Bergrún Anna Birkisdóttir frá Brekku í Þykkvabæ sigraði í söngkeppninni Blítt og létt í Menntaskólanum að Laugarvatni sem haldin var á dögunum. Bergrún Anna söng Adele-lagið All I Ask og viðurkennir hér að neðan að hún væri alveg til í að upplifa að vera Adele í einn dag og syngja fyrir framan mörg þúsund manns.

Fullt nafn: Bergrún Anna Birkisdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 19. desember 2001 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Móðir mín er Brynja Rúnarsdóttir og faðir minn er Birkir Ármannsson. Ég á síðan tvær systur þær Glódísi Margréti og Bjarnveigu Björk og tvo bræður, þá Guðmund Gunnar og Birki Hreim. Ég er næst yngst í þessum systkinahóp.
Menntun: Ég er á lokaári í Menntaskólanum að Laugarvatni.
Atvinna: Ég er í vinnu á dvalarheimilinu Lundi á Hellu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Damaged eftir Cathy Glass.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Það eru þættirnir Gilmore Girls. Ég man eftir því þegar ég var yngri og þeir hétu Mæðgur á rúv, það eru svona mín fyrstu kynni af þáttunum.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég fæ aldrei nóg af Vesalingunum.
Te eða kaffi: Þetta er erfitt val en ég held ég velji kaffi.
Uppáhalds árstími: Ég er rosalega mikil kuldaskræfa svo mér líður best á sumrin.
Besta líkamsræktin: Líkamsræktin í Þykkvabæ er lítil og krúttleg.
Hvaða rétt ertu best að elda: Litlu frændsystkini mín segja mér að beikonpastað mitt sé svakalega gott.
Við hvað ertu hrædd: Ég hef alltaf átt erfitt með að labba ein úti í myrkri.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á virkum dögum fer ég fram úr í kringum 07:40, hefði þó ekkert á móti því að sofa til 10 alla daga.
Hvað gerir þú til að slaka á: Kem mér vel fyrir upp í sófa með hundinum mínum og horfi á einhverja kvikmynd.
Hvað finnst þér vanmetið: Kartöflur, þær passa með öllu og bragðast alls ekki illa.
En ofmetið: Ég er ekki mikill aðdáandi af snjó.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: I Will Survive með Gloria Gaynor.
Besta lyktin: Lyktin sem fylgir jólunum.
Bað eða sturta: Eftir langan dag er mjög kósý að fara í heitt bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér hefur alltaf fundist dálítið strembið að ryksuga undir rúmum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að muna eftir því að draga djúpt andann.
Nátthrafn eða morgunhani: Mér hefur alltaf fundist mjög gott að sofa út.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Upp með á heima þar sem maður sér allan fjallahringinn.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem sér alltaf það neikvæða í hlutunum.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það var mjög óþægilegt þegar ég labbaði inn í vitlausa stofu þegar ég var nýbyrjuð í skólanum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig dreymdi alltaf um að verða söngkona.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Bjarnveig systir mín, ég er þó ekki að hlægja með henni heldur að henni.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri alveg til í að upplifa að vera Adele í einn dag og syngja fyrir framan mörg þúsund manns.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Annað hvort Snapchat eða Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi breyta menntaskólakerfinu aftur í fjögur ár.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Þegar ég var yngri vildi ég lengi vel vera alveg eins og frændi minn, þannig að í langan tíma var ég stuttklippt.
Mesta afrek í lífinu: Ég stofnaði hljómsveitina Korriró með systrum mínum.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég væri alveg til í að kíkja á áttunda áratuginn til þess að upplifa tískuna og tónlistina sem átti sér stað þá.
Lífsmottó: Anda inn og út.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég stefni á að hafa það kósý heima í Þykkvabæ.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

 

Fyrri greinFyrsta tap Hamars – Öruggt hjá Selfyssingum
Næsta greinÆfingar skila árangri hjá Suðrafólki