Krabbameinsfélag Árnessýslu stendur nú fyrir hönnunarsamkeppni á prjónuðum eða hekluðum bangsa sem mun gegna því hlutverki að bera hlýju og kærleika til þeirra sem þurfa huggun á erfiðum tímum. Hægt er að fræðast nánar um samkeppnina hér. Svanhildur Ólafsdóttir á Selfossi er formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu sem sinnir öflugu starfi meðal annars með stuðningshópum fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Fullt nafn: Svanhildur Inga Ólafsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd í Vestmannaeyjum þann 20. febrúar 1979. Þar bjó ég til 10 ára aldurs og flutti þá á Selfoss þar sem mér finnst best að búa.
Fjölskylduhagir: Gift Ölver Jónssyni, flugstjóra og eigum við fimm börn.
Menntun: Félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur. Er einnig meðlimur í fagdeild sáttamiðlara.
Atvinna: Starfa í geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Besta bók sem þú hefur lesið: Tvær bækur hafa haft mikil áhrif á mig, bækurnar Hann var kallaður þetta og Myndin af pabba. Báðar átakanlegar sögur af mögnuðu fólki sem skiluðu skömminni!
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Viking er í algjöru uppáhaldi hjá okkur hjónum og bíðum við spennt eftir framhaldinu. Svo finnst mér mjög gaman að horfa á America’s Funniest Home Videos með yngri stráknum mínum því honum finnst allt svo fyndið.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Líklega hef ég ekki horft á neina mynd jafn oft og fyrstu Grease myndina, gæti líklega farið með handrit allra persónanna.
Te eða kaffi: Kaffi með mjólk svona hversdags og kaffi með Baileys sem spari.
Uppáhalds árstími: Mér finnst allar árstíðir hafa sinn sjarma. Ég elska óveður ef ég er inni í hlýjunni, haustið skartar fallegustu litunum, vorið er með besta ilminn og sumarið gefur mesta vítamínið.
Besta líkamsræktin: Kraftbrennzlan á Selfossi er minn staður. Andlegt og líkamlegt vítamín!
Hvaða rétt ertu best að elda: Á heimilinu er yfirleitt besta salan í Doritoz kjúklingnum.
Við hvað ertu hrædd: Ég óttast sjóinn…
Klukkan hvað ferðu á fætur: Klukkan hringir 07:00 og þá sprett ég á fætur.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer á hótel með manninum mínum, setjum tærnar upp í loft, skálum í rauðvíni og tökum algjöra slökun. Á sumrin finn ég slökun í útilegum, að vera úti í náttúrunni og eiga tíma með fjölskyldunni.
Hvað finnst þér vanmetið: Tíminn er vanmetinn. Sjáum oft ekki hversu mikilvægur hann er fyrr en hann er liðinn. Þurfum að læra að meta hann betur!
En ofmetið: Samfélagsmiðlar!
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Lagið Happy með Pharrell Williams er snilld. Spáið í áhrifunum í einu lagi, fær fólk til að dilla sér og syngja bestu möntru lífsins.
Besta lyktin: Lyktin af ungabörnum.
Bað eða sturta: Snögg sturta enda með stutt hár og óþarfi að dvelja of lengi við.
Leiðinlegasta húsverkið: Að hengja upp þvottinn og ganga frá hreinum þvotti… ég skal gera allt hitt.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Pabbi er sá maður sem hefur gefið mér flest ráðin á minni lífsleið. En ég kynntist magnaðri stelpu þegar ég var í fyrri krabbameinsmeðferðinni minni. Sú stelpa var í fjórða sinn í meðferð og tapaði hún baráttunni fyrir um tveimur árum. Þessi stelpa sagði við mig í einu spjallinu okkar að ekkert verkefni væri erfiðara en maður leyfði því að vera. Þessa setningu minni ég mig ávallt á þegar ég stend frammi fyrir áskorunum í lífinu. Við höfum alltaf val um hvernig við viljum takast á við erfiðleika og hindranir sem verða á vegi okkar.
Nátthrafn eða morgunhani: Miklu meiri morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Við fjölskyldan ferðuðum til Ítalíu sumarið 2017. Í þeirri ferð skoðuðum við þjóðgarð sem heitir Cinque Terre. Sá staður er með þeim fallegri sem ég hef komið til. Á Íslandi hefur Ásbyrgi vinninginn þó Vestmannaeyjar skori hátt á fallegum sumardegi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Tilætlunarsemi, hroki og óheiðarleiki.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Við hjónin fórum eitt sinn í PaintBall saman og vorum ásamt mörgum öðrum uppáklædd í galla og með grímu. Ég taldi mig standa við hlið mannsins míns og vorum við að hlusta á starfsmann fara yfir reglurnar þegar ég halla mér að manninum mínum og ætlaði að leggja höfuðið á öxlina á honum. Tek þá eftir að maðurinn minn stendur á móti mér… en ekki við við hliðina á mér.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði alltaf að verða rithöfundur. Sá draumur er ekkert endilega farinn, bara á smá bið.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Held að það sé engin ein manneskja sem mér finnst fyndnust. Ég get hlegið óþarflega mikið af óförum annarra eins og FailArmy og þess háttar myndböndum og svo finnst mér fimmaura brandarar fáránlega fyndnir.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook, er skrollari sem kommentar sjaldan.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Það væri réttast að segja að ég myndi vilja frið á jörð og allt það en líklega myndi ég nota daginn til að útrýma ofbeldi gegn börnum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Mér er lífsins ómögulegt að rífast… ekki séns!
Mesta afrek í lífinu: Það er ekkert afrek sem hefur tekið eins mikið á, verið jafnt vont en veitt mér jafn mikla gleði eins og að koma öllum börnunum mínum í heiminn.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég er eitthvað svo mikið í núinu að ég á erfitt með að svara þessari spurningu. Finnst óþarfi að ferðast aftur í tímann því þar er ekkert sem get ég breytt, langar ekki að ferðast fram í tímann því þá spilli ég því óvænt, þannig að ég verð bara hér.
Lífsmottó: Ég hef tileinkað mér æðruleysi í lífinu og finnst það hjálpa mér í samskiptum, að taka ákvarðanir í lífinu og velja mér barátturnar.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Helgin er frekar óplönuð. Mamma er væntanleg í heimsókn og þá verður hún nú knúsuð í kremju, ekki á hverjum degi sem ég hitti hana því hún býr í Eyjum. Svo förum við fjölskyldan kannski í dags-óvissuferð sem við höfum svo gaman af. Þá er bara sest upp í bíl og keyrt eitthvert og gert eitthvað – ekkert ákveðið fyrirfram. Þessar ferðir skilja alltaf eftir skemmtilegar minningar sem gaman er að rifja upp.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinRakel framlengir á Selfossi
Næsta greinSkráning hafin í frjálsíþróttaskólann