Jóhanna Margrét Hjartardóttir hefur verið ráðin í starf sviðsstjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs Sveitarfélagsins Ölfuss. Jóhanna hefur starfað sem menningar- og frístundafulltrúi Hveragerðisbæjar frá 2008 og síðustu tíu ár hefur hún gegnt leiðtogahlutverki sem formaður stjórnar Körfuknattleiksdeildar Þórs í Þorlákshöfn.

Fullt nafn: Jóhanna Margrét Hjartardóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 28. september 1964 á Landsspítalanum í Reykjavík en sleit barnsskónum í Hveragerði.
Fjölskylduhagir: Er gift Ragnari M. Sigurðssyni og á þrjá syni, þrjár tengdadætur og fjögur barnabörn.
Menntun: Íþróttakennari og með diploma í stjórnun og forystu.
Atvinna: Sviðsstjóri fjölskyldu og fræðslusviðs Ölfuss.
Besta bók sem þú hefur lesið: Það er erfitt að tilnefna bestu bókina en Reisubók Guðríðar Símonardóttur kom fyrst upp í hugann þannig að hún fær þann titil í dag. Ég er reyndar mikill lestrarhestur og er alltaf með bækur á náttborðinu. Útkallsbækurnar eftir Óttar Sveinsson er skyldulesning um hver jól og síðan eru spennu og sakamálasögur ofarlega á vinsældalistanum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég á til að detta í læknadramaþætti en bresk og norræn sakamál eru líka uppáhalds.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Lord of the Rings myndirnar, Harry Potter (allar) og Notting Hill.
Te eða kaffi: Kaffi með rjóma en fjörmjólkin er best við þorsta.
Uppáhalds árstími: Hver árstími hefur sinn sjarma og er aðventan í sinni jólaljósadýrð mjög notaleg. En ég gef sumrinu fullt hús stiga sem besti árstíminn.
Besta líkamsræktin: Lyftingar, sund og fjallgöngur.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er frábær kokkur og eru mínir styrkleikar aðallega í að elda sjávarfang en einnig er ég frábær á grillinu.
Við hvað ertu hrædd: Mýs innandyra.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Um kl. 7.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í heita pottinn í sundlauginni.
Hvað finnst þér vanmetið: Að njóta kyrrðar og hlusta á náttúruna.
En ofmetið: Sælgæti.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég dett ávallt í trylltan dans með ryksugunni þegar ég set á lagið Thriller með Michael Jackson.
Besta lyktin: Lykt af nýslegnu grasi er einstaklega góð en góð matarlykt er líka frábær.
Bað eða sturta: Bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Að þurrka af innan úr skápum en þegar ég var lítil fannst mér skelfilega leiðinlegt þegar mamma mín bað mig um að fægja silfurhnífapörin.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Vertu ófeimin/n við að taka að þér störf þó að þú tikkir ekki í öll box kunnáttunnar. Þú lærir allt lífið og munu veikleikar þínir verða þínir styrkleikar ef þú brettir upp ermar og leggur þig fram.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er mikill morgunhani enda missi ég yfirleitt alltaf af norðurljósadýrðinni.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það eru margir staðir á jarðarkúlunni okkar fallegir og er erfitt að nefna einn. Í mínu sveitarfélagi finnst mér gönguleiðin á klöppunum frá Selvogi til Þorlákshafnar mjög falleg. Einnig er fallegt að horfa yfir Hveragerði og Ölfus af Reykjafjalli.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Leti.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Úfff… ég veit að þau atvik eru nokkuð mörg en það kemur ekkert eitt upp í hugann núna sem er gott að segja frá.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að vera íþróttakennari og stóð við það. Það var reyndar tímabil sem ég dáðist af konum sem unnu á símstöð og hefði viljað vinna við það hluta úr degi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það er klárlega Pétur Jóhann. Það skiptir ekki máli hvort að hann sé að skemmta eða maður mætir honum á götu. Ég hlæ alltaf þegar ég sé hann.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég vildi vera Vladimir Pútín (með minn heila) og hætta öllu þessu rugli sem hann stendur fyrir. Verst að eftir daginn má hann ekki taka við aftur, þannig að ég myndi enda daginn inni í fangelsi.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Trúlega Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ef ég fengi alvald og gæti gert allt sem ómögulegt er þá myndi ég vilja breyta hugsanagangi þeirra sem eru valdamiklir á jörðinni okkar og um leið bæta velsæld allra í heiminum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef aldrei drukkið orkudrykki.
Mesta afrek í lífinu: Það er að geta tekist á við fjölbreytileika lífsins með það veganesti að áskoranir styrkja okkur og gleði gefur okkur næringu. Eða kannski bara að ég skyldi ná í Ragga.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég hefði viljað geta farið aftur í miðlífsaldir og fylgst með risaeðlunum sem áttu jörðina á Júratímabilinu. Það hefur örugglega verið mikið sjónarspil að fylgjast með náttúrunni á þeim tíma.
Lífsmottó: Lifðu lífinu lifandi, brostu og vertu jákvæð. Einnig eigum við öll að hafa hugfast að “orð eru eins og litlir fuglar, þegar þú sleppir þeim, þá nærðu þeim ekki aftur”.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að fara í góðan ræktartíma, borða góðan mat, knúsa barnabörnin og fara í leikhús.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHamar velgdi Álftanesi hressilega undir uggum
Næsta greinSelfoss vann grannaslaginn