Tölvuþjónustan Moli – Tölvur og tækni á Selfossi flutti á dögunum skrifstofu sína að Austurvegi 1 á Selfossi. Alex Ægisson hefur rekið fyrirtækið síðan 2008 en hann þjónustar einstaklinga og minni fyrirtæki við tölvuviðgerðir og samsetningar, vefsíðugerð og flest annað sem lýtur að tölvutækni.

Fullt nafn: Alex Ægisson.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fæddur 26. september 1972 í Reykjavík en var sem betur fer fluttur fljótt á Selfoss.
Fjölskylduhagir: Einhleypur og barnlaus hundaeigandi.
Menntun: Kerfisfræðingur. En ég byrjaði einnig að læra rafvirkjun. Ég er einnig búinn að taka fjöldann allan af námskeiðum tengdum vinnunni og ekki síst björgunarsveitinni.
Atvinna: Ég á lítið tölvufyrirtæki sem heitir Moli – Tölvur og tækni. Þar sinni ég almennri tölvuþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Besta bók sem þú hefur lesið: The Martian eftir Andy Weir sem samnefnd bíómynd var gerð eftir. Eins og oft er bókin betri en myndin, þrátt fyrir að myndin hafi verið þræl góð.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Það er hægt að nefna svo marga. The Office, ameríska útgáfan er til dæmis góð, Breaking Bad, The Expanse eru dæmi um nokkra þætti sem ég hef hef gaman af.
Te eða kaffi: Er þetta ekki bara bæði gott. Ef ég þarf koffín þá er það kaffi en ég fæ mér oft te á kvöldin.
Uppáhalds árstími: Ætli það sé ekki vorið. Það er svo gaman að sjá náttúruna taka við sér og maður gerir plön og væntingar til sumarsins.
Besta líkamsræktin: Ég gef mér ekki mikinn tíma fyrir líkamsrækt. En ég og Tryggur voffi förum alltaf í tvo göngutúra á dag. Fyrst förum við um miðjan daginn útá sleppisvæðið sem er fyrir sunnan Selfoss. Þar hittum við vini okkar, tví- og fjórfætta. Svo er alltaf tekinn góður göngutúr á kvöldin líka.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Það er ekki hægt að segja að ég sé duglegur að elda en ætli ég sé ekki skástur að brasa eitthvað handa mér. Ekki endilega það hollasta en gott getur það verið.
Við hvað ertu hræddur: Ég er almennt ekki hræddur. En ætli ég sé ekki hræddastur við að eitthvað slæmt komi fyrir þá sem eru mér næstir og ég geti ekkert gert til að hjálpa.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer á fætur eitthvað rúmlega átta. Nema um helgar þá er sofið eitthvað lengur, ef Tryggur voffi leyfir.
Hvað gerir þú til að slaka á: Mér finnst gott að hlusta á gott podcast til þess að gleyma mér aðeins. Að fara út að rölta, með hundinum og hlusta á eitthvað skemmtilegt færir mann frá daglegu amstri.
Hvað finnst þér vanmetið: Allur þessi fjöldi sjálfboðaliða út um allt í samfélaginu. Hvar værum við ef við hefðum ekki allt þetta fólk sem er tilbúið að leggja á sig, oft mikla vinnu til þess að hjálpa náunganum.
En ofmetið: Eitt sem mér dettur til hugar er frægð. Sumir eru frægir fyrir það eitt að vera frægir. Og halda að þeir komist upp með allt því þeir eru frægir. Ef þú ert frægur, nýttu það til einhvers góðs.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það er svo mikið til af stuðlögum en I Gotta Feeling með Black Eyed Peas er með þeim betri. Byrjar rólega með væntingum um stemmingu og svo fer allt á fullt.
Besta lyktin: Nýjabíla lykt er svona lykt sem maður finnur ekki oft og hefur einhvern töfrablæ. Sérstaklega ef þú átt bílinn.
Bað eða sturta: Sturta ekki spurning. Nenni ekki að fara í bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Ætli það sé ekki að skúra. Alvöru skúringaróbot er ofalega á óskalistanum hjá mér.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Komdu fram við aðra eins og þú villt að þeir komi fram við þig. Gott ráð sem ég reyni að fara eftir.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn! Morgnarnir eru ekki minn tími. Ég reyni þó að taka þátt.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég ætla að nefna Flatey á Breiðafirði en ég kom þangað í fyrsta skipti síðasta sumar. Það er einhver töfrablær yfir staðnum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óheiðarleiki og óstundvísi. Ég vil ekki vera nálægt óheiðarlegu fólki og óstundvísi er ekkert nema þjófnaður á tíma annara.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég bara man ekki eftir neinu sérstöku neyðarlegu atviki. En ég týndist í hátt í klukkutíma í stórum skemmtigarði í Isle of Wight í Englandi þegar ég var um 6 ára gamall. Ég vissi ekkert að ég væri týndur. Ég vildi bara skoða meira og hraðar en fjölskyldan.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég var alveg ákveðinn í að verða flugmaður. Sem ég varð að vissu leiti en þó ekki alveg. Í dag læt ég fjarstýrðar flugvélar duga.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það er til mikið að fyndnu fólki, erfitt að segja hver er fyndnastur. Jimmy Carr er alltaf góður.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Elon Musk. Ég væri til í að kynnast hans heimi betur en ég er áhugamaður um flest allt sem hann gerir. Svo myndi ég senda nokkrar Teslur til mín á Selfoss. Eina af hverri tegund. Allar rauðar.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota mest Facebook en fylgist einnig ágætlega með Twitter enda eru margir áhugaverðir duglegir að setja þangað inn. Annars reyni ég að vita eitthvað um flesta samfélagsmiðlana, til þess að vera inní þessum heimi.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég mundi byrja á að banna notkun jarðefnaeldsneytis og banna trúabrögð. Ætli þetta mundi ekki stoppa flest öll stríð. Svo mundi ég láta alla fá gæludýr, því þau gera okkur svo gott.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Eins mikill flug áhugamaður og ég er, þá er ég að vissu leiti flughræddur.
Mesta afrek í lífinu: Ég hef verið svo heppinn að geta bjargað mannslífum þegar ég var virkur í björgunarsveitinni en ég get ekki tjáð mig mikið um það.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég væri til í að fara 100 ár fram í tímann og sjá hvar mannkynið er statt. Hvaða tækni er komin, erum við kannski útdauð og hvað tölur eru í næsta Lottó?
Lífsmottó: Vona það besta, gera ráð fyrir því versta. Ég tel mig vera jákvæðan mann og geri ráð fyrir því að hlutirnir fari vel, en ég vil vera tilbúinn því ef hlutirnir fara illa.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætlaði að fara í vorverkin í garðinum enda búið að vera hálfgert vor í mest allan vetur. En loksins þegar vorið er komið samkvæmt dagatalinu þá skellur á vetur og COVID-hömlur í þokkabót. Það verður því eflaust eitthvað lítið gert um helgina en ég finn mér alltaf eitthvað að gera.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinEyrarbakkaljósmyndir Sigurðar kaupmanns í Húsinu
Næsta greinGuðmundur bakari ber fegurstu mottuna