Vala Hauksdóttir, ferðamálafræðingur og ljóðskáld á Selfossi, er handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör en verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á afmælisdegi skáldsins þann 21. janúar síðastliðinn. Alls bárust 270 ljóð í keppnina en verðlaunin hlaut Vala fyrir ljóðið Verk að finna. „Myndirnar sem brugðið er upp í ljóðinu af aðskotahlutum sem særa líkamann eru hárnákvæmar, tálgaðar og allt að því óþægilegar. Agað formið kallast á við efniviðinn og ljóðskáldið teflir saman mýkt og hörku af miklu listfengi,“ svo vitnað sé í dómnefndina. Vala er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Vala Hauksdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist á Húsavík, þann 13. febrúar árið 1992.
Fjölskylduhagir: Ég bý á Selfossi með manninum mínum, Atla Pálssyni, börnunum okkar sem eru 2 og 6 ára, hundinum Heklu og köttunum Lukku og Zorbas.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Auður og Haukur í Ásamýri. Mamma er sóttvarnadýralæknir á Matvælastofnun og pabbi er þjálfunarstjóri hjá Icelandair.
Menntun: Ég stundaði listnám og félagsfræði í FSu og vatt mér svo í ferðamálafræði í Háskóla Íslands og University of Limerick í Írlandi. Eftir að hafa starfað í ferðaþjónustu í áratug er ég komin í mastersnám í ritlist samhliða vinnu.
Atvinna: Ég er verkefnastjóri áfangastaðaáætlunar hjá Markaðsstofu Suðurlands. Mæli með að lesa þá frómu áætlun!
Besta bók sem þú hefur lesið: The Art of Travel eftir Alain De Botton er bók sem ég get lesið aftur og aftur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Dirk Gently’s Holistic Detective Agency. Háklassa vitleysa.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Notting Hill og The Holiday. Engin frumlegheit hér, bara kósý og kunnuglegt.
Te eða kaffi: Ég er soldið að vinna með tvöfaldan Espressó og Kamillu-Hamp-te á morgnana núna.
Uppáhalds árstími: Veturinn, ég er myrkravera.
Besta líkamsræktin: Gönguferð með gott nesti og jafnvel veiðistöng eða tjald.
Hvaða rétt ertu best að elda: Atli er kokkurinn í hjónabandinu en ég er snillingur í að elda grjónagraut.
Við hvað ertu hrædd: Ég er með skemmtilega fóbíu sem heitir Trypophobia. Reyndar fór ég í sálfræðimeðferð til að takast á við hana í fyrra og hefur mikið farið fram. Ég mæli eindregið með því að sækja sér aðstoð ef maður lifir með einhverri leiðinda fælni. Það var auðveldara en ég átti von á!
Klukkan hvað ferðu á fætur: Klukkan sjö. Ég er gífurlega sérhlífin týpa þegar ég er í svefnrofunum og börnin mín komast sko alls ekki upp með að draga mig á fætur fyrr.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég mála myndir, skrifa, les, fer út í náttúruna eða leik við börnin mín.
Hvað finnst þér vanmetið: Skammdegið og hversdagsleikinn. Þurfum við alltaf að vera að breyta til?
En ofmetið: Sparinesti og þemadagar. Sorrí með mig, ég held ég sé ekki svona leiðinleg en ég endurtek: Þarf alltaf að vera að breyta til?
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég tek að minnsta kosti vikulegt danspartý eftir kvöldmatinn með krökkunum mínum og þá störtum við fjörinu alltaf með Í-lari-lei með Stuðlabandinu. En ef ég er ein í bílnum finnst mér gott að blasta System of a Down og syngja þangað til röddin gefur sig.
Besta lyktin: Súpan sem Atli byrjar iðulega að malla á Þorláksmessu. Þetta er gömul uppskrift úr fjölskyldunni hans, þau kalla hana grænmetissúpu en ég held þetta sé nú aðallega nautabein og rjómi.
Bað eða sturta: Sturta! Langar heitar sturtur eru ein af íslensku nautnunum sem ég sakna alltaf þegar ég er erlendis.
Leiðinlegasta húsverkið: Að brjóta saman þvott. Í þvottahúsinu mínu er iðulega fjall af hreinum þvotti sem við köllum Þvott-Everest.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þetta eru allt tímabil. Vinkona mín í hjálparsveitinni kenndi mér þessa möntru þegar ég átti von á fyrsta barninu mínu. Uppvöxturinn og lífið skiptist niður í ótal tímabil og það er vissara að njóta þeirra í stað þess að mæðast yfir þeim.
