Steinunn Birna Guðjónsdóttir opnaði nú í október Hornið Creative Studio, sem er skapandi rými við Brúarstræti 12 í miðbæ Selfoss. Þar er hægt að eiga notalegar stundir við að leira og handmála á tilbúið keramik en Steinunn Birna selur bæði fjölbreytta listmuni og heldur námskeið bæði fyrir einstaklinga og hópa.

Fullt nafn: Steinunn Birna Guðjónsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 20. ágúst 1990 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Gift honum Ingimari mínum og eigum við saman tvær yndislegar dætur.
Hverra manna ertu: Mamma mín er Brynhildur Jónsdóttir og pabbi minn er Guðjón Kjartansson.
Menntun: Ég er með stúdentspróf frá besta FSu, BA gráðu í þjóðfræði og svo næstum því MA gráðu í Menningarmiðlun, eitthvað lokaverkefni að vefjast fyrir mér þar.
Atvinna: Ég rek Hornið Creative Studio, sem var að opna nú á dögunum í hjarta miðbæjar Selfoss.
Besta bók sem þú hefur lesið: Vá, erfitt að velja. Ég reyndar á erfitt með að lesa með augunum en er hámhlustari á bækur. Mínir uppáhalds höfundar eru Ragnar Jónasar, Lucinda Riley og Colleen Hoover. En mæli með að lesa bókina Þögli sjúklingurinn og Undir yfirborðinu. Svo tek ég alltaf bókina Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson á aðventunni, hlakka til að lesa hana aftur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi mjög lítið á sjónvarp en get alveg dottið inn í klisjukennda raunveruleika þætti og nú síðast voru það The Secret Lives of Mormon Wifes.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég og Brynja dóttir mín tökum Harry Potter allavega einu sinni á ári og svo eru það þessar huggulegu jólamyndir sem maður horfir á árlega, Grinch og Home Alone.
Te eða kaffi: Alltaf kaffi, en bara tvo bolla á dag og helst fyrir hádegi því annars get ég ekki sofnað.
Uppáhalds árstími: Haustið. Elska litina, lyktina, hlýjuna og huggulegheitin sem fylgja haustinu.
Besta líkamsræktin: Elska að æfa í Box 800, fara í barre, út að hlaupa, pílates og aerial jóga.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég elda aðallega við hátíðleg tilefni, Ingimar sér mest um að elda hversdagslega á okkar heimili. En ég er sterk í smárétta leiknum. Geri gjarnan brúsettur með allskonar gúmmelaði.
Við hvað ertu hrædd: Ég er hrikalega lífhrædd og með rosalega innilokunarkennd.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Svona uppúr sjöunni.
Hvað gerir þú til að slaka á: Geri alltof lítið af því, en mér finnst æðislegt að fara í saunu og kalda.
Hvað finnst þér vanmetið: Að leira. Það er fátt eins jarðtengandi og róandi og að handleika leirinn.
En ofmetið: Fjöldaframleitt drasl.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ef ég þarf instant stuð þá set ég á eitthvað geggjað girlpower með Robyn, Sigrid eða No doubt.
Besta lyktin: Ó svo margar, lyktin af blóðbergi er örugglega sú besta.
Bað eða sturta: Sturta allan daginn, nenni ómögulega að hanga í baði.
Leiðinlegasta húsverkið: Ganga frá þvotti og þrífa ísskápinn.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að þú uppskerð eins og þú sáir.
Nátthrafn eða morgunhani: Eiginlega hvorugt. Elska að sofa út og fara snemma að sofa.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég hugsa að Douro dalur í Portúgal sé með þeim fallegri sem ég hef komið á.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Neikvæðni og tuð.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég man ekki eftir neinu einu atviki en ég lendi vandræðalega oft í því að þekkja ekki fólk sem gefur sig á tal við mig. Er ekki mjög mannglögg og biðst innilega afsökunar á því.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að verða bakari, eins gott ég hætti við það því ég get aldrei fylgt uppskriftum og gleymi kökum reglulega inní ofni.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Er svo heppin að búa með einstaklega fyndnu fólki svo þau fá vinninginn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Beyonce, veit samt ekki afhverju. Kannski bara af því hún er sassy queen.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Er gamalmenni á TikTok.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi að sjálfsögu binda endi á þessi hörmulegu stríð í heiminum í dag.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef sungið einsöng fyrir forseta Íslands.
Mesta afrek í lífinu: Að koma börnunum mínum í heiminn.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast fram í tímann til að hitta framtíðar afkomendur mína.
Lífsmottó: Lífið er stutt, njótum þess til hins ítrasta og verum óhrædd að gera mistök.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég fæ til mín fullt af dásamlegu fólki í huggulegheit í Hornið að föndra grasker og annað skemmtilegt haust föndur og undirbúa leirnámskeið sem fer af stað í næstu viku.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinBrjálað stuð á bleiku konukvöldi Lindex
Næsta greinHamar byrjar á sigri – Selfyssingar töpuðu