Árni Þór Grétarsson, sjálfboðaliði hjá handknattleiksdeild Selfoss, er einn þriggja sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur tilnefnt sem Íþróttaeldhugi ársins 2025. Árni Þór hefur verið ómetanlegur burðarás í handboltastarfinu á Selfossi í áratugi og tekur að sér öll þau verkefni sem þarf að sinna með jákvæðu hugarfari og brosi á vör. Tilkynnt verður um úrslitin í hófi um kjör Íþróttamanns ársins 2025 á laugardagskvöld.

Fullt nafn: Árni Þór Grétarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur 10. febrúar 1978 og á Island.is stendur að ég sé fæddur í Selfosshreppi.
Fjölskylduhagir: Ég rek eins manns fjölskyldu í krúttlega raðhúsinu mínu. Þar fyrir utan tilheyri ég ýmsum fjölskyldum. Blóðfjölskyldan, handboltafjölskyldan og Rarik-fjölskyldan.
Hverra manna ertu: Faðir minn er Grétar Arnþórsson, þekktur sem Grétar bakari og í seinni tíð Grétar pípari. Þar sæki ég ættartengsl í Rangárþing, hann er fæddur á Bjólu og ættaður frá Árbakka. Móðir mín er Ásta Andreasen, í sumum kreðsum þekkt sem Ásta Mallings. Fædd á Selfossi, ættuð frá Akranesi og til Danmerkur. Svo á ég tvo bræður, báðir tengdir píp eftirnafninu; Eyvi píp og Helgi píp.
Menntun: Ég er með sveinspróf í rafvirkjun, stúdentspróf og einhverjar annir undir beltinu í háskóla.
Atvinna: Dagvinnan fer fram á skrifstofu Rarik á Selfossi. Þar starfa ég við skráningar á framkvæmdum og gögnum þeim tengdum. Að dagvinnunni lokinni þá tekur oft við ólaunaða aukavinnan. En ég næ stundum að finna mér eitthvað til að gera í kringum Selfoss handbolta, ef ekki þá kíki ég bara á handboltaæfingu og hitti fólkið.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég er frekar gleyminn og man því miður ekki vel eftir öllum þeim bókum sem ég hef lesið. En ég held að enn standi uppúr Hringadróttinssagan. Ég fékk þríleikinn í útskriftargjöf þegar ég kláraði sveinsprófið í rafvirkjun, að vísu frá sjálfum mér, en hey hver er að telja!
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Gott sjónvarp er magnað dæmi. Akkúrat núna er ég hrikalega hrifinn af Slow Horses með Gary Oldman. Það er samt sennilega af því að það er stutt síðan ég horfði á þá. Eldri þættir sem mig langar oft að detta aftur í heita Life með Damian Lewis. Kannski ekki besta sjónvarp sem búið hefur verið til, en eitthvað svo skemmtilegt væb í þessum þáttum.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Sú mynd sem ég hef sennilega séð oftast er Commando með Arnold Schwarzenegger. Hún var til á gamalli VHS spólu heima og ég horfði ansi oft á hana með Eyva bróður mínum. Það er hins vegar sama hvar ég dett inn í myndina The Princess Bride, maður þarf helst að klára hana.
Te eða kaffi: Ég er meira í kaffinu, en dagurinn er ekki alveg ónýtur þó fyrsti bollinn komi ekki á neinum tímapunkti.
Uppáhalds árstími: Haustið með sinni haustblíðu og handboltinn að rúlla aftur í gang. Ekkert sem slær því við!
Besta líkamsræktin: Gamla góða að fara bara út að labba. Það er fátt betra en að fara út á ótrúlega góða göngustíga Selfoss með skemmtilegt hlaðvarp eða tónlist í eyrunum. Fá súrefnið og blóð í hausinn.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég er einn sá metnaðarlausasti í eldhúsinu. Hugsa að það flóknasta sem ég geri reglulega sé einhver próteinbombu skyrréttur með ferskum og/eða frosnum ávöxtum.
Við hvað ertu hræddur: Ég var hræddur við að gera mistök, en er búinn að læra að eina leiðin til að gera ekki mistök er að gera ekki neitt. Við erum öll hrædd við óvissu, alla vega ég. En fyrst og fremst óttast ég að það komist loks upp um mig, að ég viti ekkert hvað ég er að gera.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Reyni alla vega að koma mér af stað upp úr kl. 7:10 virka daga og fyrir kl. 9 um helgar. Gengur stundum og stundum ekki.
Hvað gerir þú til að slaka á: Tylli mér við tölvuna og spila einhvern tölvuleik sem krefst mátulega lítillar hugsunar. Drepa djöfla í Diablo 4 eða sinna störfum í Farming Simulator eða Euro Truck Simulator.
Hvað finnst þér vanmetið: Félagslegi þátturinn. Hann flytur tugþúsundir fólks á milli byggðarlaga á ári hverju. Það er alger svindlkóði til að komast inn í samfélagið að demba sér í félagsmálin.
En ofmetið: Að fylgjast með fréttum af ofurkrafti. Þá sjaldan að það er eitthvað raunverulega að frétta, þá er ólíklegt að það fari framhjá manni. Ég mæli þó eindregið með því að halda Sunnlenska.is inni í daglega netrúntinum.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Vamos a la playa með Loona lyftir nær alltaf andanum um einhver prósent, virkar vissulega best ef það er einhver vottur af gír fyrir.
