram í tímann til að sjá þær framfarir sem hafa orðið án þess að reikna með að allt sé farið til fjandans.
Lífsmottó: Lífið er tilgangslaust en það er ákveðin fegurð í því sem heillar mig.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Það er ekkert ákveðið, það getur allt gerst.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÞrjátíu nýir slökkviliðsmenn útskrifuðust
Næsta greinSunnlensku fjallkonurnar 2021