Mamma Mia partýin á Sviðinu á Selfossi hafa heldur betur slegið í gegn en uppselt hefur verið á öll kvöldin bæði í vor og haust. Það er Fríða Hansen frá Leirubakka í Landsveit sem heldur um stjórntaumana á þessum kvöldum, þar sem hún stýrir fjöldasöng, pubquiz, dönsum og giftir gesti í miðju partýi. Þessi stórskemmtilegu kvöld munu halda áfram í vetur undir styrkri stjórn Fríðu.
Fullt nafn: Fríða Hansen.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd í Reykjavík þann 5. janúar 1995.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Orra Arnarsyni og við eigum einn yndislegan 4 ára strák sem heitir Hilmir.
Hverra manna ertu: Ég er dóttir mömmu og pabba, Valgerðar Kr. Brynjólfsdóttur frá Bíldudal og Anders Hansen, sem er hálf danskur og uppalinn í Ölfusinu. Þau eru bæði þúsundþjalasmiðir sem geta allt.
Menntun: Ég útskrifaðist með BSc í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum árið 2018 en er svo þar að auki búin með nokkur stig í tónlistarnámi.
Atvinna: Ég vinn heima á Leirubakka, bæði við tamningar, hestaþjálfun og reiðkennslu og svo við hótelið sem er hér á bænum. Svo er ég tónlistarkona og er mikið að syngja og tralla. Núna er skemmtilegasta verkefnið sem ég er í Mamma Mia Partý á Sviðinu í nýja miðbænum!
Besta bók sem þú hefur lesið: Sú bók sem situr mest í mér – hefur alltaf gert – er bókin Vestur í bláinn eftir Kristínu Steinsdóttur. Mæli með því fyrir alla krakka og unglinga að lesa þessa bók ef þeir hafa einhvern áhuga á sögu lands og þjóðar. Ég las hana aftur og aftur og aftur sem barn og er farið að langa til að lesa hana aftur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Friends þættirnir munu alltaf vera í uppáhaldi en núna erum við að horfa á þættina High Potential á Disney+. Mæli með þeim fyrir þá sem elska ráðgátur og fólk með snilligáfu.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég horfi miklu frekar á einn og einn þátt heldur en heila bíómynd. En þegar ég gaf mér tíma og horfði á bíómyndir aftur og aftur voru það Mamma Mia, Harry Potter myndirnar og Made of Honour.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Ég elska bara hvað lífið er kaflaskipt, hverri árstíð fylgir einhver sjarmi. Vorin eru dásamleg, þegar allt lifnar við, en svo er mér nýverið farið að þykja óskaplega vænt um haustið, þegar allt skiptir um búning og rytminn breytist og hægist. Þá fæ ég líka oft mínar bestu hugmyndir.
Besta líkamsræktin: Hestamennska, jóga og hlaup í fallegri náttúru.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég elda frábæra kjúklingarétti, uppáhaldið eru kjúklingabringur í pestói og sætar kartöflur. Þá er líka oft góð sósa með en hún er breytileg.
Við hvað ertu hrædd: Ég er hræddust við að missa fólkið mitt.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Við Hilmir hoppum fram úr um 6 á morgnana.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég horfi á góðan þátt, les skemmtilega bók eða fer í bað. Svo þegar allt þrýtur fer ég út að hlaupa.
Hvað finnst þér vanmetið: Tíminn þar sem maður gerir ekki neitt.
En ofmetið: Ég ofmet mjög reglulega mína eigin getu til að framkvæma hluti á hverjum tíma og er þá með mjög marga hluti á dagskránni. Er þar af leiðandi stundum aaaðeins of sein!
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég er svona tarnamanneskja í öllu og þá er tónlistin ekki undanskilin. Núna er það Michael Bublé sem kemur mér af stað á morgnanna en það var Mark Ambour og Abba í sumar. Svo verða það kannski Írafár eða Beach Boys í október, hver veit!
Besta lyktin: Náttúruilmurinn þegar frostið fer úr jörðu á vorin og nýjabrumið er komið og við það að springa út. Ekkert sem jafnast á við þessa lykt.
Bað eða sturta: Sturta, þó baðið komi sér vel þegar ég þarf á því að halda.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér leiðist mjög að byrja að skúra þó það sé alltaf jafn notalegt þegar það er búið og gert.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þau eru eiginlega tvö. „Allt sem maður vill er innan seilingar. Það krefst þess bara að læra það og æfa sig.“ Og „gott hugarfar er það besta sem maður tileinkar sér.“
Nátthrafn eða morgunhani: Ég elska bara að vera til. Get ekki gert upp á milli!
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Heimahagarnir á Leirubakka eru óviðjafnanlegir en náttúrufegurðin á Inca trail í Perú var líka alveg gjörsamlega fáránleg. Ég er kannski líka ómarktæk, en ég er svo hrifnæm. Á hverju nýju ferðalagi sé ég eitthvað sem situr hjá mér og ég segi reglulega „þetta er það fallegasta sem ég hef séð“, hvort sem það er útsýni, sólarlag, sólarupprás eða fallegur dagur.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Mér finnst leiðinlegast þegar fólk er dónalegt við annað fólk.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég á ótal skemmtilegar og neyðarlegar sögur af sjálfri mér en engin þeirra er neyðarlegust.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Söngkona og dýralæknir. En þar sem ég sé ekki fyrir mér að ég skelli mér í langt háskólanám núna verður sennilega ekkert úr dýralæknadraumnum (ég missti að vísu áhugann á honum snemma á unglingastigi í grunnskóla). Ég hannaði samt lógó fyrir stofuna mína þegar ég var 10 ára. Það er til sölu fyrir áhugasama dýralækna. Tilboð sendast með bréfdúfu eða flöskuskeyti.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Hilmir Hansen Orrason.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að prufa að vera Beyoncé Knowles. Ég gæti lært margt af henni, fyrst og fremst aga og eljusemi.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Æ, þetta klassíska. Ég myndi stöðva öll stríð og með einhverjum leiðum koma á varanlegum friði.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég var í tannréttingum í rúm 7 ár og er óskaplega stolt af fallegu tönnunum mínum.
Mesta afrek í lífinu: Þessi spurning kemur 30 árum of snemma. Ég ætla mér stóra hluti!
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi vilja fara aftur í tímann og hitta ömmur mínar og afana alla. Mig langar að fá allskonar ráðleggingar og heyra skemmtilegar sögur frá þeirra tíð. Svo væri ég líka til í að gjóa augunum inn í framtíðina en ekki til að hitta sjálfa mig – frekar til að skoða mig um. Hvernig ferðumst við um? Eigum við enn síma eða erum við orðin vélræn? Njótum við listar og ferðumst við um heiminn?
Lífsmottó: Það verður að vera gaman.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Þetta er fyrsta helgin í langan tíma sem ég er ekki bókuð í neitt (ennþá að minnsta kosti) og ef það verður ekki farið að frysta skelli ég mér kannski í berjamó.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

