Selfyssingurinn Ásrún Aldís Hreinsdóttir var ein liðsmanna Gettu betur liðs Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem náði frábærum árangri í keppninni í vetur og fór alla leið í úrslit, í fyrsta skipti í 37 ár. Ásrún hefur verið í liði FSu undarfarin þrjú ár en hefur nú sungið sitt síðasta í keppninni, þar sem hún mun brautskrást frá skólanum í vor.

Fullt nafn: Ásrún Aldís Hreinsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd á Selfossi 2. desember 2004.
Fjölskylduhagir: Ég bý með fjölskyldu minni á Selfossi, mömmu, pabba og litlum bróður. Á svo einn eldri bróður sem býr í Hveragerði. Er svo yfirleitt með annan fótinn í bænum hjá kærastanum.
Menntun: Kláraði grunnskólann í Vallaskóla á Selfossi og svo verð ég að öllum líkindum stúdent af félagsfræðilínu FSu núna í vor, ef ég næ stærðfræðinni.
Atvinna: Ég skipti mjög reglulega um vinnustaði… En núna vinn ég í Árbliki dagdvöl fyrir aldraða, Ungmennahúsinu Pakkhúsinu, starfa svo sem aðstoðarmaður hjá NPA miðstöðinni og svo er ég líka reglulega á fundum uppi í ráðhúsi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Úff… hlýtur að vera Bróðir minn Ljónshjarta, alveg rosalega góð bók.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Augljóst svar væri bandaríska Office en þættirnir Normal People eru líka mjög góðir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Mjög undarlegt svar, lofa er ekki klikkuð, en það er The Shining eftir Kubrick eða The Holiday, jólamyndin.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Ohh, erfið spurning, vorið var uppáhalds þegar ég bjó í sveit og var í sauðburði. En þegar það eru engin lömb að taka á móti þá er haustið voða kósý.
Besta líkamsræktin: Það leiðinlegasta sem ég geri er að stunda líkamsrækt, en mér finnst örugglega skást að vera bara með háa tónlist í eyrunum og lyfta.
Hvaða rétt ertu best að elda: Er ekki mjög efnilegur kokkur en ætli ég sé ekki fín í að sjóða egg?
Við hvað ertu hrædd: Vá, djúpt. Að missa ástvin.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Rosalega mismunandi, fer algjörlega eftir stundatöflunni, stundum 7 en stundum 11.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hendi í góða öndunaræfingu, annars finnst mér rosalega erfitt að slaka á.
Hvað finnst þér vanmetið: Að horfa á dagskrána á RÚV.
En ofmetið: Að fara í heitan pott og slaka á og að fara í sólbað.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Algjör sakbitin sæla en Since U Been Gone með Kelly Clarkson er geggjað lag.
Besta lyktin: Lyktin af nýslegnu grasi á sumardegi.
Bað eða sturta: Bað, því ég á bara sturtu.
Leiðinlegasta húsverkið: Úff má segja allt?
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að standa með sjálfri mér og hætta að pæla alltaf í hvað aðrir eru að gera.
Nátthrafn eða morgunhani: Eiginlega hvorugt, fúnkera best um hádegi.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þórsmörkin og Veiðivötn eru uppáhalds.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það er svo mikið sem fer í taugarnar á mér en það er extra pirrandi hvað ég týni símanum og bílyklunum oft á dag. Fann símann í þvottaefninu um daginn.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það sem mér dettur fyrst í hug er þegar ég var í Danmörku síðasta sumar og ætlaði svoleiðis að spreyta mig á dönskunni. Ég fer í matvörubúð, fer svo á kassann og allt gengur eins og í sögu þangað til að afgreiðslukonan tekur upp kvittunina og segir “hav en god dag” og ég misskil hana og held að hún sé að bjóða mér kvittun, þessvegna segi ég við hana hátt og skýrt “nej tak”. Grey konan endurtekur sig og segir aftur “hav en god dag” og ég bara “nej tak!” Það var svo maður fyrir aftan mig í röðinni sem sagði á ensku að konan væri bara að segja mér að eiga góðan dag… Þetta var heldur vandræðalegt, þar sem það var líka helvíti löng röð fyrir aftan mig. En ég tala bara ensku í Danaveldinu næst.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég skipti alltaf reglulega um svar. Mjög lengi ætlaði ég að verða jarðfræðingur en stefni núna á að vinna í sjónvarpi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Get hlegið endalaust að Lárusi Bragasyni sögukennara.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi örugglega vilja skyggnast inní heim Hemma, liðsfélaga míns úr Gettu betur, bara til að sjá hvað gengur stundum á í hausnum á honum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Örugglega Instagram eða TikTok.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Það væri náttúrulega geggjað að ná að stoppa öll stríð og kenna mannkyninu að haga sér.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef mjög mikinn áhuga á veiði og er seig á flugustönginni.
Mesta afrek í lífinu: Ég er auðvitað mjög stolt að hafa komist svona langt í Gettu betur en það er allskonar sem kemur upp í hugan, t.d. það að hafa verið kosin formaður NFSu seinasta vor. Eins er ég líka bara stoltust með hvar ég er í dag og allt það sem ég hef sigrast á og gengið í gegnum til að komast hingað. Smá væmni. Svo er það eiginlega toppurinn að vera Sunnlendingur vikunnar.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Langar soldið að fylgjast með byggingu pýramídanna og sjá hvernig þeir voru byggðir!
Lífsmottó: Að halda hógværðinni í manni og aldrei taka neinu sem sjálfsögðu.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Kíkja í bæinn og svo ætlum við úr Gettu betur liðinu að hittast og slútta þessu tímabili með stæl.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHeiðrún og Egill íþróttafólk ársins 2022
Næsta greinHinn fullkomni meðalvegur Moses Hightower