Ösp Viðarsdóttir frá Kaldbak á Rangárvöllum tók nýlega til starfa sem markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings ytra en hún tók við starfinu af Eiríki Vilhelm Sigurðarsyni. Ösp er svo sannarlega á heimavelli í nýja starfinu því hún ólst upp í sveitarfélaginu, er búsett þar og þekkir samfélagið vel.

Fullt nafn: Ösp Viðarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 18. desember 1985 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Gift Ragnari Guðmundssyni, matreiðslumanni. Við eigum tvo syni, alveg að verða 4 og 8 ára.
Hverra manna ertu: Mamma og pabbi eru Sigríður H. Heiðmundsdóttir og Viðar H. Steinarsson, bændur á Kaldbak á Rangárvöllum.
Menntun: Kláraði grunnskólann á Hellu 2001, FSu 2004, BA í sagnfræði og kynjafræði frá HÍ 2009 og 3 ára nám sem kallast nutrition science and therapeutics frá IINH á Írlandi 2013. Svo er ég búin með bút af mastersnámi í þýðingafræði og hef svo setið ýmis námskeið í gegnum árin.
Atvinna: Markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings ytra.
Besta bók sem þú hefur lesið: Karítas: án titils.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Parks & Recreation, ef ég þarf að velja einn.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Aðallega teiknimyndir, t.d. Kung Fu Panda-myndirnar, elska þær. Stella í orlofi er líka klassísk.
Te eða kaffi: Drekk oftar kaffi en er tekona inn við beinið.
Uppáhalds árstími: Síðla vors og sumar.
Besta líkamsræktin: Annars vegar crossfit, bootcamp og álíka djöfulgangur og hins vegar göngur úti í náttúrunni.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er frábær hamfarakokkur og vil meina að ég geti eldað hvað sem er. Þarf hugsanlega að nota alla pottana og öll áhöldin, eiginmanni mínum til lítillar ánægju, en það mun bragðast vel. Ég er samt mest bara að elda hakk og spagettí og álíka sígilda, barnvæna rétti þessi misserin.
Við hvað ertu hrædd: Sjóinn, finnst gott að vera nálægt honum en alls ekki að vera ofan í honum.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Um sjöleytið yfirleitt.
Hvað gerir þú til að slaka á: Lyppast niður á sófann í lok dags og horfi á eitthvað heilalaust.
Hvað finnst þér vanmetið: Allskonar, en t.d. finnast mér störf bænda hræðilega vanmetin.
En ofmetið: Áfengi.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: I Wanna Dance with Somebody, Killing In The Name, Sódóma, Skímó… ég er hugsanlega Sunnlendingur af þúsaldarkynslóðinni.
Besta lyktin: Sítrusávextir, mynta, nýfædd lömb og nýslegið gras.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Taka til og þrífa niðurföll.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ef þú ert ekki sátt er bara tvennt í stöðunni: breyta til eða breyta hugarfarinu.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn, alveg B+.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Sveitin mín og hálendi Íslands koma fyrst upp í hugann.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Snobb, fordómar, skammsýni, snjór og þegar einhver rekur á eftir mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég er mjög vandræðaleg og utan við mig. Heilsaði sjálfri mér einu sinni í spegli, var líka einu sinni í sturtu í ræktinni þegar vankaður karl var að koma úr gufunni og fór í vitlausan klefa, það var aðeins pínlegt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Hafði aldrei hugmynd, var og er svo mikill sveimhugi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Synir mínir og Unnur Lilja.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri alveg til í að vera kötturinn minn stundum. Engin ábyrgð, bara knús og alltaf nóg að borða.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram líklega.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi gera mitt besta til að stöðva stríð og koma á sætti og jöfnuði.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég lærði förðunarfræði 2005, það kemur flestum á óvart, enda eðal lúði og lítið að punta mig nú til dags.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Úff, gæti aldrei valið, langar að sjá allt! Yrði samt held ég að fara með synina til risaeðlutímans.
Lífsmottó: Gera mitt besta og reyna að skilja eitthvað jákvætt eftir mig.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Sigra vetrarpestirnar sem herja á fjölskylduna.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri grein„Það öskursungu þetta allir…“
Næsta greinMikilvæg stig í pokann