Á aðalfundi Klúbbs matreiðslumeistara í september var Eyrbekkingurinn Þórir Erlingsson  kjörinn forseti til tveggja ára. Klúbbur matreiðslumeistara stendur fyrir fjölmörgum verkefnum en það allra stærsta er rekstur á Kokkalandsliði Íslands.

Fullt nafn: Þórir Erlingsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Í Reykjavík 16. október 1973.
Fjölskylduhagir: Giftur Katrínu Ósk Þráinsdóttir læsisfræðingi og eigum við tvö börn; Eydísi Líf og Eyþór Ás.
Menntun: Matreiðslumeistari og með meistargráðu í alþjóðlegri gestrisni og ferðaþjónustustjórnun frá Suður-Karólínu háskóla.
Atvinna: Kennari við Háskólann á Hólum og verkefnastjóri hjá Keili.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þær eru margar, en sú sem er mér efst í huga núna er Rich Dad Poor Dad.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Í augnablikinu á ég engan uppáhalds en lengi vel var það NCIS og The West Wing.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Horfi helst ekki á myndir aftur og aftur.
Te eða kaffi: Kaffi, tvöfaldur expresso er uppáhaldið.
Uppáhalds árstími: Vorið, ekki spurning! Sjá náttúruna vakna úr vetrardvala og endurheimta löngu dagana.
Besta líkamsræktin: Hjóla. Sama hvort það er á götuhjóli, fjallahjóli eða á spinning hjóli.
Hvaða rétt ertu bestur í að elda: Mér finnst skemmtilegast að elda fisk.
Við hvað ertu hræddur: Bara ef ég vissi.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þegar enn er nótt segir frúin en oftast einhvertíman milli 6 og 7.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hjóla, fara í gufu og horfa á sjónvarp.
Hvað finnst þér vanmetið: Íslenskar matarhefðir.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Hlusta á allskonar tónlist en velti aðallega fyrir mér textum. Man ekki eftir neinu lagi sem kemur mér alltaf í stuð en mest spilaða lag hjá mér á Spotify 2019 var Sódóma með Sálinni hans Jóns míns.
Besta lyktin: Blanda af birki og lyngi.
Bað eða sturta: Sturta. Ekki verra ef það er gufa í Sundhöll Selfoss á undan.
Leiðinlegasta húsverkið: Skúringar. Ekki spurning!
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Fortíðin er liðin, framtíðin er á morgunn, nútíðin er í dag.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þarf að svara þessu? Ísland í heild á öllum árstímum og ég myndi mæla með hringferð að vetrarlagi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Líklega óstundvísi, en reyni samt að njóta lífisins og láta hluti ekki fara í taugarnar á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Af ýmsu er að taka en ætli ég nefni ekki að Sölvi Hilmarsson matreiðslumeistari og vinur minn gerir oft grín að mér fyrir skemmtileg vigtunarmistök í þorrablótstörn í kringum árið 2000.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ætlaði alltaf að verða flugmaður en lenti óvart í því að læra kokkinn og sé alls ekki eftir því.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Nokkrir koma upp í hugann en ætli ég nefni ekki Pétur Jóhann. Nokkru áður en hann varð frægur fyrir fyndni sína þá var hann var að keyra út Grolsh bjór og þá var hann ekki síður fyndinn heldur en hann er sem uppistandari.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Held að það myndi ekki duga mér að vera einhver annar bara í einn dag.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég setja reglur um að allir einstaklingar á aldrinum 18 til 25 hvar sem þeir búa í heiminum yrði gert skylt að búa í öðru landi og jafnvel öðrum heimshluta í að minnsta kosti 2 ár.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Eitt af fyrstu verkefnum mínum sem starfsmaður Suður-Karólínu háskóla var að mæta í sjónvarp og kenna Suðurríkjabúum að elda Þakkargjörðarmáltíð.
Mesta afrek í lífinu: Held það sé annarra að meta það.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Myndi líklega heimsækja íslenskan bóndabæ um 1850 og læra aðferðir sem voru notaðar þá við vinnslu matvæla.
Lífsmottó: Lifðu lífinu lifandi.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Njóta þess að vera heima og kenna aðeins í fjarkennslu.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHacking Hekla – sunnlenskt lausnamót á netinu
Næsta greinFækkar um 550 í sóttkví í Árborg