Grímur Hergeirsson var fyrr í vikunni ráðinn þjálfari Íslandsmeistara Selfoss í handknattleik til næstu tveggja ára. Hann er Selfyssingum að góðu kunnur en auk þess að hafa verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks undanfarin fjögur ár hefur hann einnig þjálfað kvennalið félagsins sem og yngri flokka og á sínum tíma var hann einnig öflugur leikmaður í liði Selfoss. Grímur mun halda uppi lögum og reglu í Hleðsluhöllinni en hann er einnig yfirlögfræðingur hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi.

Fullt nafn: Grímur Hergeirsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur þann 4. júní 1969 á Birkivöllum 24 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Giftur Björk Steindórsdóttur, ljósmóður með meiru. Eigum fjögur börn saman, þau Hildi, Evu, Hergeir og Ragnheiði. Auk þess eigum við heimilisköttinn Tinnu.
Menntun: Hefilspónastúdent frá FSu, sveinspróf í húsasmíði, próf frá Lögregluskóla ríkisins, meistarapróf í lögfræði frá HÍ.
Atvinna: Yfirlögfræðingur hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi og þjálfari meistaraflokks Selfoss í handbolta.
Besta bók sem þú hefur lesið: Lísa í Undralandi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Fréttir og veður.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Forrest Gump er meistarastykki sem hægt er að horfa á aftur og aftur.
Te eða kaffi: Kaffi fyrir allan peninginn.
Uppáhalds árstími: Sumarið. Þetta árið var það maí, nánar til tekið 22. maí.
Besta líkamsræktin: Fjallgöngur og skokk úti í náttúrunni.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég er meistari í grilluðum laxi og silungi. Fáir betri þar.
Við hvað ertu hræddur: Hlýnun jarðar af mannavöldum er klárlega það sem ég óttast mest.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Flesta daga er ég kominn á ról á milli klukkan sjö og hálfátta. Ég svaf út um helgar þegar ég var yngri en það hefur heldur fjarað undan því með árunum.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í veiði með félögunum.
Hvað finnst þér vanmetið: Áhrif vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum.
En ofmetið: Pizza.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það er klárlega Draumalandið með Sælunni og Ingó Tóta.
Besta lyktin: Lyktin af jólahangiketinu er líklega jafn besta lyktin í lífinu.
Bað eða sturta: Sturta, er ekki með baðkar!
Leiðinlegasta húsverkið: Ég er nú ekki sterkastur í húsverkunum en líklega er það að þurrka af hillum með miklu dóti í.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Það er mér alveg óráðið.
Nátthrafn eða morgunhani: Svolítið bæði, kannski meiri nátthrafn samt.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Veiðivötn á Landmannaafrétti.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ekkert fer meira í taugarnar á mér en að tapa handboltaleik.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar við Björk stóðum við altarið í brúðkaupinu okkar og presturinn reyndi að fá mig til að ganga að eiga Sigríði Garðarsdóttur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Það var mjög á reiki, enda sá ég fljótlega að ég yrði ekkert sérstaklega stór.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Jón Gnarr.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Væri til í að vera markmaður í handbolta. Mig langar að komast að því hvað er heillandi við að fá bolta í sig á 100 km hraða af stuttu færi.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Nota þá ekki mikið en er með Snapchat og Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá væri heimurinn betri í einn dag.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er liðtækur harmónikkuleikari og svo kann ég alla fána heimsins utanað!
Mesta afrek í lífinu: Erfitt að segja til um það en þegar öllu er á botninn hvolft er líklega mesta afrekið að vera enn þá þokkalega sprækur og uppi standandi.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Fram í tímann til að sjá hvernig okkur tókst til að bæta heiminn og sporna við þeim mörgu ógnum sem steðja að í dag.
Lífsmottó: Gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Það verður laxveiði fyrri hluta helgar og svo verður farið í Veiðivötn í framhaldi af því.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinJafnt í toppslagnum í Þorlákshöfn
Næsta greinLögreglan lýsir eftir Renars