Tónlistarfréttabóndinn Bjarni Rúnarsson frá Reykjum á Skeiðum hefur vakið athygli fyrir skelegga frammistöðu í fréttunum hjá RÚV og ekki síður sem slagverksleikari og bakraddasöngvari í Stuðlabandinu. Það verður nóg að gera hjá Bjarna og félögum í bandinu um komandi helgi en Stuðlabandið mun gera víðreist um Suðurland og skemmta gestum ýmissa hátíða.

Fullt nafn: Bjarni Rúnarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur á Selfossi 23. mars 1989, rétt eftir að bjórinn var leyfður.
Fjölskylduhagir: Prýðilegir.
Menntun: Allskonar bland í poka. Stúdent frá FSu, útskrifaður búfræðingur frá Hvanneyri, og með BA í fjölmiðlafræði frá HA. Svo prufaði ég smá jarðfræði þar á milli.
Atvinna: Í dag er ég bóndi, en er fréttamaður líka. Svo á milli mjalta telst ég til tónlistarmanna sem slagverksleikari og bakraddasöngvari í Stuðlabandinu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég verð seint kallaður bókaormur, en hljóðbækur eru góðar til að stytta manni stundir í traktornum. Ofsi Einars Kárasonar var og er alltaf í miklu uppáhaldi. Bækurnar hennar Siggu Hagalín eru líka óþægilegar í ljósi atburða seinustu ára.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég þarf að horfa að minnsta kosti einu sinni á ári á Breaking Bad seríuna. Einfaldlega stórkostleg.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Með allt á hreinu VHS spólan í sveitinni var farin að láta verulega á sjá, og klassísku Líf myndirnar eiga hug minn og hjarta.
Te eða kaffi: Svart og sykurlaust kaffi takk. Súkkulaðimoli með væri æði ef þú átt hann.
Uppáhalds árstími: Hver og einn hefur sinn sjarma, en ég er mikill talsmaður haustsins.
Besta líkamsræktin: Ef það er bolti, þá er gaman.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég á nú engan rétt sem er kenndur við mig, en ég er nokkuð lipur að gera allskyns kjötrétti, t.d. lasagne. Mig dreymir um að verða þekktur fyrir kótilettur í raspi. Það er listgrein.
Við hvað ertu hræddur: Tímann.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Rétt fyrir 8.
Hvað gerir þú til að slaka á: Slekk á símanum. Það gerist allt of sjaldan.
Hvað finnst þér vanmetið: Lúpína.
En ofmetið: Coca Cola.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Í dag, ekki spurning: Í Larí Lei.
Besta lyktin: Nýslegið gras af 20-30 hekturum.
Bað eða sturta: Sturta, hiklaust. Annað er siðlaust.
Leiðinlegasta húsverkið: Flokka sokka. Guð minn góður.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Minn góði lærifaðir á fréttastofu RÚV, Broddi Broddason sagði oft og iðulega við fréttamenn á barmi taugaáfalls: Halda kúlinu.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er kamelljón.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Margir sem koma til greina. Gjáin í Þjórsárdal er paradís, Borgarfjörður eystri er einhvers konar undraveröld. Sólsetrið á Santorini er eitthvað sem maður gleymir aldrei. Ég get haldið endalaust áfram. Veröldin er gullfalleg.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Hroki og óheiðarleiki.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég veit ekki hvort að það sé endilega það neyðarlegasta, en gítarfantur okkar Stuðlbendinga, Fannar Freyr Magnússon hefur verið að stunda það óspart að undanförnu að tilkynna gestum á böllum að aðrir meðlimir séu nýbakaðir feður. Ég lenti í klónum á kauða á Hofsósi fyrr í sumar og fékk yfir mig ótal hamingjuóskir með nýja hlutverkið. Ekkert er þó barnið.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Er ekki tónlistarfréttabóndi það sem allir stefna á?
Fyndnasta manneskja þú veist um: Maðurinn í speglinum?
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Mér þætti gaman að syngja eins og Freddy gerði forðum. Ég myndi syngja mig hásan frá morgni til kvölds.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég er af Facebook og Instagram kynslóðinni. Ég er ekki nógu hipp og kúl fyrir Tiktok.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Hættið þessu stríði útum allan heim, á stundinni.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Það er kannski kaldhæðnislegt í ljósi þess sem ég geri, en ég er ömurlegur dansari, og líður hvergi verr en á dansgólfi.
Mesta afrek í lífinu: Hver dagur er afrek.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Við vitum miklu meira um fortíðina en framtíðina, svo ég myndi fara 500 ár fram í tímann og sjá hvernig manninum gengur að halda sér á lífi
Lífsmottó: Koma fram við aðra eins og þú vilt að sé komið fram við þig.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Það verður líf og fjör. Vonandi ekki í heyskap því það stendur mikið til hjá okkur í Stuðlabandinu, eins og raunar hefur verið í allt sumar. Við ætlum að þeysast um Suðurland og skemmta lýðnum. Við verðum á Unglingalandsmóti á Selfossi á föstudagskvöld, í heimahögum mínum á Flúðum á laugardagskvöld með alvöru sveitaball og svo er hápunkturinn sunnudagskvöld á Þjóðhátíð í Eyjum þar sem Magnús okkar Kjartan verður með brekkusöng fyrir fleira fólk en í fyrra og svo verður alvöru Stuðlabands-ball í dalnum fram á rauða nótt. Ég lofa nýju dressi og góðu showi.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinMikið álag á Heilbrigðisstofnun Suðurlands
Næsta greinHjúkrunarheimilið verður að veruleika!