Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju, var á dögunum kosin formaður Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar. ÆSKÞ eru frjáls félagasamtök sem starfa á landsvísu innan Þjóðkirkjunnar en markmið sambandsins er meðal annars að efla æskulýðsstarf innan Þjóðkirkjunnar. Jóhanna Ýr býr ásamt fjölskyldu sinni í Hveragerði en er fædd og uppalin á Selfossi.

Fullt nafn: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 26. janúar 1979 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Gift Ævari Sigurðssyni eigum þrjá syni þá Sigurð Ísak, Ólaf Jóhann og Benedikt Ívar.
Menntun: BA – í guðfræði og diploma í kennslufræðum.
Atvinna: Æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju, varabæjarfulltrúi fyrir Frjáls með Framsókn í Hveragerði og formaður ÆSKÞ.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég á erfitt með að velja á milli Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur og Næturgalans eftir Kristin Hannah.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Game of Thrones.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Love Actually.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Vorið.
Besta líkamsræktin: Hreyfing úti í náttúrunni og Laugasport í Hveragerði.
Hvaða rétt ertu best að elda: Kjúklingarétti.
Við hvað ertu hrædd: Lofthrædd og stundum bílhrædd þegar aðrir eru að keyra.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Yfirleitt um sjö.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í heita pottinn heima.
Hvað finnst þér vanmetið: Kántrítónlist.
En ofmetið: Man Utd. (Fékk hjálp við þetta svar).
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Killing in the Name.
Besta lyktin: Lyktin af gróðrinum á vorin.
Bað eða sturta: Sturta á morgnana og bað á kvöldin.
Leiðinlegasta húsverkið: Ganga frá eftir búðarferð.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Fylgdu hjartanu.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn. Það hefur nú samt örlítið breyst með aldrinum…
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ísland en hver landshluti hefur sinn sjarma.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Neikvæðni.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég var stödd á Tupperware kynningu eins og svo oft áður. Í lokin þegar ég er að taka saman og kveðja fullorðna konu sem ég þekki ágætlega bið ég fyrir kveðju til mannsins hennar sem ég nefndi á nafn. Hún svarar þá eftir nokkurt hik: „Já, Jóhanna mín hann mun eflaust fá kveðjuna…“ Það rifjaðist upp fyrir mér þarna sem ég stóð að maðurinn hennar var kominn yfir móðuna miklu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Leikkona.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ari Eldjárn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Kannski Leeloo í Fifth Element hún er svo eitursvöl.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ís handa öllum, já eða friður.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að ég er með dómararéttindi í boccia.
Mesta afrek í lífinu: Að koma stóru drengjunum mínum í heiminn.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi vilja fara aftur í tímann og hitta Jesú 12 ára í musterinu.
Lífsmottó: Lífsmottó geta verið breytileg eftir því hvað maður er að takast á við. „Guð er okkur hæli og styrkur örugg hjálp í nauðum“ hefur átt vel við síðustu mánuði.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég þarf að kíkja í dagbókina.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinJötunn fagnar sumrinu
Næsta greinDægurlagafélagið loksins í Hveragerði