Í dag, föstudag milli 14 og 16 verður hátíðarathöfn og opið hús í Grunnskólanum í Hveragerði, þar sem 2. og 3. áfanga stækkunar skólahúsnæðisins verður fagnað. Hvergerðingurinn Sævar Þór Helgason er skólastjóri GíH og hann er einn þeirra sem flytja mun hátíðarávarp áður en gestum verður boðið upp á leiðsögn um ný húsakynni skólans. Sævar Þór er Sunnlendingur vikunnar að þessu sinni.

Fullt nafn: Sævar Þór Helgason.
Fæðingardagur, ár og staður: 26. júlí 1973 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Kvongaður Bryndísi Valdimarsdóttur kennara. Eldri sonur okkar Ívar Dagur er tvítugur háskólanemi og tónlistarstrákur. Valdimar Helgi er nemandi í 8. bekk við GíH og fótboltastrákur.
Hverra manna ertu: Sonur Möggu Kristjáns sem fædd er í Ölfusi og Helga Hannessonar frá Gilstreymi í Lundarreykjadal, Borgarfirði. Þar bjó líka afi Ólafs Ragnars Grímssonar, hann er mér alls ókunnur og við erum mjög lítið skildir.
Menntun: Gott grunnskólapróf frá Grunnskólanum í Hveragerði 1989. Hæfni náð. Stúdentspróf frá einum besta framhaldsskóla á Suðurlandi, Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1993. Hæfni náð. Kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands 2000. Hæfni náð. Meistarapróf frá Háskóla Íslands 2016. Hæfni náð.
Atvinna: Skólastjóri Grunnskólans í Hveragerði. Oft með vinum mínum í Á móti sól á kvöldin.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þær eru svo margar. Í dag ætla ég að segja Þú átt gott Einar Áskell.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Fóstbræður. Enn þann dag í dag vitna ég óspart í þá klassík.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Með allt á hreinu. Annars sofna ég orðið yfir flestu sem er lengra en 30 mínútur.
Te eða kaffi: Kaffi, get samt alveg sleppt því dögum saman.
Uppáhalds árstími: Sumarið er tíminn. Annars hafa allar árstíðir sinn sjarma og eitthvað gott við sig.
Besta líkamsræktin: Ganga og sundlaugarferðir. Bara ekki reyna of mikið á sig.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Er stundum heppinn í eldhúsinu. Ætli rækjupasta sé ekki ofarlega.
Við hvað ertu hræddur: Er lofthræddur. En að eitthvað komi fyrir fólkið sem stendur mér næst er mesta hræðslan. Annars er hræðsla náttúrulegt varnarkerfi svo það er ágætt að verða stundum svolítið hræddur.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Er kvöldsvæfur maður, fer snemma til vinnu. Milli 6 og 7. Er þetta kannski mótsögn við svar mitt við hrafns eða hana spurningunni hér á eftir?
Hvað gerir þú til að slaka á: Spila á gítar, spila BlockBlast! Qblock eða 2248. Annars er gufubað besta slökunin á heimsins besta stað, Laugaskarði.
Hvað finnst þér vanmetið: Rólegheit og gefa sér tíma í verkefni.
En ofmetið: Að „multitaska.“ Það getur það enginn og það eru ekki merki um dugnað. Að gera marga hluti í einu dregur úr einbeitingu og góðum árangri.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Algjörlega aðstöðu bundið. Nefni tvö; Stratus með Billy Cobham og Firestarter með The Prodigy.
Besta lyktin: Er af vorinu.
Bað eða sturta: Sturta á morgnana, bað á kvöldin. Þegar ég leggst ofan í snarpheitt bað þá kveiki ég á Ipad og horfi á eitthvað sniðugt á túbunni (e.YouTube). Spjaldið situr á þar til gerðri hillu og hvorki búnaði né mannfólki stafar hætta af. Dásamlegt.
Leiðinlegasta húsverkið: Þetta er sóðavinna sem þó þarf að sinna. Ætli það sé ekki að setja í uppþvottavél, væntanlega vegna þess hve lélegur ég er að raða.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þú verður að vera alveg rólegur.
Nátthrafn eða morgunhani: Hvorugt. Hef farið frá því að vera hrafn í að verða hálfgerður hani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þetta er líklega erfiðasta spurningin. Kambabrún og horfa yfir Ölfusið allt.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ófagmennska og óvandað stjórnmálafólk.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Hér er af nægu að taka og fæst af því birtingarhæft til varðveislu. Ætlaði einu sinni að hrekkja vin sem var á almenningssalerni, bankaði hressilega og lét dólgslega við klefann. Andartaki síðar kemur út eldri herramaður sem ég kannaðist ekkert við. Ég var fljótur að lauma mér út, rauður í framan og skömmustulegur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Atvinnumaður í fótbolta til svona 12 ára svo hefur leikari líklega komið þar á eftir. Það er ansi stutt á milli leikara og kennara, jafnvel mjög stutt í prest og þá þarf maður að trúa á guð.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Þekki marga mjög fyndna sem er gott og það er þvílíkur heiður að nefna sjálfan Þóri Gunnarsson bassaljúfling. Sá er skrambi fyndinn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Jamie Redknapp. Hann er mjög fallegur, var góður í fótbolta og hefur skemmtilegar tengingar til Liverpool sem væri gaman að nýta sér.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Líklega FB, Instagram nálægt samkvæmt skjátímamælingum. X- gamli Twitter fylgir þarna á eftir, sérstaklega til að fylgjast með allskonar fótboltatengdu.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá væri málið að koma á varanlegum heimsfriði. Því öll dýrin í skóginum eiga nefnilega að vera vinir.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Hef verið handknattleiksmaður Hveragerðis í áratugi. Enda leikurinn ekki stundaður í blómabænum síðan undir lok síðustu aldar.
Mesta afrek í lífinu: Náði í Bryndísi og eignast með henni hæfileikaríka drengi.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara fram í tímann, 50-100 ár. Eignast ég afkomendur? Hvernig farnast þeim? Sjá hvernig menntakerfið hefur þróast. Hefur gervigreindin/vitvélarnar haft meiri áhrif en þegar rafmagnið kom til sögunnar?
Lífsmottó: Reyna að vera glaður og góður.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ef núgildandi tímatal segir helgina byrja um hádegi á föstudegi þá er stóra málið opið hús í Grunnskólanum í Hveragerði; 17.10.25, klukkan 14. Matarboð hjá Ara vini okkar á Þurá, hann er góður kokkur. Annars hlakka ég mest í heimi til að fara í afmæli hjá vinum mínum, Svanborgu Eik og Bjarna Ými á sunnudag. Góð helgi framundan.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSelfyssingar komnir á blað
Næsta grein„Viltu finna milljón?“ fær góðar viðtökur