Rangæingurinn Ómar Úlfur Eyþórsson var á dögunum ráðinn dagskrárstjóri útvarpsstöðvarinnar Bylgjunnar. Þessi reynslumikli fjölmiðlamaður starfaði lengst af á X-977 en hefur síðustu misserin gælt við eyru landsmanna í Bítinu á Bylgjunni. Hann mun nú taka við því verkefni að leiða áframhaldandi uppbyggingu dagskrárgerðar og þróunar Bylgjunnar.
Fullt nafn: Ómar Úlfur Eyþórsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur í Reykjavík 28. apríl 1980. Ég skil ekki ennþá afhverju mamma eignaðist mig ekki á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Afrekaði það að giftast langt upp fyrir mig, henni Báru Jónsdóttur. Við eigum saman þrjú börn. Grétar Þór 14 ára, Þórdísi Önnu 10 ára og Birkir Ara 3 ára og auðvitað hundinn Funa 5 ára.
Hverra manna ertu: Ég er Eyþórssonur Óskarssonar, afi úr Biskupstungum en var sjálfur bóndi í Fljótshlíð. Mamma ólst upp á Nesjavöllum í Grafningi en sjálfur sleit ég barnsskónum á Hvolsvelli þannig að Suðurlandið á í mér hverja taug.
Menntun: Er með sveinspróf í húsasmíði og þarf að skella mér í meistarann við tækifæri.
Atvinna: Dagskrárstjóri Bylgjunnar.
Besta bók sem þú hefur lesið: Sjóræninginn eftir Jón Gnarr er í sérstöku uppáhaldi rétt eins og Indjáninn og Útlaginn eftir Jón.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Það toppar ekkert Fóstbræður.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Nú er tími jólamyndanna og þær eru nokkrar sem að ég fæ ekki leið á. Home Alone, Christmas Vacation og Die Hard – sem er jólamynd hvað svo sem hver segir.
Te eða kaffi: Mikið kaffi. Allan daginn og langt fram á kvöld.
Uppáhalds árstími: Íslensku sumrin eru best en ég er líka mikið jólabarn. Janúar og febrúar mættu hinsvegar alveg missa sín.
Besta líkamsræktin: Að bera tjörupappa upp á þak. Og bara flest öll smíðavinna.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Brauð með bökuðum baunum. Ég er svo skelfilegur kokkur að það er í raun rannsóknarefni. Ég eldaði einu sinni lasagna með hakki, lasagna plötum og ostasósu sem skýrði það Tex mex. Það var með öllu óætt enda vantaði víst eitthvað vökvakennt í uppskriftina.
Við hvað ertu hræddur: Eins og ég er nú mikill sveitamaður í grunninn þá hef ég alla ævi verið logandi hræddur við kýr.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Við í Bítinu á Bylgjunni vöknum í fyrra fallinu. Yfirleitt er ég kominn á fætur klukkan 5, næ göngutúr með Funa og mæti í vinnu klukkan 6.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég safna vínylplötum og hef ógurlega gaman af því að slaka á og hlusta á góða vínylplötu. Svo er ég með dellu fyrir gömlum græjum. Það er fátt betra en að fá gamlan plötuspilara í fangið, laga hann til og fá hann kannski til að syngja eftir áratuga hlé. Síðan er mikil hugarró fólgin í því að gera upp gamlar Massey Ferguson dráttarvélar.
Hvað finnst þér vanmetið: Hvolsvöllur, eða París suðursins. Ef að allir myndu uppgötva þetta svæði þá myndi byggðin sennilega tengjast höfuðborgarsvæðinu á tveimur árum. Ég má líka til með að mæla með hamborgaranum hjá Úlla á Valhalla á Hvolsvelli og kjúklingaborgaranum hjá Smiðjunni Brugghús í Vík. Ég mæli með að allir landsmenn fari í matarupplifunarbíltúr um Suðurlandið. Það er gott að borða… á Suðurlandi.
En ofmetið: Fermetrastærð húsnæðis er stórlega ofmetin. Ég verð seint sakaður um naumhyggjulífstíl og það er nóg pláss í kringum mig en ég held að alltof margir haldi það að hamingjan búi í fermetrum.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Einn dans við mig með Hemma Gunn virkar alltaf. Lag sem sameinar öskursöng og tryllingsdans.
Besta lyktin: Nýslegið tún í Grafningi og klárlega besta lyktin, blönduð dashi af díselreyk úr 3 cylinder Perkins mótor Massey Ferguson 35X. I love it!
Bað eða sturta: Bað auðvitað. Þessi lenska fólks að útrýma baðkörum úr húsum er algerlega óskiljanleg með öllu.
Leiðinlegasta húsverkið: Það er að brjóta saman blessaðan þvottinn.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Hugsaðu eins og vatnið er ráð sem að mér var gefið í smíðinni fyrir mörgum árum. Óskeikult ráð sem virkar á flest viðfangsefni lífsins.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani og hef alltaf verið.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Fljótshlíðin ber af þegar að fegursta fjall veraldar, Þríhyrningur, skartar sínu fegursta og himininn opnar sig yfir Þórsmörk. Það er fátt í heiminum sem að toppar þessa sýn.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Skortur á fagmennsku. Vertu alltaf stoltur af því sem að þú gerir og gerðu það vel! Annars skaltu fara að gera eitthvað annað.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Flestir sem að ala upp börn vita hverslags Guðsgjöf barnlaus klukkutími er. Dag einn var ég sendur með hundinn í snyrtingu á Álftanes. Mætti samviskusamlega með hundinn á tilsettum tíma og var beðinn um að sækja hann klukkustund síðar. Hugsaði mér gott til glóðarinnar og reykspólaði (á löglegum hraða) að sundlaug bæjarfélagsins. Ætlaði að slaka á í heita pottinum án áreitis. Leigði ég mér sundfatnað og handklæði, rauk inn í klefa og svipti mig klæðum. Ég mátti engan tíma missa. Stóð ég gleraugnalaus á nærklæðunum er ég heyrði móðurlega rödd segja „ertu ekki að villast vinur?“ Hálf blindur með fatahrúguna í fanginu rauk ég á dyr, fann réttan klefa og komst við illan leik í heita pottinn. Slökunin var hins vegar fokin veg allrar veraldar og ekki gat ég beðið konuna afsökunar því ég sá hana í móðu enda gleraugnalaus.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði nú alltaf að verða prestur. Ætli það sé eitthvað aldurstakmark í námið?
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það er enginn sem að toppar Jón Gnarr.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera yngsti sonur minn og finna hvernig pabbi ég er.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook því miður. Maður ætti í rauninni að slökkva á öllum samfélagsmiðlum. Ég hugsa að samfélagsmiðlar verði á sama stað og sígarettur eftir svona tuttugu ár. Fólk mun hrista hausinn yfir þessu bulli.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég sennilega afsala mér völdum. Það er enginn einn sem getur allt.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég get snert nefbroddinn með tungunni.
Mesta afrek í lífinu: Það eru auðvitað þessi þrjú fallegu börn sem að ég á og sú staðreynd að konan mín sé ennþá með mér.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ætli ég myndi ekki skella mér í Villta vestrið og sjá hvað ég myndi endast lengi. Sem er sjálfsagt styttri tími en ég held.
Lífsmottó: Hugsaðu eins og vatnið.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Það er róleg aðventuhelgi framundan. Hitta góða vini í mat og drykk og gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni. Hlusta á Bylgjuna og líða stresslaus fram að jólum. Gleðileg jól!
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

