Selfyssingurinn Katrín Aagestad Gunnarsdóttir var nýlega ráðin markaðsstjóri Nettó og Kjörbúðanna. Hún kom til fyrirtækisins frá Prís og Heimkaupum þar sem hún hefur séð um vörumerkjaþróun og markaðsmál síðustu tvö ár.
Fullt nafn: Katrín Aagestad Gunnarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist á Selfossi þann 11. september árið 1990.
Fjölskylduhagir: Ég bý í Úlfarsárdalnum með kærastanum sem heitir Hafsteinn Þór Jóhannsson og svo á ég tvo stjúpstráka sem heita Nóel og Bastían, 11 og 6 ára gaurar.
Hverra manna ertu: Mamma mín heitir Munda Kristín Aagestad og var grunnskólakennari í Sólvallaskóla sem svo varð að Vallaskóla, hún hefur ábyggilega kennt hálfum Selfossbæ. Pabbi heitir Gunnar Leifur Þórðarson, hann vann sem mjólkurfræðingur í mjólkurbúinu. Núna slakar hann bara á í útlöndum og spilar bridge.
Menntun: Það var bölvað bras á mér að reyna að finna eitthvað sem heillaði mig. Ég er með ókláraðar gráður í viðskiptafræði og leiklist. En ég endaði svo á að útskrifast sem margmiðlunarhönnuður og nældi mér í gráðu í Brand Design eða vörumerkjaþróun.
Atvinna: Ég er á bólakafi í markaðsmálum og var akkúrat að færa mig til í starfi. Ég var áður markaðsstjóri hjá Prís og tók þátt í þeirri skemmtilegu uppbyggingu og nú er ég komin yfir til Nettó og sé um markaðsmálin þar. Virkilega spennandi vegferð framundan þar sem verður gaman að taka þátt í.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég ætla að segja Mátturinn í núinu eftir Eckhart Tolle. Hef lesið hana reglulega í gegnum tíðina, þörf áminning og alvöru jarðtenging fyrir sveimhuga konur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ef ég væri með tölur yfir mesta áhorf yfir ævina þá væri Friends ábyggilega í fyrsta sæti. En ég ætla að fá að nefna Black Mirror og Game of Thrones var líka frábært framan af. Reyndar langt síðan ég hef dottið inn á þætti sem ég verð alveg heltekin af.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Mean Girls og Interstellar. Elska Sci-Fi myndir.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn. Ég fer að sofa á kvöldin og hugsa hvað ég hlakka til að fá mér kaffi þegar ég vakna.
Uppáhalds árstími: Vor og haust. Það er svo gott á vorin að finna daginn lengjast og veðrið batna og allt verða betra. Svo er svo æðislegt á haustin að finna daginn styttast, kveikja á kertum og detta í þennan kósý haust gír.
Besta líkamsræktin: Ætli það sé ekki það sem maður endist í að gera. Ég er núna t.d. komin með ágætis endingu í Pilates. Svo eru góðir göngutúrar úti í náttúrunni algjört meðal fyrir ofhugsandi og upptekið fólk. Líka algjör forréttindi að vera með Úlfarsfell í bakgarðinum og ég var þokkalega dugleg að nýta mér það í sumar.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég geri æðislegar súpur. Góð haustsúpa og grilluð samloka til að dýfa ofan í. Algjört nammi. Hef líka verið að prófa mig áfram í fiskisúpum með fínum árangri. Það besta við súpur er svo að elda alveg ótrúlega mikið og frysta afganginn, þá er hægt að sleppa við kvöldmatarstúss í nokkur skipti.
Við hvað ertu hrædd: Heyrðu, ég er orðin bílhrædd. Það gerðist smá skyndilega og ég veit ekkert hvaðan það kom. Svo held ég reglulega að ég sé komin með hinn og þennan sjúkdóm og svona sé fyrir mér allt það versta.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Annað hvort vakna ég ógeðslega snemma eða snooza tíu sinnum. Það er enginn millivegur.
Hvað gerir þú til að slaka á: Allt svona dúllerí sem ég sökkt mér ofaní. T.d. að hekla, púsla, perla, lita, endurskipuleggja skúffur… einhverjar aðstæður þar sem ég gleymi stað og stund. Svo er sund líka besta slökunin, fara í gufuna og kalda.
