Unnur Einarsdóttir Blandon hefur verið ráðin í starf byggðaþróunarfulltrúa í Skaftárhreppi og tók hún til starfa í byrjun janúar. Unnur hefur búið á Kirkjubæjarklaustri í rúman áratug ásamt fjölskyldu sinni og segist spennt fyrir nýja starfinu enda sé það mjög fjölbreytt og má þar helst nefna að sinna ráðgjöf og handleiðslu á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar.

Fullt nafn: Unnur Einarsdóttir Blandon.
Fæðingardagur, ár og staður: 5. október 1985 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég er gift honum Ragga mínum. Börnin okkar þrjú eru Margrét 17 ára, Rúnar 10 ára og Sigurjón 7 ára. Svo á ég (ekki maðurinn minn, segir hann) hund og kött þau heita Mollý og Klói.
Hverra manna ertu: Heyrðu, það ku vera Einar Blandon og Gerður Hauksdóttir sem bjuggu mig til og má rekja ætt mína að miklu leiti í Húnavatnssýsluna.
Menntun: Stúdentspróf og stuðningsfulltrúi, svo kláraði ég naglafræðinginn fyrir mörgum árum, 2007 minnir mig, var samt fljót að átta mig á því að það væri ekki fyrir mig.
Atvinna: Það er nú ýmislegt! Ég er nýráðin byggðarþróunarfulltrúi í Skaftárhreppi. Annars eigum við fjölskyldan litla verslun á Kirkjubæjarklaustri sem heitir Random-Klausturbúð, oftast bara kölluð Random. Svo sé ég um félagsmiðstöðina hér með annarri konu ásamt því að vera með val áfanga í grunnskólanum.
Besta bók sem þú hefur lesið: Úff… ég les alls ekki mikið, bókin þarf þá að vera virkilega áhugaverð svo ég haldi einbeitingu og þarf ekki að lesa hverja blaðsíðu þrisvar. Það er samt ein sem kemur strax í huga mér og heitir hún Min ven Thomas, ég man að ég las hana í dönsku áfanga í Menntaskólanum í kópavogi, hún snerti mig enda hef ég aldrei fengið jafnhátt fyrir ritgerð í MK eins og um þessa bók.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Þeir eru svo margir og fer það algjörlega eftir því í hvernig stuði ég er. En The Rookie er alveg geggjaður!
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ætli það væri ekki Hobbitinn og svo gat ég horft á Moana aftur og aftur með strákunum mínum þegar hún var frekar ný, þeir voru orðnir frekar þreyttir á henni svona undir restina.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn.
Uppáhalds árstími: Sumarið.
Besta líkamsræktin: Heyrðu ég prufaði ringo fyrir stuttu það er alveg geggjað! Svo fer ég út að labba með hundinn.
Hvaða rétt ertu best að elda: Mexíkóska kjúklingasúpu eða mexíkóskt kjúklinga lasagnja.
Við hvað ertu hrædd: Ég er alveg sjúklega myrkfælin og geitungar eru stórhættulegir.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Eins seint og ég mögulega kemst upp með. Skutla strákunum í skólann á morgnanna þannig sirka 8, mun seinna um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Það er mismunandi, en það sem ég geri kannski oftast er að fara í sófann, setja Love Island, Bachelor/ette eða Survivor í imbann og er svo í leik í símanum.
Hvað finnst þér vanmetið: Mjög erfið spurning, en t.d. raddir unga fólksins og rödd heldri kynslóða okkar.
En ofmetið: Líka erfið spurning en ætli það sé ekki Tenerife, hef komið þangað og það var mjög gaman, ætla ekkert að reyna að segja annað, en ég þarf ekki að fara alltaf þangað.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það fer algjörlega eftir stað og stund en Tina Turner kemur mér alltaf í stuð og lagið Ég lifi í voninni með Stjórninni, það er smellur! Vanmetinn smellur að mínu mati.
Besta lyktin: Vorlykt í lofti og líka rakspírinn sem maðurinn minn notar.
Bað eða sturta: Sturta en finnst voða gott að fara í bað, þarf samt alltaf að fara í sturtu þegar ég er búin í baði.
Leiðinlegasta húsverkið: Taka til, þoli það ekki.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Lífið er of stutt til að dvelja í fortíðinni, einblíndu á núið og framtíðina.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það mun vera Smokey Mountains í Tennessee, elska að koma þangað.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óheiðarleiki, fólk sem þarf að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra og þeir sem halda að þeir séu eitthvað merkilegri en aðrir.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Úff… það er svo margt en ætli það sé ekki þegar ég reyndi að fara inn í vitlausan bíl fyrir utan bensínstöð og var alveg fáránlega lengi að átti mig á að þetta væri ekki minn bíll! Þeir voru ekki einusinni eins nema kanski liturinn.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Flugfreyja.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það er Mr Bean, finnst hann ógeðslega fyndinn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Örugglega maðurinn minn svo ég gæti fengið að upplifa hvernig það er að búa með mér.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Stöðva þessi viðbjóðslegu stríð og útrýma fátækt.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég æfði listskauta sem krakki, já og ég get ekki horft á fólk bursta í sér tennurnar, ég kúgast við það.
Mesta afrek í lífinu: Eignast börnin mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Erfitt að velja svo margt sem maður hefði verið til í að upplifa en ég hugsa að ég myndi fara aftur í tíma þar sem ég gæti hitt og spjallað við afa minn aftur.
Lífsmottó: It is what it is.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Heyrðu, ég þarf að fara í Reykjavíkina.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Unnur ásamt eiginmanni sínum Ragnari Smára Rúnarssyni og Margréti dóttur þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinBikarinn á loft í Set-höllinni
Næsta greinSigur hjá Ægi – Selfoss sótti jafntefli