Besta lyktin: Lyktin af íslenska vorinu/sumrinu. Einhver blanda af volgu lofti, gróðri og einhverju sem ég kem ekki alveg fyrir mig hvað er. Smá raki eða eitthvað slíkt.
Bað eða sturta: Ansi langt síðan ég átti bað, en sturtan mín er frábær. Í dag er ég meira fyrir sturtuna þó sú hafi verið tíðin að maður leit ekki við öðru en baði.
Leiðinlegasta húsverkið: Ég á alveg ótrúlega erfitt með að koma mér af stað við að skúra. Eins og það er lítið mál þegar maður er byrjaður. Þá er ansi leiðinlegt að skipta um á rúminu.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Á einum tímapunkti í rafvirkjalífinu mínu var ég nánast hættur að sofa yfir áhyggjum og stressi yfir einhverjum íbúðum sem voru farnar að nálgast það að vera afhentar. Var farinn að mæta á milli kl. 5 og 6 á morgnana til að reyna að reyna að láta ekki standa á rafmagninu. Samstarfsmaður minn bað mig vinsamlegast um að slaka á í þessum efnum. Það væru aðrir sem fengu greitt fyrir að hafa þessar áhyggjur.
Nátthrafn eða morgunhani: Já, stundum er ég bara bæði. Fer of seint að sofa og get ekki sofið fram eftir. En ætli ég sé ekki nær því að vera morgunhani en alvöru nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Fyrir utan Selfoss þá? Ég komst á alla vega tvo eða þrjá mjög fallega staði í Litháen. Það var kastali, vatn og við strákarnir fórum á hjólabáta. Stórgóður dagur ef þú spyrð mig.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það er fátt sem ég á erfiðara með en neikvæðni. Hún nær inn fyrir alla mína varnarmúra og nagar beint í hjartað.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Úff, það er ekki eitthvað sem má rata á internetið. Ætli það hafi ekki verið fyrir töluvert mörgum árum á bíladögum á Akureyri. Ég var af einhverjum orsökum rosalega þreyttur, en þó ekki þreyttari en svo að ég hafði það af að kíkja af Sjallanum á tjaldsvæðið í gleðskap. Á leiðinni til baka á gistiheimilið í göngugötunni virðist ég hafa þurft að leggja mig, í Gilinu. Ég var að hitta fólk í marga mánuði á eftir sem hafði séð mig og ekki séð ástæðu til að hjálpa. Það er eins og það er.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði alltaf að verða kennari, hugsanlega stærðfræðikennari. Ég held að ég hefði orðið ljómandi góður í því hlutverki.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég ætla að gefa Andy Samberg þetta. Léttur, ljúfur og kátur.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að vera Örn Þrastarson í einn dag. Ótrúlegustu hlutir sem ég myndi læra og svo að upplifa tilfinninguna að geta ekki tapað, ómetanleg.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Sem samfélagsmiðil er ég mest á Instagram. Í einhverjum bókum hefur YouTube verið kallað samfélagsmiðill, þó ég sé töluverður neytandi á það þá nota ég YouTube meira sem sjónvarp.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Væri það ekki þessi klassíski heimsfriður, græja íþróttaaðstöðuna á Selfossi í eitt skipti fyrir öll og koma háspennustreng frá Vík til Klausturs á kortið. Ég færi sáttur að sofa.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég æfði fótbolta í heilt sumar. Það stefndi lítið í að ég næði mjög langt í þeim efnum og var ekki valinn í hópinn sem fór á Tommamótið. Þetta var samt fínt sumar að mig minnir.
Mesta afrek í lífinu: Ég held að mitt stærsta afrek í lífinu, hingað til, sé hvernig ég hef náð að koma vinnulífinu mínu í gott jafnvægi. Það hefur mikið að gera með hvernig ég hef komið andlegri líðan í jafnvægi. Þar ber fyrst og síðast að þakka þá sálrænu hjálp sem ég hef fengið út úr mínu félagsmálastarfi.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Stundum væri maður til í að fara aftur til 22. maí 2019 og upplifa aftur þegar Selfoss varð Íslandsmeistari í handbolta. Oftar langar mig samt að spóla fram í tímann og sjá hversu langt unga fólkið okkar getur náð og mun ná.
Lífsmottó: Muna að njóta! Það er eitthvað það mikilvægasta í þessu lífi, að muna að njóta ferðalagsins, augnabliksins og þess sem við höfum. Verum hérna og verum núna.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég er ekki maður langtímaplana, en ég ætla að þiggja boð sem ég fékk á dögunum um að mæta á Íþróttamann ársins í Hörpu þar sem ég er einn þriggja tilnefndur sem íþróttaeldhugi ársins. Þannig að laugardagskvöldinu er að mestu ráðstafað, kannski maður nái seinni hluta úrslitaeinvígisins í pílunni. Annars þarf maður að fara að græja auglýsingaefni fyrir næstu leiki í handboltanum. Það er bara vika í að Olísdeild kvenna fari aftur í gang. Hljómar eins og notalegur sunnudagsmorgun með kaffibolla við hönd.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinBanaslys á Hvolvelli