Það er nóg að gera hjá Elínu Gunnlaugsdóttur, tónskáldi og bóksala á Selfossi, þessa dagana. Hún stendur vaktina ásamt öðrum í Bókakaffinu á Selfossi en hún var einnig að gefa út sína fyrstu ljóðabók, Er ekki á leið, strætóljóð. Bókin lýsir strætóferðum þar sem skilin milli draums og veruleika liggja ekki alltaf í augum uppi og er prýdd ljósmyndum Elínar, sem líkt og textinn draga fram smáleg einkenni hvunndagsins.

Fullt nafn: Elín Gunnlaugsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddist í sjúkrahúsinu á Selfossi 22. apríl 1965.
Fjölskylduhagir: Gift Bjarna Harðarsyni rithöfundi og bóksala, við eigum fjögur börn og sex barnabörn.
Menntun: Ég hef lokið meistaranámi í tónsmíðum og þá er ég líka menntaður tónmenntakennari.
Atvinna: Tónskáld, aðjúnkt við LHI og bóksali.
Besta bók sem þú hefur lesið: Úff, þær eru svo margar. Ætli það sé ekki Bók spurninganna eftir Pablo Neruda. Það eru stutt og dálítið súrrealísk ljóð í þeirri bók. Eitt ljóðanna er svona: Hvað eru margar randaflugur í einum degi?
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi á alskonar rusl en dett stundum niður á góða þætti eins og The Handmaids Tale, Fargo og svo horfði ég á Queen’s Gambit um daginn og mér fannst sú þáttaröð ansi góð.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég get horft aftur og aftur á myndir eftir Pedro Almodóvar, hans þekktasta mynd er Allt um móður mína. En nýjasta myndin hans er Gloria y dolor (Frægð og sársauki) með Antonio Banderas í aðalhlutverki. Ég er líka laumu rómantíker og get horft aftur og aftur á myndir eins og Notting Hill og Love Actually.
Te eða kaffi: KAFFI. Helst nógu sterkt. Þegar ég geri vel við mig drekk ég macchiato.
Uppáhalds árstími: Síðsumar og haust.
Besta líkamsræktin: Hlaup og jóga.
Hvaða rétt ertu best að elda: Það er linsubaunaréttur sem ég hef eldað frá því að ég hóf búskap.
Við hvað ertu hrædd: Mýs.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þetta er mjög viðkvæm spurning, ég er voðalega mikil B-manneskja. En þegar ég ræð því hvenær ég fer á fætur. þá er það um kl. 9.
Hvað gerir þú til að slaka á: Mér finnst gott að fara út að ganga. Annars eru hlaupin og allt þeim tengt mín slökun sem stendur. Svo er bara þetta klassíska að horfa á sjónvarpið, lesa og hlusta á tónlist.
Hvað finnst þér vanmetið: Heiðarleiki.
En ofmetið: Frægð.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Tónlist eftir J.S. Bach finnst mér nálgast það að vera fullkomin og það er eitthvað í henni sem er óskaplega gott fyrir sálina. Og fyrst að það eru að koma jól þá ætla ég að segja upphafið á Jólaóratoríunni eftir Bach.
Besta lyktin: Furuilmur í íslenskum trjálundi eða skógi.
Bað eða sturta: Bæði betra. Mér finnst gott að slaka á í baði en líka hressandi að fara í sturtu.
Leiðinlegasta húsverkið: Ryksuga.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég kom fyrst til Parísar árið 2008 og hún gleypti mig með húð og hári. Einstaklega falleg og skemmtileg borg. Íslenskur lyngmói er líka ákaflega fallegur.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Tuð.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég get stundum misst út úr mér neyðarlega hluti. Það getur oft verið ansi neyðarlegt!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig langaði að vera ballettdansari en það var ekki hægt að læra það í sveitinni þar sem ég ólst upp. En þegar ég var barn dansaði ég oft í einrúmi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Maðurinn minn er með góðan húmor og við fíflumst oft saman. Svo eru barnabörnin mín auðvitað óstjórnlega fyndin.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það er langt frá því eftirsóknarvert, en ég held að það yrði mjög lærdómsríkt fyrir mig að vera flóttamaður í einn dag.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég stoppa þessa plágu sem nú gengur yfir.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að ég er einfari.
Mesta afrek í lífinu: Fæðing barnanna minna. En svo er fæðing hvers verks sem ég bý til alltaf gleðiefni og heilmikið afrek.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Mér finnst tíminn frá aldamótunum 1900 og fram að fyrri heimstyrjöldinni mjög áhugaverður tími. Það var mikil gerjun í mannlífi og listum á þessum tíma.
Lífsmottó: Síbreytilegt en yfirleitt reyni ég að vera betri í dag en í gær.
Hvernig eru síðustu dagarnir fyrir jól hjá þér: Ég verð við búðarborðið í Bókakaffinu og svo ætla ég líka að semja tónlist og undirbúa jólin.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinBjarki og Símon Norðurlandameistarar
Næsta greinÓk framhjá naglamottu og var „keyrður út“ við Selfoss