Elísabet Björgvinsdóttir frá Selfossi sigraði í Söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands sem haldin var í síðustu viku. Elísabet söng hið klassíska sálarlag (You Make Me Feel Like) A Natural Woman og heillaði kraftmikill söngur hennar bæði dómnefndina og salinn. Elísabet verður fulltrúi FSu í Söngkeppni framhaldsskólanna í vor.

Fullt nafn: Elísabet Björgvinsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 3. júní 2005 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Er í sambandi með Óliver Þorkelssyni og bý hjá mömmu og pabba. Foreldrar mínir eru Björgvin G. Sigurðsson og María R. Lúðvígsdóttir.
Menntun: Er að mennta mig á félagsgreinalínu í Fjölbrautaskóla Suðurlands og stefni síðan á félagsráðgjöf í framhaldinu.
Atvinna: Hef unnið á Hofland Eatery síðustu mánuði en er að klára þar út nóvember og fer í önnur skemmtileg verkefni í desember sem koma fljótlega í ljós.
Besta bók sem þú hefur lesið: Án filters, einlæg og góð bók.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Evrópski draumurinn, klassískt á laugardagskvöldi uppi í sófa með smá nammi.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: SING teiknimyndin nær mér alltaf þegar ég veit ekki hvað ég á að horfa á, söngurinn í henni er svo góður.
Te eða kaffi: Te, ég drekk mikið te með hunangi til þess að passa upp á röddina þar sem ég syng nánast daglega og verð að vera meðvituð um raddböndin.
Uppáhalds árstími: Haustið, það er svo fallegt og þægilegt fyrir utan kuldann.
Besta líkamsræktin: Ég elska að fara út að labba, eða labba á hlaupabretti í góðan klukkutíma með Tinu Turner í eyrunum.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég elda alltaf hakk og spagettí ef ég er svöng, einfalt bara hakk með tómat paste og pasta.
Við hvað ertu hrædd: Ég er mjög flughrædd, hugsa alltaf „hvað ef“ þegar ég stíg upp í vél.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer vanalega á fætur 7:30 til þess að fara í skólann, fer samt eftir hvenær ég byrja í tíma, en ég þarf alltaf 40 mín til þess að græja mig og hlusta á tónlist.
Hvað gerir þú til að slaka á: Tónlist, tónlist og tónlist, það er lang besta meðalið til þess að ná að slaka á.
Hvað finnst þér vanmetið: Að eiga góða vini, ég á mjög góðar vinkonur og maður þarf að kunna að meta það betur hvað maður á góða að.
En ofmetið: Facebook, mikill tuð miðill.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: I Wanna Dance with Somebody er svakalegt stuð meðal.
Besta lyktin: Lyktin af þvottinum hennar mömmu.
Bað eða sturta: Sturta, aðal móment dagsins er að fara í sturtu og syngja nokkur lög.
Leiðinlegasta húsverkið: Að brjóta saman föt, þetta er alveg rosalega leiðinlegt húsverk.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að pæla ekki í hvað öðrum finnst, klassískt en þetta skiptir mjög miklu máli.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn, elska að hlusta á tónlist og slaka á.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Stykkishólmur er alltaf uppáhalds.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Facebook tuð, sá einn status um daginn; þá póstaði ein um hvað það væri nú lélegt að það væri enginn að afgreiða í Íslandsbanka, í staðinn fyrir að senda bara bankanum kvart póst. Þetta finnst mér samt líka fyndið.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég og mamma vorum að keyra frá flugvellinum og það kom bara stormur á okkur mæðgur. Mamma var svo stressuð og ég fríkaði út með henni, við gátum ekki keyrt lengur þannig að við hringdum í 112 og þau sögðu „og hvað eigum við að gera!“ Þá fríkaði ég út.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Alþingiskona eins og pabbi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Sóldís Malla Steinarsdóttir er með mjög góð grín.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Klárlega Beyonce, vegna þess að hún er svo rosaleg söngkona og ein af þeim bestu að mínu mati.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Snapchat, tala við alla þar.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi fá alla sem elska að syngja, til þess að komast út úr skelinni og upplifa gleðina sem maður fær út úr því að koma fram og syngja.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Hef oft heyrt að ég líti út fyrir að vera pínku ógnandi, ég er þvert á móti því, er mjög slök.
Mesta afrek í lífinu: Að gera mömmu og pabba stolt, ég elska að syngja og fá stuðninginn og stoltið frá þeim.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Fara fram í tímann og sjá hvort ég elti söngdraumana. Það er mér mjög mikilvægt að elta þá og ég ætla mér klárlega að gera eitthvað pínu tengt því. Væri samt líka til í að fara aftur í tímann og hitta afa.
Lífsmottó: Gerðu það sem er best fyrir þig en sem skaðar samt ekki aðra.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég ætla á kóræfingu með FSu kórnum og liggja upp í rúmi.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinRagnhildur ráðin framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar
Næsta greinMaría og Jón Ingi keppa í Danmörku