Utanvegahlaupið Salomon Hengill Ultra verður haldið í Hveragerði um helgina. Hengilshlaupið er miklu meira en íþróttaviðburður því um sannkallaða bæjarhátíð er að ræða með fjölbreyttri dagskrá. Skipuleggjendur búast við um 900 þátttakendum og Hvergerðingurinn Rakel Magnúsdóttir, brautarkynnir hlaupsins, mun sjá um að peppa þá við rásmarkið og endamarkið af sinni alkunnu snilld. Rakel er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Rakel Magnúsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 7. október 1978 í Fæðingarheimilinu í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Gift Einsamínum Gauja Skóló og við eigum þrjár stúlkur þær Eydísi Lilju, Elmu Sóleyju og Írisi Örnu. Svo eigum við læðurnar Dúllu og Bellu og labradorhvolpinn Erró… þetta er hálfgerður dýragarður hjá okkur í Dynskógunum.
Menntun: B.Sc í íþróttafræðum og viðbótardiplóma í Jákvæðri sálfræði, auk allskonar yogakennaranáms og tónlistarnáms.
Atvinna: Ég starfa sem íþróttakennari í Grunnskólanum í Hveragerði en þjálfa einnig eldri borgara í Hveragerði, bæði í vatnsleikfimi og dansi. Ég hef undanfarin ár verið með dásamleg yoganámskeið í Fitnessbilinu í Hveró og svo kenni ég spinning, yoga og fleira í World Class á Selfossi. Til að bæta nokkrum verkefnum við þá tek ég líka að mér allskonar klappstýrustörf í tengslum við stóra hlaupaviðburði á borð við Víkingamótin og Reykjavíkurmaraþon. Já, og svo í dauða tímanum hef ég verið að taka eitt og tvö söng gigg.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég á erfitt að gera upp á milli nokkurra sem hafa heillað mig en ætla að nefna bók sem Eydís Lilja mín hvatti mig til að lesa en hún heitir The Seven Husbands Of Evelyn Hugo eftir Taylor Jenkins Reid – bók sem kom mér veruleg á óvart.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi mjög sjaldan á sjónvarpsþætti nema þá á eitthvað í línulegri dagskrá og þá koma íslensku þættirnir, sem hafa komið undanfarin misseri, sterkir inn. Ég horfi hins vegar á íþróttir og geri mikið af því. Stundum OF mikið vill Einsiminn meina.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Lord of the Rings myndirnar… einu ævintýramyndirnar sem ég hef horft á og finnst þær alltaf jafn magnaðar.
Te eða kaffi: Bæði betra… en ég er mjög mikil kaffikona – eiginlega byrjar dagurinn ekki fyrr en eftir fyrsta kaffibollann.
Uppáhalds árstími: Haustið! Elska allt við haustið… Segi eins og í sjónvarpsþáttunum Aftureldingu; „það er svo erótískur árstími – þegar trén byrja að klæða sig úr”.
Besta líkamsræktin: Öll líkamsrækt er best! Ég lít á líkamsrækt sem HEILRÆKT og vil nýta fjölbreyttar leiðir með áherslu á að styrkja bæði huga og líkama. Ég stunda sjálf fjölbreytt yoga og gæti ekki lifað án þess. Mér finnst dásamlegt að vera úti í náttúrunni, hlaupandi, eða bara í núvitund með Erró. Svo er spinning recovery með uppáhalds fólkinu mínu á Selfossi ómissandi næring fyrir líkama og sál!
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er ágætis kokkur… svo lengi sem ég þarf ekki að snerta óeldað kjötmeti. En ætli ég fái samt ekki mesta hrósið fyrir salötin sem ég geri… eða mögulega brokkolíið?
Við hvað ertu hrædd: Ég er hrædd við að vera hrædd.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Sumir myndu segja á ókristilegum tíma. Ég fer á fætur kl. 5:15 þegar ég er að kenna morguntíma á Selfossi, annars leyfi ég mér að sofa til 6-ish… það fer eftir því hversu mörg morgunverk ég þarf að komast í gegnum. Og það skal tekið fram að ég snooza ekki… maður á ekki að fresta hamingjunni!
