Selfyssingurinn Álfrún Diljá Kristínardóttir er dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands á nýliðinni haustönn. Álfrún Diljá, sem er aðeins 17 ára gömul, útskrifaðist sem stúdent frá skólanum núna í desember og fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í íslensku, þýsku, íþróttum og íþróttafræðum og auk þess sem hún hlaut námsstyrk frá Hollvarðasamtökum FSu. Samkvæmt lýsingum kennara í FSu er Álfrún „með smitandi jákvæðan kraft, leiðtogaefni sem nær árangri í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.”

Fullt nafn: Álfrún Diljá Kristínardóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd á Selfossi 15. maí 2006.
Fjölskylduhagir: Ég er einkabarn og bý á Selfossi með mömmu og hundinum Myllu. Pabbi er bóndi á Bjólu.
Hverra manna ertu: Móðir mín heitir Kristín Silja Guðlaugsdóttir og faðir minn er Ágúst Sæmundsson.
Menntun: Ég var að klára stúdentinn í FSu.
Atvinna: Eins og staðan er núna er ég vaktstjóri á Dominos og er aðstoðaþjálfari hjá frjálsíþróttadeild UMFS.
Besta bók sem þú hefur lesið: Úff… hef nú ekki lesið mikið nema bækurnar sem lagðar voru fyrir í skólanum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Horfi mjög lítið á sjónvarp.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Á eftir að finna eina svoleiðis.
Te eða kaffi: Myndi frekar fá mér te, kaffi er ekki gott.
Uppáhalds árstími: Vorið, þá lifnar allt við, allt og allir blómstra og sumarið fer að koma.
Besta líkamsræktin: Lyftingar! Ég æfi frjálsar, og myndi segja að það sé líka mjög góð og fjölbreytt líkamsrækt.
Hvaða rétt ertu best að elda: Uhh, held ég sé frekar bakari…
Við hvað ertu hrædd: Ég er hrædd um að mamma pósti ljótri mynd af mér á Facebook.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Rosalega misjafnt, fer mikið eftir því klukkan hvað ég er að vinna. Maður sofnar seint eftir kvöldvakt og vaknar því líka seint, en öfugt á dagvakt. Vaknaði oftast um 7:45 þegar það var skóli, fyrr þegar það var próf
Hvað gerir þú til að slaka á: Er ekki mikið fyrir að slaka á. Slaka á í svefni, það er besta slökunin. Ef ég þarf að ná huganum frá einhverju er bara best að finna sér eitthvað að gera þar sem það er ekki „pláss“ eða „tími“ fyrir hugsanir. Best að fara bara upp í sveit, þar er alltaf nóg að gera. Þegar maður var á kafi í verkefnum og prófum, þá var alltaf eins og smá frí þegar maður mætti upp í vinnu setti á sig svuntu og gerði pítsur næstum stanslaust þangað til maður fór heim. Þegar maður er stanslaust að gera mismunandi pítsur hefur maður engan tíma til þess að hugsa um allt sem maður þarf að gera eftir vinnu, maður gleymir öllu svoleiðis, þannig það var svona ákveðið frí eða pása frá öllu öðru á meðan maður var að vinna. Svona vinna hentaði mér með skóla í stað þess að slaka á.
Hvað finnst þér vanmetið: Mjólk.
En ofmetið: Kaffi.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Gætu verið mörg, ég spila oft sama lagið aftur og aftur á stuttum tíma, þangað til ég er eiginlega strax bara búin að spila það „of“ mikið. Þarf að gera minna af því og spara góðu lögin.
Besta lyktin: Lyktin af sumrinu, nýslegið gras og allskonar eitthvað sem minnir mann á góða tíma.
Bað eða sturta: Sturta, tekur of langan tíma að fara í bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Leiðinlegast að skúra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Lesa fyrirmælin.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Fljótshlíðin og Þórsmörk.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Erfið spurning, kannski óþarfa smjatt.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Var að reyna rifja það upp, vonandi bara búin að gleyma því. Held það verði bara ennþá vandræðalegra ef ég rifja það upp.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að verða dýralæknir eins og mamma eða bakari, kannski bóndi. Nú veit ég ekki neitt, svo mikið í boði.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Árni Sigurpálsson.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Veit það ekki alveg, hef aldrei pælt í því. Væri kannski til í að sjá hvernig væri að vera eitthvað dýr, væri til í að vera kýr, þær eru svo merkileg dýr.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Líklega TikTok eða Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Það væri svo margt sem væri hægt að breyta til þess að gera heiminn að betri og réttlátari stað. Enda stríð, hungur og vatnsskort, mansal, barnabrúðkaup, koma í frekari veg fyrir gróðurhúsaáhrif, stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika o.s.frv. Svo mikið sem væri hægt að bæta og erfitt að gera allt í grænum hvelli. Það er ekki hægt að gera þetta allt einn, maður þarf að fá aðra í lið með sér og vera leiðtogi frekar en stjóri.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Borða næstum allt, nema sushi, finnst það ekki gott.
Mesta afrek í lífinu: Líklega bara að vera dúx einu og hálfu ári á undan jafnöldrum mínum.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Væri frekar til í að sjá aftur í tímann, þá væru ótal mörgum spurningum svarað. Ég held maður vilji ekkert sjá fram í tímann, þá veit maður alltaf hvað gerist og öll spennan fer. Ég held að ef maður viti allt það sem mun gerast að þá verði ekkert gaman lengur.
Lífsmottó: Afhverju að gera það á morgun ef maður getur gert það í dag.
Hvað ætlar þú að gera um áramótin: Í ár verða áramótin allt öðruvísi en áður. Ég er stödd úti á Tene og verð þar um áramótin. Ég held maður ætli bara að hafa það gott í sólinni, horfa á Skaupið, borða góðan mat og síðan kemur restin bara í ljós.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinFjóla tekur við af Elliða í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga
Næsta greinUm áramót í töluðum orðum