Ólafur Már Ólafsson á Stokkseyri hefur haft í mörg horn að líta á síðustu dögum en hann er forsvarsmaður Bryggjuhátíðarinnar sem hefst í dag. Einn af hápunktum hennar er kvöldvaka og bryggjusöngur á Stokkseyrarbryggju í kvöld, föstudagskvöld. Á laugardag verður fjölbreytt dagskrá fyrri alla fjölskylduna en hátíðinni lýkur á sunnudag með ýmsum menningarviðburðum.

Fullt nafn: Ólafur Már Ólafsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 12. desember 1980, Selfossi.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Hönnu Siv Bjarnardóttur og börnin eru þrjú; Thelma Eir, Almar Elí og Elín Eik.
Menntun: Húsasmiður.
Atvinna: Loðdýrabóndi og smiður.
Besta bók sem þú hefur lesið: Grafarþögn eftir Arnald Indriðason.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Klárlega Game of Thrones.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Geri lítið af því í dag, læt duga að horfa á þær einu sinni.
Te eða kaffi: Alltaf kaffi.
Uppáhalds árstími: Haustið, veiði og uppskerutími.
Besta líkamsræktin: Röskleg ganga.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Eitthvað gott á grillinu.
Við hvað ertu hræddur: Að við séum búnir að klúðra jörðinni fyrir komandi kynslóðir.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Oftast upp úr sjö.
Hvað gerir þú til að slaka á: Veiði. Þá bæði á byssu og stöng. Eða ligg yfir góðum þætti í sófanum.
Hvað finnst þér vanmetið: Að gefa af sér fyrir samfélagið.
En ofmetið: Mikill frítími.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Glow með Retro Stefson.
Besta lyktin: Af íslensku birki í rigningu.
Bað eða sturta: Klárlega sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Þrífa upp súra kókómjólk úr heimilisbílnum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Láttu gott af þér leiða og sjáðu ekki eftir neinu.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Veiðivötn.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Tillitsleysi og tilætlunarsemi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar tungan á mér fraus föst við loðnublokk á næturvakt í frystihúsinu á Stokkseyri fyrir framan fullan sal af fólki.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Það stóð til að verða bóndi eða flugmaður.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég hef gaman af Hjálmari Erni og Sóla Hólm.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég held að ég myndi ekkert vilja skipta. Veit hvað ég hef en ekki hvað ég fengi.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook, allvega þessa dagana.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég reyna að rétta við allt ruglið í heiminum, það hlýtur alvaldur að geta gert.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að ég sé með faðm upp á 2,10 m.
Mesta afrek í lífinu: Að eignast börnin mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: 100 ár fram til að sjá hvar við stöndum þá.
Lífsmottó: Helst ekki skorast undan áskorunum.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Auðvitað skella mér á Bryggjuhátíð á Stokkseyri. Hugsa um búskapinn og fara í eitt brúðkaup.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÁrborg styrkir stöðu sína
Næsta greinSuðurlandsvegur lokaður vegna umferðarslyss