Hrekkjavakan var um síðustu helgi og var lítið um hryllingsskemmtanir fyrir krakka vegna samkomutakmarkana. Guðbjörgu Pálsdóttur á Selfossi þótti þetta heldur leiðinleg staða og hún stóð því fyrir metnaðarfullum hrekkjavökuratleik sem sló heldur betur í gegn. Guðbjörg fékk góða aðstoð frá fjölskyldu og vinum við að skipuleggja ratleikinn og ungir sem aldnir skemmtu sér við að leysa þrautir innan um drauga og risakóngulær.

Fullt nafn: Guðbjörg Pálsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 4. apríl 1991 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með einum úrvals Ragnari Guðmundssyni og saman eigum við Sindra Pál og Rakel Sögu.
Menntun: Iðjuþjálfi.
Atvinna: Er í fæðingarorlofi, var áður hjá Félagslegri heimaþjónustu Árborgar.
Besta bók sem þú hefur lesið: Bókin sem þú vildir að foreldrar þínir hefðu lesið. Annars er ég mest að lesa Samma brunavörð og Lárubækurnar þessa dagana, þar mæli ég frekar með Samma.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Uppáhalds allra tíma er Veronica Mars, en bandaríska Office og Shameless eru líka í uppáhaldi. Mæli líka með When They See Us á Netflix.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Harry Potter myndirnar og Love Actually.
Te eða kaffi: Ég hef lært að drekka hvorugt, þrátt fyrir að hafa klárað háskólanám, átt börn og búið í Englandi þar sem tedrykkja er heilagari en jólin.
Uppáhalds árstími: Sumarið og jólin.
Besta líkamsræktin: Helst myndi ég vilja spila brennibolta og aðra hópleiki ætlaða börnum á reglulegum basis (ekki með börnum samt), en áður en allt lokaði voru hóptímar í WorldClass það sem ég var að vinna með.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég geri merkilega góðar fiskibollur, svona miðað við hvað þær eru óspennandi matur, en mér finnst mun skemmtilegra að baka og ef brownies geta kallast matur þá er það klárlega svarið.
Við hvað ertu hrædd: Köngulær og Donald Trump.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þessa dagana er það þegar börnin mín vakna.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í bað eða heita pottinn, helst með ís!
Hvað finnst þér vanmetið: Að borða matinn á meðan hann er heitur.
En ofmetið: Áritanir frá frægu fólki og myndir með þeim. Og fjallgöngur.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það er auðvelt að koma mér í stuð en Vertu ekki að plata mig hittir alltaf í mark. Draumalandið og You Make My Dreams (Come True) líka, þau klikka sjaldnast.
Besta lyktin: Köku- og kanilsnúðalykt, og allskonar góð matarlykt.
Bað eða sturta: Bara bæði betra.
Leiðinlegasta húsverkið: Hengja upp og ganga frá þvotti.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ekki beint ráð en í náminu lærum við um mikilvægi jafnvægis í daglegu lífi. Það er mikilvægt að huga að því sérstaklega þegar við lifum í strax-samfélagi.
Nátthrafn eða morgunhani: Væri nátthrafn ef aðstæður byðu uppá það.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Dolomites fjöllin á Ítalíu, svo er Austurríki í heild sinni lygilega fallegt.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Viljandi fáfræði, eigingirni og óvirðing við aðra.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Í seinni tíð hef ég verið mjög dugleg að hlæja að sjáfri mér svo mér dettur ekkert nýlegt í hug. Þegar ég var yngri hinsvegar, svona um 8 ára, var ég á bingói með pabba í stóra salnum í hótelinu og í minningunni voru allir íbúar Selfoss þar (því þá komust þeir allir inn í salinn). Ég fékk bingó en óframfærna ég þorði ekki að kalla og bað pabba að gera það en hann var ákveðinn í að ég ætti að kalla sjálf. Það er ekki fyrr en að næsta tala er lesin og annar maður kallar bingó að ég segi bingó lágum rómi og hleyp af stað með spjaldið mitt. Ég hafði aldrei fengið bingó áður og var vinningurinn nokkuð stór, m.a. útsýnisflug, stór trébíll og fleira svo það var mikið í húfi. Ofurspennta ég er komin á sprettinn og hafði ekki fyrir því að hægja á mér í beygjunni og renn eins og fótunum hafði verið kippt undan mér og dett kylliflöt á gólfið. Til að reyna að takmarka vandræðalegheitin stóð ég upp á ljóshraða í von um að sem fæstir sæu þetta (sem eru þó hverfandi líkur á). Það bætir ekki úr skák að þegar ég kom loksins að sviðinu dró ég lægra spilið og tapaði vinningnum. Í sárabætur fékk ég eina hamborgarmáltíð á Trölla. Það sem er samt vandræðalegra er að enn þann dag í dag, 21 ári og mörgum bingóum seinna, eru þessi skammarverðlaun enn stærsti vinningurinn sem ég hef unnið í bingói.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég hef ætlað að vera allskonar, m.a. bakari, tannlæknir, arkitekt og þýðandi. Ég menntaði mig sem iðjuþjálfa svo í rauninni get ég gert nánast hvað sem ég vil þegar ég verð stór!
Fyndnasta manneskja þú veist um: Sambýlismaðurinn lætur mig hlæja á hverjum degi!
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að vera yfirmaður smakkdeildarinnar í Nóa Siríus, af augljósum ástæðum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram og Snapchat.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Setja lög um að glassúr á snúðum skuli hylja a.m.k. 90% snúðsins.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég æfði handbolta í 11 ár og hef fengið eina gullmedlíu á lífsleiðinni, það var fyrir að segja brandara í Pylsuvagninum. Að vísu lenti liðið mitt einu sinni í fyrsta sæti á handboltamóti, en það voru fleiri leikmenn en medalíur og þær kláruðust þær áður en kom að mér.
Mesta afrek í lífinu: Ég vann stígvélasparkið í sumarbúðum KFUM og K með miklum yfirburðum þegar ég var þar.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég er svo forvitin að ég myndi vilja kíkja um 30 ár fram í tímann bara til að sjá hvernig staðan er, hvort og hversu mikið við erum búin að klúðra umhverfismálum eða hvort við náum að hysja upp um okkur.
Lífsmottó: Ég er ekki viss um að ég sé nógu heimspekileg til að eiga lífsmottó, en ég segi oft að tvíverknaður sé höfuðsynd, en það er ekki mjög gott lífsmottó samt. En ég er á því að ef það er afsökun til að halda partý, þá heldurðu partý!
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Það er partý á Buxnalausa Barnum! (Það er pubquiz gegnum tölvuna þar sem þú þarft bara að vera fínn fyrir ofan mitti).


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinRangárþing ytra endurnýjar samstarfssamning við Heklu
Næsta greinFyrsta skóflustungan að fjórða grunnskólanum í Árborg