Guðný Ósk Atladóttir frá Hvolsvelli var dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands á nýliðinni haustönn. Guðný Ósk lauk námi sínu með framúrskarandi árangri í flestum greinum. Auk þess að hljóta styrk frá Hollvarðasamtökum skólans fékk hún sérstakar viðurkenningar í þýsku, íslensku, viðskipta- og hagfræðigreinum, ensku, félagsgreinum og stærðfræði.

Fullt nafn: Guðný Ósk Atladóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd 21. júní 2007 á HSU á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Ég bý hjá foreldrum mínum á Hvolsvelli og á tvo eldri bræður.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Þuríður Vala Ólafsdóttir frá Þorvaldseyri og Atli Engilbert Óskarsson frá Álftarhóli.
Menntun: Ég var að útskrifast sem stúdent úr Fjölbrautaskóla Suðurlands af viðskipta- og hagfræðilínu.
Atvinna: Hef unnið í Krónunni, en nú er ég að leita að vinnu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég hef lesið margar mjög góðar bækur og því er erfitt að velja einhverja eina sem er best. Ein mjög góð sem ég las nýlega er Krúnuleikar (A Game of Thrones) eftir George R. R. Martin. Einnig er ég mjög hrifin af bókunum um Jönu Berzelius eftir Emelie Schepp.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi ekki mikið á sjónvarp, en ég myndi líklega segja að þættir á borð við Yellowstone, House of the Dragon og DNA séu í uppáhaldi.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Líklega Johnny English eða jólamyndina The Holiday.
Te eða kaffi: Ég drekk hvorugt. Fæ mér frekar mjólk eða vatn að drekka.
Uppáhalds árstími: Vorið er í uppáhaldi því þá koma farfuglarnir og náttúran lifnar við.
Besta líkamsræktin: Mér finnst best að fara út að hjóla eða ganga.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er best í að elda pastarétti.
Við hvað ertu hrædd: Ég er frekar hrædd við geitunga af því ég á erfitt með að sjá þá.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er mjög misjafnt. Þegar ég var í skólanum fór ég á fætur klukkan 6:30, en um níu leytið um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Til að slaka á kem ég mér vel fyrir og annað hvort les bók eða fæ mér stuttan lúr.
Hvað finnst þér vanmetið: Mér finnst myntuís vera vanmetinn. Ég veit að mörgum finnst hann bragðast eins og tannkrem, en mér finnst hann samt mjög góður.
En ofmetið: Mér finnst söngkonan Taylor Swift og lögin hennar vera ofmetin.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég er með minn eigin spilunarlista á Spotify sem inniheldur gömul íslensk dægurlög og hlusta á hann þegar ég vil komast í stuð.
Besta lyktin: Lyktin af nýjum bókum er mjög góð.
Bað eða sturta: Ég fer frekar í sturtu.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst leiðinlegast að vaska upp.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að gleyma mér ekki í smáatriðunum.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er meiri morgunhani en nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Mér finnst Gjáin í Þjórsárdal og Þingvellir mjög fallegir staðir.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ókurteist fólk.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Vegna sjónskerðingar minnar hef ég oft lent í aðstæðum þar sem ég fer til dæmis mannavillt og einnig hef ég gengið á glerhurð. Það er mjög neyðarlegt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Þegar ég var í leikskóla horfði ég mikið á videospólur með Línu langsokk og ætlaði að verða „sjóræningja-Lína“, eins og hún. Svo breyttist það sem betur fer í að verða rithöfundur, síðan lögfræðingur og núna stefni ég á að verða viðskiptafræðingur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Mamma á það til að vera mjög fyndin, Ari Eldjárn er góður grínisti og oft veltur eitthvað hnyttið upp úr þáttastjórnendum Kappsmáls.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi ekki vilja vera neinn annar en ég sjálf.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota aðallega Facebook. Ótrúlegt en satt þá er ég hvorki á TikTok né Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ef ég væri alvaldur þá myndi ég koma á friði í öllum heiminum, hvernig sem ég færi nú að því.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Margir vita að ég er lögblind, en færri vita að ég get lesið kóreskt letur, þótt ég tali ekki kóresku.
Mesta afrek í lífinu: Hingað til er það að hafa dúxað við útskrift úr FSu. Það kom skemmtilega á óvart.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast aftur í tímann til annað hvort seinni hluta tuttugustu aldar eða til landnáms Íslands. Ég væri til í að upplifa Ísland á öðrum hvorum tímanum, hitta fólkið og spjalla við það.
Lífsmottó: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Bara njóta jólanna með fjölskyldunni, góðum bókum og konfekti.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinBorðtennisborð í jólagjöf skilaði Íslandsmeistaratitlum