Íslendingafélagið í Osló hélt upp á 100 ára afmæli sitt í síðustu viku með veglegri afmælishátíð. Boðið var upp á fjölbreytta viðburði, þar sem íslensk menning var í hávegum höfð. Félagsmenn í Íslendingafélaginu eru 139 talsins og formaður félagsins er Selfyssingurinn Eyja Líf Frid Sævarsdóttir.

Fullt nafn: Eyja Líf Frid Sævarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 27. mars 1979 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég á unnusta sem heitir Pétur Halldórsson og saman eigum við Þórunni. Ég á líka Þóreyju Líf 12 ára, Emelíu 13 ára og Maríu Celeste 25 ára.
Hverra manna ertu: Pabbi minn er Sævar Sigurðsson,vörubílstjóri og kemur frá Kolsholti í Villingaholtshreppi. Mamma er Valgerður Kristína Frid, læknaritari. Pabbi hennar var frá Stokkhólmi í Svíþjóð og mamma hennar kom úr sjálfum Grasagarðinum í Laugardalnum. Bróðir minn heitir Sigurður Lennart og systir mín er Bergljót.
Menntun: Ég er með M.Sc. í lyfjafræði frá HÍ og lærði stafræna heilbrigðistækni við Háskólann í Bergen í Noregi.
Atvinna: Ég vinn sem hugbúnaðarverkfræðingur hjá Capgemini í deild sem þróar og rekur tölvukerfin fyrir apótekin í Noregi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þerraðu aldrei tár án hanska. Allar þrjár.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Það getur verið frelsandi að viðurkenna vandræðalega veikleika. Ég er mjög hrifin af „góðum“ raunveruleikaþáttum. Uppáhaldið í dag er nýjasta þáttaröðin af Sister Wives.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Coco en ég þarf langan tíma á milli til að jafna mig tilfinningalega því ég fæ alvöru ekka í hvert skipti.
Te eða kaffi: Það fer eftir kaffinu sem er í boði ásamt staðsetningu og tilefni.
Uppáhalds árstími: Vorið. Það er tíminn sem börnin byrja að leika sér úti í götunni heima og maður tekur fram gönguskóna og fer í skógarferðir.
Besta líkamsræktin: Áður var ég í lyftingum en núna hleyp ég á eftir tveggja ára stelpunni minni og hún vill líka að ég beri sig út um allt. Þetta er svona sambland af styrk og almennu úthaldi. Ég er allavega voða frísk, hress og oft þreytt eftir góða æfingu.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er afar lítill kokkur í mér en baka þeim mun meira.
Við hvað ertu hrædd: Ég hræðist kláðaútbrotin sem ég fæ af persónunni sem er dónaleg, niðurlægjandi, kröfuhörð án inneignar og telur sig hafna yfir alla sjálfsskoðun.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á virkum dögum þegar ég fer á skrifstofuna inn í Osló þá vöknum við kl. 6 en annars kl. 7. Um helgar erum við Pétur byrjuð á fyrsta kaffibollanum klukkan 8.
Hvað gerir þú til að slaka á: Kannski horfi ég á „góða“ raunveruleikaþætti eftir alla líkamsræktina?
Hvað finnst þér vanmetið: Að pabbar okkar, afar og frændur stóðu með okkur konunum í réttindabaráttunni. Þeir sáu að við vorum sterkari saman. Þeir hefðu auðveldlega getað kúgað okkur í hel með barsmíðum vegna sinna líkamlegu yfirburða eins og er raunveruleiki kynsystra okkar t.d. í Íran og Afganistan. Án okkar manna hefði okkur ekki gengið svona vel og það skulum við ekki vanmeta. Heimatilbúin brún lagkaka er líka virkilega vanmetin.
En ofmetið: Ég hef aldrei fundið fyrir neinu öðru en væntumþykju og aðdáun Norðmanna gagnvart Íslendingum í þann áratug sem ég hef búið hér. Ég hef meira heyrt Íslendinga tala niður til þeirra. Ég upplifi að margir Íslendingar ofmeti eigin yfirburði og utanaðkomandi getur upplifað það sem hroka.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Þegar unglingarnir mínir rífast í bílnum yfir hvaða tónlist á að spila þá tek ég yfir og set á Sálina, yfirleitt Krókinn. Þá fer ég allavega í gott skap.
Besta lyktin: Ég gleymi aldrei þegar ég var 9 ára gömul á ferðalagi í Indlandi, hitinn og lyktin í andrúmsloftinu var allt önnur en lítil stelpa frá Selfossi átti að venjast. Ég held ég hafi aldrei fundið jafn góða lykt og þegar jasmín blómakransinn var settur í hárið á mér þetta kvöld.
Bað eða sturta: Bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Ég hef sjaldan náð upp góðri stemningu með sjálfri mér þegar ég brýt saman þvott.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: „Ég gaf þér stóra vængi svo þú gætir flogið þangað sem þú vilt og sterkar rætur svo þú munir hvaðan þú komst.“ Þetta sagði góða mamma mín þegar ég hafði samviskubit yfir að vilja kanna heiminn, fara mínar eigin leiðir og þar af leiðandi vera fjarverandi. Ég vil að mínar dætur upplifi jafn mikið frelsi og ég og finni sinn eigin stað í lífinu.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég elska morgnana jafn mikið og vorin.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það eru tveir sem berjast um efsta sætið. Humahuaca sem er í Jujuy í Argentínu og útsýnið þegar ég gekk yfir Romdalseggen í Noregi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar Pétur slekkur ekki strax á rúðuþurrkunum þegar rúðurnar eru þurrar.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þurrkað út.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég og Jóhanna Ýr, æskuvinkona mín, ætluðum að verða fegurðardrottningar og skipta með okkur Norðurlöndunum. Það má því segja að við lifum ekki drauminn.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég held að Ryan Reynolds sé fyndasti maður í heimi en ég er líka mjög heppin því ég bý með manni sem er alltaf í brandarakeppni.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Fluga á vegg – ég held það sé athyglisvert að vita hverjir eru ekta útavið.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook, því ég er miðaldra.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég ráða til mín strjúkara, ekki nuddara og láta strjúka mér eins og ketti allan tímann. Svo myndi ég fá fróðari og flinkari menn en ég er til að redda öllu hinu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er raunvísindanörd.
Mesta afrek í lífinu: Að finna manninn og félagann sem ég hef leitað að útum allt í 40 ára afmælisveislu í Þingborg.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Steinöldin hefur alltaf heillað mig.
Lífsmottó: Ég hef ekki fundið það.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ætli ég fari ekki í matarveislu, tívolí og hleyp hálft maraþon eins og allir aðrir gera um helgar.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Eyja Líf með dætrum sínum. Ljósmynd/Úr einkasafni
Eyja Líf ásamt Högna Kristjánssyni, sendiherra og Þórhalli Guðmundssyni sem vann að skipulagningu afmælishátíðarinnar. Ljósmynd/Myriam Marti Guðmundsdóttir
Eyja Líf ásamt Marianne Borgen, borgarstjóra Oslóborgar, í móttöku sem borgarstjórinn bauð til vegna afmælis Íslendingafélagsins.

Fyrri greinÞórsarar á toppnum eftir góðan sigur
Næsta greinGunnar sigraði Blítt og létt