Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti á dögunum að ráða Steinunni Erlu Kolbeinsdóttur í starf bæjarritara hjá Hveragerðisbæ. Steinunn Erla hefur starfað hjá Lögmönnum Suðurlandi frá árinu 2007, að mestu leyti í þjónustu við sveitarfélög og tengda aðila. Þá hefur hún verið aðalmaður í yfirkjörstjórn Sveitarfélagsins Árborgar síðastliðin þrjú ár.

Fullt nafn: Steinunn Erla Kolbeinsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 30. desember 1984, Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Einari Þorgeirssyni og saman eigum við tvær dætur, Brynju Dögg 13 ára og Hildi Rut 10 ára.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Guðrún Bergmann Vilhjálmsdóttir og Kolbeinn Reynisson. Ég ólst upp í Eyvík í Grímsnesi.
Menntun: Ég er með masterspróf í lögfræði frá Háskóla Íslands.
Atvinna: Ég er nýtekin við starfi bæjarritara og sviðsstjóra stjórnsýslusviðs hjá Hveragerðisbæ.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég hef ekki lesið mikið seinni árin en les reglulega kafla í Einræðum Steinólfs.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi aðallega á íslenska þáttagerð og fylgist alltaf með Gulli byggir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég horfi á The Holiday um hver jól.
Te eða kaffi: Ég verð að segja kaffi en fer í te þegar kaffibollarnir eru orðnir of margir.
Uppáhalds árstími: Mér finnst allar árstíðirnar hafa sinn sjarma en það er eitthvað extra við haustin þegar allt smellur í rútínu.
Besta líkamsræktin: Mér finnst skemmtilegast að fara í fjallgöngu.
Hvaða rétt ertu best að elda: Mér finnst mjög gaman að elda góðan mat en það jafnast ekkert á við góða nautasteik með sveppasósu og tilheyrandi meðlæti.
Við hvað ertu hrædd: Ég er mjög hrædd við að eitthvað komi fyrir mína nánustu.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer á fætur 6:30 á virkum dögum en svona milli 8 og 9 um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég fer í bað og kveiki á kertum.
Hvað finnst þér vanmetið: Mér finnst vanmetið að vera ekki með of mikið plan á kvöldin.
En ofmetið: Skyndibitamatur.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Barfly með Jeff Who?
Besta lyktin: Lyktin af nýþrifnu húsi.
Bað eða sturta: Það er bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Leiðinlegasta húsverkið er klárlega að hengja þvott úr þvottavélinni.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að horfa fram á við, því að maður getur ekki breytt fortíðinni.
Nátthrafn eða morgunhani: Núorðið er ég meiri morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Útsýnið yfir Hestvatn og Hestfjall úr Eyvík er það allra fallegasta.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Dónaskapur fer mjög í taugarnar á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ætli það hafi ekki verið þegar ég datt í hringstiganum í Inghól, þegar einhver tróðst á undan mér. Það endaði með því að ég rétt náði að grípa í þrepið fyrir ofan mig í stiganum og hékk þar í lausu lofti, þar til dyravörður bjargaði mér niður.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég var mjög lengi ákveðin í að verða lífeindafræðingur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Sveppi.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að vera frú Halla Tómasdóttir forseti, af því að ég gæti lært svo mikið af því.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég strax stoppa öll stríð sem eru í gangi í heiminum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er með lesblindugreiningu.
Mesta afrek í lífinu: Stelpurnar mínar.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast fram í tímann og sjá hvað stelpurnar mínar verða að gera eftir 50 ár.
Lífsmottó: Hvað sem þú gerir, ekki missa gleðina.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla aðallega að eiga notalega helgi með fjölskyldunni og kannski förum við í að kaupa nokkrar jólagjafir.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSöfnuðu rúmlega 1,7 milljónum króna fyrir Sigurhæðir
Næsta greinFélagar Bjössa bónda unnu sveitakeppni HSK