Trausti Hjálmarsson í Austurhlíð í Biskupstungum var kosinn nýr formaður Bændasamtaka Íslands til næstu tveggja ára um síðustu helgi. Trausti hlaut góða kosningu eða tæplega 66% atkvæða. Hann hefur um árabil unnið að hagsmunamálum bænda og var áður formaður í deild sauðfjárbænda.

Fullt nafn: Trausti Hjálmarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur á Sjúkrahúsinu á Selfossi 8. desember 1982.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Kristínu Sigríði Magnúsdóttur og eigum við fjögur börn.
Hverra manna ertu: Ég er Flóamaður, alinn upp á Langsstöðum í Flóahrepp. Móðir mín er frá Dalsmynni í Flóahrepp og faðir minn er frá Brúnastöðum í Flóa.
Menntun: Búfræðingur.
Atvinna: Bóndi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Það er yfirleitt síðasta bók sem að ég les hverju sinni. Núna er það Harmsaga ævi minnar eftir Jóhannes Birkiland.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Hann er nú sennilega ekki til.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Flestar myndir sem að fá mig til að hlæja get ég horft á aftur.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Allar árstíðir hafa sinn sjarma, ég geri ekki upp á milli þeirra.
Besta líkamsræktin: Ég hef ekki vit á því en finnst ágætt að taka göngutúra af og til.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Flest allt kjöt finnst mér gaman að elda og því tekst það yfirleitt ágætlega. Ég á nú engan sérstakan rétt.
Við hvað ertu hræddur: Ýmislegt en gef það ekki upp.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Misjafnt. Oftast um klukkan sjö.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég geri eitthvað með fjölskyldunni. Og stundum finnst mér besta leiðin til að slaka á að skilja símann eftir og láta hann ekki trufla mig.
Hvað finnst þér vanmetið: Hreinskilni.
En ofmetið: Stór orð.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Yfirleitt bara það sem að er í útvarpinu þegar að ég er að hlusta.
Besta lyktin: Góð heylykt er alltaf í uppáhaldi.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þú veist ekki hvað þú veist mikið, fyrr en þú áttar þig á því hvað þú veist lítið.
Nátthrafn eða morgunhani: Bæði.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hálendi íslands.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ég legg mig fram við að láta hluti ekki fara í taugarnar á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þau eru mörg og erfitt að gera upp á milli þeirra.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bóndi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Pétur Jóhann.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Konan mín. Þá gæti ég fengið staðfestingu á því sem að ég hef haldið fram að það sé frábært að búa með mér.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Fésbókina.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Langar ekki til þess.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Það ætla ég að vona og ég hef í hyggju að hafa það þannig áfram.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Tíu ár fram í tímann og sjá hvort að ég þurfi nokkuð að kvíða framtíðinni.
Lífsmottó: Láta hverjum degi nægja sína þjáningu og njóta þess.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Sem minnst en þó örugglega eitthvað.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinFrumsýning á Eyrarbakka á laugardag
Næsta greinNauðsynlegt að ríki og sveitarfélög nái sátt um tekjustofnaskiptingu