Hvað gerir þú til að slaka á: Slökunin mín felst í gæðastundum með sjálfri mér, til dæmis fara í sund og gufu eða leggjast í sófann með góða bók. Svo er yoga og hugleiðsla líklega besta leiðin til að slaka á og endurnæra líkamann og hugann þannig að ég leita mikið þangað.
Hvað finnst þér vanmetið: Monotasking… það er að gera bara einn hlut í einu með fullri athygli. Athyglin okkar verður lífið okkar og þegar athyglin er tvístruð þá er gefið mál að lífið verður það líka.
En ofmetið: Peningar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég elska tónlist! Máltæki segir að “music can cure things medication never will”. Ég nota tónlist eins mikið og ég get í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum sem ég er að fást við í lífinu, þannig að ólík lög koma mér gott stuð, allt eftir því hvaða verk ég er að vinna. Ef ég ætti að velja eitt lag þá myndi ég samt segja ONNARINN (LES Cactus) í flutningi Riff Redd Hedd.
Besta lyktin: Ég er hálfgerður ilmkjarnaolíufíkill þannig að ég „ofnota“ allskonar ilmkjarnaolíur, við misjafna ánægju samferðafólks míns. Dætur mínar segja að ég haldi að ég geti bjargað öllu með olíum og jákvæðu hugarfari… og ég held að það sé rétt hjá þeim!
Bað eða sturta: Myndi segja bað en er ekki með þau þægindi heima þannig að ég segi sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Flest allt sem tengist þvotti, sérstaklega að flokka sokka og ganga frá samanbrotnum þvotti.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar, bæði það sem þú vilt og það sem þú vilt ekki.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhæna.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hveragerði! Það eru fáir staðir í heiminum sem ég hef heimsótt sem jafnast á við náttúrufegurðina hér. Í hvert sinn sem ég keyri upp Dynskógana verð ég orðlaus yfir fegurðinni sem blasir við og ég þakka fyrir að ég eigi virkilega heima í þessari Paradís.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Leti og neikvæðni
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég prumpaði í frekar óheppilegri yogastöðu framan í hóp sem ég var að kenna.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Söngkona, leikkona, kennari, prestur… og ef allt myndi klikka þá ætlaði ég nú bara að fara í garðyrkjuskólann.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Matta aðstoðarskólastjóri og Elínborg á Valborg.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að prófa að vera Jesú… frekar töff að geta gengið á vatni svo ég tali nú ekki um að geta breytt vatni í vín og allt það.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook, kann ekki á neitt annað.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég segja við Pútín það sem Stebbi bróðir segir: Það er bannað að vera fáviti!!!
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef aldrei á ævinni fengið blóðnasir.
Mesta afrek í lífinu: Fyrir utan að eignast þrjár heilbrigðar og vel heppnaðar dætur þá er ég ennþá undrandi yfir því að hafa klárað 55 km Laugarvegs Ultra Maraþonið síðasta sumar – með bros á vör næstum allan tímann!!!
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara á Woodstock – mér finnst ég stundum vera uppi á röngum tíma – hefði fílað mig vel með hippunum eða snartryllt á Bítlatónleikum.
Lífsmottó: Everything will be OK in the end. If it’s not OK it’s not the end.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að vera í miklu stuði á stærstu hlaupahátíð landsins sem verður haldin í Hveragerði um helgina. Salomon Hengill Ultra er utanvegahlaup þar sem fólk á öllum aldri kemur í fallega bæinn minn og nýtur þess að hlaupa um fjöll og firnindi og takast á við áskoranir, sigra og mögulega ósigra. Lengstu vegalengdirnar eru 160 km en þær stystu 5 km þannig að allir finna eitthvað við sitt hæfi.
Þetta verður sannkölluð hlaupaveisla og ég hvet alla til að gera sér ferð til Hveragerðis til að taka þátt í fjörinu.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinGræn atvinnuuppbygging fyrir 200-300 milljarða króna í Ölfusi
Næsta greinStyrmir Snær í belgísku úrvalsdeildina