Tómas Þóroddsson, veitingamaður á Selfossi, stendur í ströngu flesta daga enda í mörg horn að líta í veitingabransanum. Það er stór helgi framundan hjá Tómasi en á sunnudaginn verður Kökukeppni Kaffi Krúsar og Konungskaffis verður haldin á Konungskaffi í miðbæ Selfoss. Áhugafólk um góðar brauðtertur og osta- og skyrkökur er hvatt til að kíkja við.
Fullt nafn: Tómas Þóroddsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 18. ágúst 1971 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Börnin heita Hildur Svava, Ísak Eldjárn, Gabriella og Lísbet Dögg. Trúlofaður Idu Grundberg og hún á soninn Þorstein Jakob. Svo á ég þrjú barnabörn, þær heita Eva Stefanía, Lea Maayana og Lea Bjarkey.
Hverra manna ertu: Móðir mín er Elín Tómasdóttir frá Skarðshlíð undir Eyjafjöllum og faðir minn er Þóroddur Kristjánsson frá Skógsnesi.
Menntun: Matreiðslumaður, lærði hjá Heiðari Ragnarssyni.
Atvinna: Vert.
Besta bók sem þú hefur lesið: Góði dátinn Svejk og Sjálfstætt fólk eru þær bækur sem ég hef lesið oftast og hafa alltaf jafn mikil áhrif á mig.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Horfi lítið á sjónvarp, en Clown og Exit eru ólíkir norrænir og mjög góðir þættir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Office Space er alltaf jafn fyndin.
Te eða kaffi: Einn til tveir espresso á dag.
Uppáhalds árstími: Þessi árstími, farfuglarnir komnir, allt að lifna við og langar bjartar íslenskar nætur sem ekkert toppar.
Besta líkamsræktin: Fer í ræktina þrisvar í viku, lyfti þungt eftir ráðleggingu frá Kára Stefánssyni.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég er bestur að elda fisk og finnst fiskur besti maturinn. Er komin með ástríðu fyrir því að kenna ungu fólki að borða meiri fisk, það er gríðarlega mikilvægt upp á D-vítamín inntöku og svo hefur fiskurinn gæða prótein og mikið af amínósýrum sem er meðal annars byggingarefni heilans.
Við hvað ertu hræddur: Hræddur um að eitthvað gerist fyrir börnin og barnabörnin mín og mitt nánasta fólk.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á milli klukkan 06:30 og 07:30.
Hvað gerir þú til að slaka á: Slaka best á í pottinum í Skógsnesi. Best ef það er fuglasöngur eða norðurljós í frosti.
Hvað finnst þér vanmetið: Flóinn með öllu sínu.
En ofmetið: Íslenskir ráðherrar. Hef í gegnum tíðina þakkað mínum sæla fyrir að ekki er tekið mark á okkur þegar þeir tjá sig um heimsmálin.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Club Tropicana.
Besta lyktin: Nýslegið gras.
Bað eða sturta: Bæði gott.
Leiðinlegasta húsverkið: Þau eru nú ansi mörg mjög leiðinleg.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þór Vigfússon heitinn skólameistari sagði við mig: „Alveg sama hvað kemur uppá, aldrei fara á taugum“.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er bæði, þarf ekki mikin svefn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Á Íslandi eru það Eyjafjöllin og hálendið. Erlendis er það Amalfi svæðið á Ítalíu og Phi Phi eyjar á Tælandi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það er almenn skriffinnska og reglugerðir sem engu skila. Báknið sem alltaf vex, engum til hags, ekki einu sinni þeim sem þar starfa.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þau eru ótrúlega mörg eins og gefur að skilja. En var að rifja upp eitt í dag. Strax eftir hrun varð ég gjaldþrota, var inni á sýsluskrifstofu í lokuðu herbergi með fulltrúa sýslumanns. Þá opnast hurðin og inn koma Ólafur Helgi þáverandi sýslumaður og Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra. Sýslumaður segir „hér er verið í gjaldþrotaskiptum“. Björn Bjarna sneri við á punktinum og gekk út og vorkenndi ég honum lengi á eftir.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Kokkur.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Ari Eldjárn frændi á sviði, en svo á ég nokkra hrikalega fyndna vini.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Trump, það segir sig sjálft.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Insta og X.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég er alltof óþroskaður og vanstilltur til að geta tekið þetta hlutverk að mér, en takk samt.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Síðast þegar ég var Sunnlendingur vikunnar svaraði ég að ég drekk ekki heima hjá mér. Fólk er alltaf jafn hissa á því, sem ég skil ekki.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara til loka maí 2026 og sjá Arsenal taka á móti þeim stóra, get ekki beðið.
Lífsmottó: Vera góður við náungann.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Á laugardag er guðssonur minn og eðalfrændi, Elvar Eldjárn, að fermast og útskrifast frá Versló og verður mikil veisla. Á sunnudag er hin árlega Kökukeppni Kaffi Krúsar og Konungskaffis í Miðbæ Selfoss. Seinna þann dag er ég að fara gróðursetja í sveitinni afleggjara úr garðinum hennar mömmu.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is