Hvað finnst þér vanmetið: Það er mjög vanmetið að kunna að meta það að vera ekki illt einhversstaðar. Svo finnst mér nytjamarkaðir eins og Góði Hirðirinn vera mjög vanmetnir. Algjörlega gersemar sem má finna þar.
En ofmetið: Dýr húsgögn sem eru óþægileg.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ef ég set á Prada þá er það bein leið í gírun. Svo finnst mér best að hlusta á sama lagið aftur og aftur þangað til ég fæ ógeð á því og hlusta svo aldrei á það aftur.
Besta lyktin: Nýslegið gras og lyktin sem kemur þegar það er búið að rigna er venjulega svarið mitt. Skrýtna svarið mitt svona bílskúrs og bensínlykt, get engan vegin útskýrt hvað það er en einhver blanda af bensín, málma og málningarlykt sem ég elska.
Bað eða sturta: Ég er meiri sturtu kona. Myndi alltaf frekar fara í sund heldur en að fara í bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Þrífa klósett er lang leiðinlegasta húsverkið, en ég hafði vit á því að koma þeim verkum í hendur annarra heimilismanna. Ég hreinsa heldur ekki niðurfallið í vaskinum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Vinkona mín sagði einu sinni eitt við mig sem að alveg pikk festist. Ég var að fara að halda kynningu og var eitthvað stressuð. Hún sagði við mig að í staðin fyrir að hugsa „Hvað er það versta sem gæti gerst?“ ætti ég frekar að hugsa „Hvað er það besta sem gæti gerst?“ Þetta breytir því algjörlega hvernig hugarfar maður tekur með sér í verkefnin, þú laumar ótrúlega miklu sjálfstrausti í hausinn á þér bara með því að orða setninguna öðruvísi.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er alveg galandi morgunhani. Best að vakna á undan öllum öðrum og dúllast frammi með rjúkandi kaffibolla. Ég geri ekkert af viti eftir klukkan 10 á kvöldin.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég elska öll lítil pláss úti á landi, einhver rómantísk stemning sem fylgir þeim og mig dreymir um að búa fyrir vestan eða austan í eitt ár. Þakgil er svo dásamlegur staður og svo var alveg galin upplifun að sjá píramídana í Egyptalandi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Dónalegt fólk fer alveg í mínar fínustu og þegar fólk elskar að búa til drama úr engu.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það hefur nú ýmislegt komið upp á en núna nýlega sagði vinur stráksins okkar að ég væri skrýtin því ég var að lita með þeim. Það er ein leið til að koma manni niður á jörðina.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði alltaf að verða lögga eða listmálari. En svo á tímabili var ég harðákveðin í að verða bridge spilari og tína ánamaðka eins og pabbi minn. En það er nú ekki of seint fyrir neitt af þessu.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það er til mikið af fyndnu fólki en ég hlæ sjaldan jafn mikið eins og þegar ég og Elsie vinkona mín erum tvær saman.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi klárlega byrja á að velja mér einhverja frábæra tónleika til að fara á, síðan myndi ég ákveða að breytast í t.d. LeBron James og fá loksins að upplifa að standa í þvögu af fólki og sjá hvað er að gerast á sviðinu.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ætli ég hangi ekki mest á TikTok.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi banna stríð og gefa öllum frí í vinnunni.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef farið í hringinn og keppt í Muay Thai í Tælandi. Ég tapaði með TKO.
Mesta afrek í lífinu: Ég held að það sé bara að takast að vera róleg og sátt innra með mér. Þegar maður nær því verður allt gott.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi gera tilraun og fara aftur um 15 ár og prófa að breyta einhverju einu til að sjá hvaða áhrif það hefði á restina af lífinu mínu.
Lífsmottó: Bara hafa gaman, því það er svo leiðinlegt að hafa leiðinlegt.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég er að fara á pínulítil vinajól með vinahópnum á laugardaginn og svo á Moulin Rouge í Borgarleikhúsinu á sunnudaginn. Hlakka mikið til!
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

