Þrjátíu og níu nýstúdentar brautskráðust frá Menntaskólanum að Laugarvatni á dögunum. Bestum heildarárangri nýstúdenta náði Helga Margrét Óskarsdóttir frá Hruna í Hrunamannahreppi en hún var með aðaleinkunnina 9,52 sem er vegið meðaltal allra áfanga sem hún tók við skólann á þriggja ára námsferli sínum. Er það níundi besti árangur nýstúdents á stúdentsprófi í sögu skólans.

Fullt nafn: Helga Margrét Óskarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist á spítalanum á Akranesi þann 23. mars árið 2001.
Fjölskylduhagir: Mamma mín heitir Elín Una Jónsdóttir, pabbi Óskar Hafsteinn Óskarsson og svo á ég tvö yngri systkini, Óskar Snorra og Elínbjörtu Eddu.
Menntun: Stúdent af náttúruvísindabraut frá Menntaskólanum að Laugarvatni.
Atvinna: Ég vinn í Litlu Melabúðinni á Flúðum, allir ættu að líta við þar í sumar!
Besta bók sem þú hefur lesið: Morgnar í Jenín eftir Susan Abulhawa er í uppáhaldi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Akkúrat núna er það Criminal Minds en annars get ég horft á fyrstu seríurnar af Grey’s Anatomy aftur og aftur.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Inception er fáránlega góð svo er One Day líka yndisleg.
Te eða kaffi: Te þegar það er kalt úti, kaffi þegar ég hef ekki sofið nóg. Annars held ég mig við vatnið.
Uppáhalds árstími: Þegar það er alveg hávetur eða hásumar.
Besta líkamsræktin: Eins og er finnst mér frískandi að fara út að hlaupa annars breytist líkamsræktin mín mjög reglulega.
Hvaða rétt ertu best að elda: Eitthvað þegar ekkert virðist vera til í eldhúsinu.
Við hvað ertu hrædd: Spurningin „Hver eru áhugamálin þín?“ fær mig til að svitna í lófunum þar sem ég hef engin sérstök áhugamál.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Fer eftir því hvað ég þarf að gera þann dag en alla jafna á milli 9 og 10 á morgnana.
Hvað gerir þú til að slaka á: Sest upp í sófa og horfi á góða þætti.
Hvað finnst þér vanmetið: Þögnin.
En ofmetið: Að þurfa að hafa rétt fyrir sér.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það er eitthvað við Everybody Wants To Rule The World með Tears for Fears.
Besta lyktin: Nýbakaðir kanilsnúðar.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Ætli það sé ekki að þurrka rykið úr hillunum mínum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: „Brostu’’. Þarf ekki að vera flókið, ótrúlegt hvað smá bros kemur mér langt.
Nátthrafn eða morgunhani: Góð blanda af hvoru tveggja held ég.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Mjóifjörður á Austfjörðum er alveg einstaklega fallegur.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar þessi eina fluga hættir ekki að suða alla nóttina.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Man ekki eftir neinu sérstöku. Hver hefur þó ekki lent í því að veifa einhverjum til baka sem var að veifa einhverjum allt öðrum en þér?
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Hef aldrei verið harðákveðin með neitt. Ég man þó eftir því að hafa viljað verða læknir en það hefur breyst.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Sigrún föðursystir mín er mjög fyndin. Amma Margrét er líka mikill húmoristi.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ætli ég yrði ekki að vera Trump Bandaríkjaforseti. Ég myndi játa allar syndir mínar, draga forsetaframboð mitt til baka og panta síðan tíma hjá sálfræðingi.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram helst þó ég sé eiginlega orðin þreytt á flestum samfélagsmiðlum.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi reyna eins og ég gæti að lina þjáningar fólks víðs vegar um heiminn.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er frekar slök manneskja og það er mjög erfitt að koma mér í uppnám.
Mesta afrek í lífinu: Ég er einmitt að vona að ég eigi það ennþá eftir.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Aftur í tímann, svo margt sem ég væri til í að upplifa. Mér dettur í hug Berlín árið 1989, þegar Berlínarmúrinn féll. Svo væri einnig alveg magnað að upplifa Ólympíuleikana sem haldnir voru í Ólympíu í Grikklandi fyrir um 3000 árum. Verð líka að fá að nefna hversu epískt það væri að fá að sjá fyrstu uppfærslu af Shakespearleikriti.
Lífsmottó: Allir slakir.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég ætla í riverrafting í góðum félagsskap.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHellisheiði lokuð til austurs
Næsta greinGleðistundir hefjast að Kvoslæk