Selfyssingurinn Hildur Maja Guðmundsdóttir skráði sig á dögunum í sögubækurnar er hún varð fyrst allra íslenskra kvenna til þess að vinna til verðlauna á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum. Það gerði hún á móti í Tashkent í Úsbekistan. Hildur býr á Selfossi en stundar æfingar hjá Gerplu og keyrir í Kópavoginn á hverjum degi, þar sem hún ver sjö tímum á dag við æfingar.
Fullt nafn: Hildur Maja Guðmundsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist 6. júní árið 2005 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Ég er einhleyp og er búsett á Selfossi með foreldrum mínum.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Olga Bjarnadóttir frá Selfossi og Guðmundur Sigmarsson úr Aðaldal.
Menntun: Ég er með stúdentspróf frá FSu.
Atvinna: Í sumar er ég ekki í vinnu en annars vinn ég sem stuðningsfulltrúi í Vallaskóla á Selfossi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Les ekki mikið af bókum en fannst bókin hennar Katrínar Tönju góð.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Hef ekki mikinn tíma í að horfa á sjónvarp en minn go to þáttur er líklegast Gossip Girl eða einhverjir læknaþættir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég og mamma horfum alltaf saman á The Holiday um jólin og það er mynd sem ég get horft aftur og aftur.
Te eða kaffi: Hvorugt, en lyktin af kaffi er rosa góð.
Uppáhalds árstími: Ég held að það sé sumarið, því þá er ég á æfingum allan daginn og svo skemmir ekki ef það er gott veður. Ekkert er betra en íslenskt sumarveður.
Besta líkamsræktin: Ég myndi segja að það væru fimleikaæfingar en svo er líka mjög gott að skíða og er aðeins farin að prófa mig áfram í golfi.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er ekki mjög fjölhæf þegar að kemur að eldamennsku en ég elska að elda hreinan mat eða lítið unninn. Þannig að bara kjöt, fiskur og kjúklingur er það sem ég elda oftast.
Við hvað ertu hrædd: Ég hef alltaf verið mjög hrædd við köngulær.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég elska early og slow mornings og fer oftast á fætur í kringum sexleytið.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég á mjög erfitt með að slaka á en finnst mjög kósý að slaka á í pottinum heima.
Hvað finnst þér vanmetið: Skemmta sér án áfengis finnst mér alveg pínu vanmetið.
En ofmetið: Ég myndi segja að Friends þættirnir séu ofmetnir.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Bara eitthvað lag með Gumma Tóta.
Besta lyktin: Bensínlykt er lúmskt góð.
Bað eða sturta: Ég verð að segja sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Það er að ganga frá þvotti.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ætli það sé ekki bara að trúa á ferlið. Það gerist ekki allt á núll einni heldur tekur allt sinn tíma. Þarf að minna mig svolítið á þetta í fimleikunum því markmiðin taka sinn tíma þótt manni langi að ná þeim strax.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er morgunhani þótt mig langar oft að vera nátthrafn en elska að fara snemma að sofa og vakna snemma.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það er fátt fallegra en útsýnið úr ítölsku Ölpunum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ég þoli ekki að vera sein eitthvert, enda gerist það mjög sjaldan.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Mér dettur ekkert svaka neyðarlegt í hug, örugglega bara eitthvað faceplant í fimleikum eða detta á klofið á slá á alþjóðlegu móti. Það var alveg smá neyðarlegt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig langaði að verða lögga.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Þjálfarinn minn getur verið mjög fyndinn og Linda vinkona mín.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég held ég verði að segja Simone Biles sem er besta fimleikona allra tíma. Það væri svo gaman að geta gert momentin og stökkin sem hún getur í áhaldafimleikum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota mest Snapchat eða Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi stoppa öll stríð.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er mjög félagsfælin og feimin.
Mesta afrek í lífinu: Það er að verða fjórfaldur Norðurlandameistari og fyrsta íslenska konan til að vinna til verðlauna á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég held að ég myndi ferðast aftur í tímann til að upplifa tímann í gamla daga en svo væri líka gaman að sjá hvar ég mun enda í framtíðinni.
Lífsmottó: Don’t wait until you have reached your goal to be proud of yourself. Be proud of every step you take toward reaching that goal.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég held ég muni eiga rólega helgi þar sem ég á flug á sunnudeginum til Hollands í smá æfingaferð en fara á æfingu og pakka líklegast. Helgina þar á eftir er það svo Kótelettan með góðum vinum.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is