Tónlistarmaðurinn Alexander Freyr Olgeirsson frá Selfossi vinnur þessa dagana að barnaplötu með frumsömdu efni undir merkjum Út í geim og aftur heim. Platan, sem er fjórtán laga geimævintýri, er ein heil saga sem fléttar saman tónlist og leikþáttum. Alexander Freyr stendur fyrir söfnun vegna verkefnisins á Karolina Fund og er hægt að fræðast nánar um tilurð plötunnar og styðja við bakið á Alexander hér.

Fullt nafn: Alexander Freyr Olgeirsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist á Selfossi þann 3. júní árið 1991 sem er einmitt afmælisdagurinn minn líka.
Fjölskylduhagir: Ég er trúlofaður Margréti Hörpu Jónsdóttur og saman eigum við Vöku Röfn dóttur okkar.
Menntun: Ég útskrifaðist með B.A. gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2018.
Atvinna: Ég starfa sem umsjónarmaður frístundaklúbbs á Selfossi og sem tónlistarmaður. Svo er ég kórstjóri/kennari í Hörðuvallaskóla í Kópavogi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Nú les ég ekki mikið af bókum og hef alltaf fundið mig betur í kvikmyndum. En ég las eitt sinn Fight Club sem samnefnd mynd er gerð eftir og ég verð að segja að myndin var betri.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég hef alltaf verið mikill FRIENDS maður en annars segi ég Breaking Bad og The Leftovers.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Einhvernveginn virðist ég dragast aftur og aftur að The Matrix.
Te eða kaffi: Alltaf í kaffinu. En passa mig á kleinunum.
Uppáhalds árstími: Sumarið er tíminn.
Besta líkamsræktin: Ólympískar lyftingar.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Mig dreymir um að opna lasagne stað einn daginn. Allskonar mismunandi lasagne og lokað á mánudögum.
Við hvað ertu hræddur: Kóngulær og margfætlur.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Uppúr kl 7, þegar klukkan hringir. Það er, ef barnið eða kötturinn eru ekki fyrri til.
Hvað gerir þú til að slaka á: Horfi á góða bíómynd, spila tölvuleiki eða spila á gítarinn.
Hvað finnst þér vanmetið: The Bachelor eða kannski gráðostur.
En ofmetið: Þeyttur rjómi með kökum og bara kökur almennt. Og vöfflur.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: You’re the voice með John Farnham og Son of man með Phil Collins.
Besta lyktin: Ekki viss. Mögulega pizza lykt. Versta lyktin er hinsvegar sviðinn gráðostur.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að taka til. Vegna þess að það tekur engan enda.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að byrja að læra á hljóðfæri.
Nátthrafn eða morgunhani: Bæði betra.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Guitar Center og Disney World í Bandaríkjunum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk keyrir of hægt fyrir framan mig eða of hratt fyrir aftan mig.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég var í sundi að tala við félaga minn sem stóð á bakkanum. Svo kastaði ég svona korkbretti þvert yfir sundlaugina sem fór óvart í par sem var að kyssast og kela eitthvað. Ég brást við og fór beint í kaf og þau héldu að félagi minn hafi gert þetta.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bóndi eins og afi minn Gísli Geirsson.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Salómon Smári. Annars hlæ ég líklega mest að sjálfum mér.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera Dwayne “The Rock” Johnson og plögga tónlistinni minni á Instagraminu hans og taka svo einhvern í sjómann.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram og Reddit.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi láta alla til að hlusta á plötuna mína eða láta alla segjast hafa gert það.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Einu sinni talsetti ég heila teiknimynd bara fyrir sjálfan mig. Svo neyði ég fjölskylduna mína til að horfa á hana hver jól. Myndin var Jólaósk Önnubellu.
Mesta afrek í lífinu: Eignast og ala upp barn!
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég held það yrði forvitnilegt að fara kannski 200-400 ár fram í tímann. Maður getur svo bara  lesið um fortíðina.
Lífsmottó: Ekki taka þér of alvarlega.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég átti nú að syngja í einhverju partýi en ég mun bara taka því rólega og eyða tíma með fjölskyldunni. Syngja og dansa með dóttur minni.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÁrborg samþykkir aðgerðir vegna COVID-19
Næsta greinKrókusarnir kíkja upp úr moldinni