Nátthrafn eða morgunhani: Skapandi-Vala er nátthrafn en Skynsama-Vala er morgunhani. Þetta eru tvær ólíkar persónur sem vilja svolítið takast á.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Gjáin í Þjórsárdal. Hún er eins og leiksvið einhvers ævintýris, ég kemst ekki hjá því að ímynda mér álfabyggðir og orrustuvelli í þessari leyndardómsfullu vin.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk kvartar yfir veðrinu. Við erum öll í sömu súpunni og það er ekkert við þessu að gera, snúum okkur bara að einhverju öðru eða klæðum okkur betur.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég hef eiginlega þurft að sætta mig við það hlutskipti í lífinu að vera almennt frekar neyðarleg manneskja. Ég er þessi sem detur upp stiga, missir bíllyklana niður lyftuhús og hellir rauðvíni yfir tengdapabba á jólunum. Það neyðarlegasta hlýtur þó að vera þegar ég lenti í smávægilegu umferðaróhappi fyrir nokkrum árum. Það var enginn meiddur og engar skemmdir á ökutækjum svo ég settist upp í bíl huggulegu konunnar sem lenti í þessu atviki með mér, baðst afsökunar og spurði hana svo um nafn og símanúmer ef ske kynni að við þyrftum að ná í hvor aðra. Þá svaraði hún auðmjúklega: „Ég heiti Vigdís Finnbogadóttir, símanúmerið mitt er…“
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Rithöfundur, fornleifafræðingur eða áhættuleikari. Ég held ég haldi mig við þetta fyrsta, samhliða ferðaþjónustunni. Jackie Chan og Indiana Jones eru ekki lengur átrúnaðargoðin mín.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Fjölskyldan mín er eiginlega algjört met. Gunnar bróðir er á lúmskan hátt fyndnasta manneskjan sem ég þekki. Mér fannst hann það þó ekki fyrstu fimmtán ár ævinnar – bara illkvittinn – en þegar ég hætti að vera aðal aðhlátursefnið hans áttaði ég mig á því hvað hann er í raun fyndinn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi prófa að ganga í spor barnanna minna til að fá betri innsýn í hvernig þeim líður og hvernig heimurinn blasir við þeim.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég er gamaldags á Facebook, nota það til að segja frá fallegum eða neyðarlegum atvikum úr hversdagslífinu, deila ljóðum eða varpa fram vangaveltum. Glansmyndirnar eru allar á instagram svo núna nýtist Facebook betur til að sýna sinn innri lúða. Ég kann að meta það.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þegar ég hefði lokið við að koma á friði og leysa sorpmálin myndi ég bara hafa það náðugt.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég keypti mér kind þegar ég var um það bil tíu ára, eftir að hafa aðstoðað við ómskoðanir á bænum Vatnshömrum í Borgarfirði. Hún hét Skjóða og fékk að búa heima hjá vinkonu minni því ég átti að
sjálfsögðu ekki fjárhús. Hún reyndist mikill forystusauður og afburðagreind.
Mesta afrek í lífinu: Fyrir utan barnauppeldið þá hugsa ég að mitt mesta afrek í lífinu hingað til hafi verið að vinna Ljóðstaf Jóns úr Vör. Þetta verður til þess að ég er í fyrsta sinn á ævinni að taka sjálfri mér alvarlega þegar kemur að listsköpun. Núna er það undir mér komið að nýta þetta nýfundna sjálfstraust í eitthvað stórkostlegt.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi færa mig yfir á næsta sunnudag og stoppa tímann á hádegi þess dags. Dvelja svo í augnablikinu til eilífðarnóns. Eilífðarhádegis það er að segja.
Lífsmottó: Þetta eru allt tímabil.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég ætla fyrst á fjölskylduskátafund Fossbúa, þar sem fjölskyldur með börn á aldrinum 3-9 ára (ásamt eldri og yngri systkinum) stunda útivist, leysa þrautir, fara í leiki og bralla fleira saman. Svo er ég búin að lofa mér á ljóðamálþing í Salnum í Kópavogi, þar sem ég mun flytja ljóð og hlusta á forvitnileg erindi. Á sunnudaginn ætla ég auðvitað að dvelja í núinu og njóta þess með fjölskyldunni.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs, Vala Hauksdóttir handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör og Elísabet Sveinsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogs. Ljósmynd/Kópavogsbær

Sigurljóð Ljóðstafs Jóns úr Vör 2024:

Verk að finna

Hrífuskaftsflís
í hengibrúnni milli bendifingurs og þumals.

Útsaumsnál
undir baugfingursnögl.

Skeljasandur
í hælsæri.

Hrossafælir
sem skýst með þyt undan þúfu

fall

að missa andann –
sortna fyrir augum
í lyngi.

Sælan er skortur
á öllu nema tíma
til verkja.

Hamingjan
er sigg.

Vala Hauksdóttir

Fyrri greinDagmar Sif valin í úrvalshóp FRÍ
Næsta greinHveragerðisbær semur við Listasafn Árnesinga