Um síðustu helgi tryggði Berglind Rós Bergsdóttir sér titilinn Sterkasta kona Íslands 2025 þegar aflraunakeppnin fór fram í Thors Power Gym í Kópavogi. Fimm sterkustu konur landsins reyndu þar með sér í greinum eins og öxullyftu, bændagöngu og uxagöngu. Eftir spennandi keppni stóð Berglind uppi sem öruggur sigurvegari og hlaut því þennan eftirsótta titil í fyrsta sinn.
Fullt nafn: Berglind Rós Bergsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 6. febrúar 1995. Ég fæddist í Reykjavík en ég er uppalin austur á Héraði, fyrst á Hallormsstað og svo Egilsstöðum.
Fjölskylduhagir: Ég bý á Selfossi með dætrum mínum tveimur, Nínu Björgu, 9 ára og Elísabetu Emblu, 3 ára.
Hverra manna ertu: Mamma mín heitir Jónína Rós, aðstoðarskólastjóri í Norðlingaskóla og pabbi minn heitir Bergur Jónsson, hrossaræktarbóndi í Syðri-Gegnishólum í Flóahreppi.
Menntun: Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands 2021.
Atvinna: Hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku HSU á Selfossi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Verð held ég að nefna Loforðið eftir Hrund Þórsdóttur. Ég fékk bókina þegar ég var 12 ára og las hana mörgum sinnum. Svo fæ ég líka alltaf nýjustu bókina eftir Stefán Mána í jólagjöf og þær valda aldrei vonbrigðum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Sko, fyrsta svar er alltaf Friends. En núna er ég að horfa í annað skipti á The Pitt sem eru alveg ótrúlega góðir. Raunverulegasta læknadrama sem hefur verið framleitt.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég horfi mjög lítið á bíómyndir, nema þá helst teiknimyndir á kósýkvöldum. Annars er ég mest fyrir „heilalausar“ gamanmyndir og þá helst þessar gömlu góðu eins og til dæmis Líf-myndirnar eða Stella í orlofi. Svo get ég líka alltaf hlegið yfir Jim Carrey myndunum.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn, svart og sykurlaust.
Uppáhalds árstími: Sko, einu sinni elskaði ég veturinn, en hérna á Suðurlandinu finnst mér veturinn bara alltof blautur og ekki nóg af snjó, svo ég verð að segja vorið. Þegar daginn fer að lengja, allt fer að lifna við og grænka og folöldin byrja að koma í sveitinni hjá pabba og Olil. Ég þarf svo að nefna sumarið líka því það er vanalega keppnistímabilið í aflraunum.
Besta líkamsræktin: Það er án vafa Kraftbrennzlan á Selfossi, undir stjórn Ása þjálfara! Eitt af því besta sem þú getur gert fyrir líkamlega heilsu er að stunda lyftingar. Allir ættu að stunda einhverskonar styrktarþjálfun, bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu og til að fyrirbyggja ýmsa líkamlega kvilla eins og t.d. beinþynningu.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er ansi flink í eldhúsinu, þó ég segi sjálf frá, en það er sennilega bara afþví að mér finnst leiðinlegt að borða vondan mat, en rosa gaman að borða góðan mat. En það sem ég er alltaf beðin um að elda aftur og aftur er mexíkósk kjúklingasúpa.
Við hvað ertu hrædd: Mýs.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Alla jafna er það í kringum 7, en þegar ég á morgunvakt finnst mér best að fara á fætur fyrr og vera búin að græja mig fyrir daginn áður en stelpurnar mínar vakna.
Hvað gerir þú til að slaka á: Það eru nokkrar leiðir. Fara á æfingu til að fá góða útrás, syngja úr mér lungun með einhverjum góðum lögum, og svo þetta klassíska að henda sér bara í sófann með fæturnar upp í loft.
Hvað finnst þér vanmetið: Ég ætla að vera bara svolítið pólitísk og segja að störf hjúkrunarfræðinga séu mjög vanmetin þegar kemur að laununum okkar.
En ofmetið: Labubu!
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég er algjör sökker fyrir íslensku rappi, Herra Hnetusmjör klikkar aldrei, en síðustu vikur er ég búin að vera með 10 ÞÚSUND með Emmsjé Gauta og Króla á heilanum.
Besta lyktin: Lyktin af nýslegnu grasi, bensínlykt eða jólalyktin sem kemur fram á Þorláksmessukvöldi þegar rjúpurnar eru gerðar tilbúnar fyrir jólamatinn.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst alls ekki gaman að skúra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þú ert ekki tré, þú mátt breyta til og hættu að spá í því hvað öðrum finnst.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég var alltaf meiri nátthrafn, en eftir að ég eignaðist börn þá hefur maður svolítið lært að það er betra að fara snemma að sofa því þú þarft hvort sem er alltaf að vakna snemma með krökkunum. En ég myndi nú samt aldrei tala um mig sem morgunhana.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég veit ekki hvort ég geti nefnt bara einn stað. Stórurð er einhver magnaðasti staður sem ég hef séð, svo finnst mér alltaf jafn falleg fjallasýn frá Höfn í Hornafirði. En uppáhalds útsýnið mitt er á fallegu sumarkvöldi að horfa frá hlaðinu í sveitinni minni á Ketilsstöðum á Völlum í áttina að Snæfelli.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óheiðarleiki, óþolinmæði og dónaskapur.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég hef aldrei skammast mín eins mikið og þegar ég var unglingur og fór með mömmu í bíó, við þurftum að fara framhjá feðgum sem sátu utarlega í sætaröðinni, en það gekk ekki betur en svo að mamma missti jafnvægið og settist óvart ofan á strákinn!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Hestakona, lögga og söngkona.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Verð að nefna Sveppa Krull, Pétur Jóhann og Eyþór Inga þegar hann fer í eftirhermugírinn. En svo erum við systir mín alveg ógeðslega fyndnar þegar við komum saman.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri stundum til í að taka einn dag aftur bara sem kærulaus leikskólakrakki sem fer bara út að leika sér og þarf ekki að hugsa fyrir neinu.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram held ég.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég koma á heimsfriði og tryggja að öll börn lifi við öryggi, nægan mat og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Ef ég hefði auka tíma eftir þessi stóru verkefni, færi ég kannski í það að hækka laun framlínustarfsfólks.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég lærði á fjögur hljóðfæri þegar ég var yngri, en ég gæti ekki spilað á hljóðfæri til að bjarga lífi mínu í dag.
Mesta afrek í lífinu: Klassíska svarið er auðvitað að eignast og ala upp dætur mínar, ég er stolt af þeim alla daga. En ég er líka ansi stolt af titlinum sem ég nældi mér í síðustu helgi þegar ég varð Sterkasta kona Íslands 2025.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Fram í tímann og sjá hvernig stelpunum mínum vegnar í lífinu, hvað þær ákveða að starfa við og hvernig persónur þær verða.
Lífsmottó: Það verður að vera gaman, því annars er allt svo leiðinlegt.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég er á leiðinni inn í næturvaktarhelgi, sem hljómar kannski ekki svo spennandi. En helgina þar á eftir ætlum við í aðventuferð til Egilsstaða til að eiga góðar stundir með fjölskyldunni, steikja laufabrauð og komast í smá jólaskap.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

