Aðventan er annasamur tími fyrir marga, ekki síst tónlistarmenn sem eyða margir meiri tíma í að skemmta fólki en að pakka inn gjöfum og hengja upp jólaskraut. Rangæingurinn Hreimur Örn Heimisson er einn þeirra en í kvöld heldur hann kvöldvöku á Sviðinu í miðbæ Selfoss ásamt Magna og Gunna Óla, þar sem þeir ætla að spila sín vinsælustu lög og fara yfir sögurnar á bak við þau.

Fullt nafn: Hreimur Örn Heimisson.
Fæðingardagur, ár og staður: 1. júlí 1978.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Þorbjörgu Sif Þorsteinsdóttur og við eigum þrjú börn og einn Covid-19 hund.
Menntun: Korter í stúdent, fór „all-in“ í tónlistina.
Atvinna: Tónlistarmaður fyrst og fremst, svo á ég litla heildsölu með Jóni Guðfinnsyni, vini mínum og bassaleikara.
Besta bók sem þú hefur lesið: Duld (The Shining). Svo eru allar Tinna og Viggó bækurnar í miklu uppáhaldi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Það er mismunandi, allir fræðsluþættir um sögu og vísindi eru í miklu uppáhaldi.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Almost Famous, Old School og Anchorman.
Te eða kaffi: Cappuchino baby! Ég er ekki siðblindur!
Uppáhalds árstími: Haustið, ég elska að hlaupa í náttúrunni og taka alla þessa liti inn og flýja þangað með öll mín vandamál.
Besta líkamsræktin: Hlaup og Bootcamp þjálfun.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég geri rosalegar kjötbollur í brúnni.
Við hvað ertu hræddur: Að missa heilsuna og líka við Man.Utd menn.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Klukkan 7:40 á virkum dögum. Helgarnar eru ferlegar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hlusta á tónlist með góðan bjór í hönd og kíki út um gardínuna.
Hvað finnst þér vanmetið: Hvíldin, við hvílumst ekki nóg og allt þetta áreiti í kringum okkur gerir okkur erfiðara um vik að hvílast.
En ofmetið: Úff… Bitcoin.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það er mismunandi, núna er það Impossible með Nothing but Thieves en svo ég get alltaf leitað í 90´s grunge/rokk tónlist. Það klikkar aldrei. Ég hef til dæmis séð Pearl Jam þrisvar sinnum live.
Besta lyktin: Nýslegið gras og lyktin af Árna Þór Guðjónssyni eftir sveitt ball.
Bað eða sturta: Sturta. Það er eitthvað svo óheillandi að liggja í eigin…
Leiðinlegasta húsverkið: Það er langleiðinlegast að þurrka af.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þegiðu bara og syngdu!!! Þetta sagði Árni Þór Guðjónsson þegar ég ætlaði að segja eitthvað stórkostlegt á áramótaballi í Hvolnum.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn, það er svo gott að vaka þegar aðrir sofa, þið vitið.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þórsmörk, svo er ég alltaf veikur fyrir V-Landeyjum þar sem ég bjó lengi sem barn og unglingur.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ókurteisi, yfirgangur og fólk sem biður um leiðinleg óskalög.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég faðmaði Elínu Hirst í grænmetiskælinum í Hagkaup. Ég áttaði mig svo á því um leið, þegar ég tók utan um hana að ég þekkti hana ekkert. Sá hana bara í fréttunum á Stöð 2.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Atvinnumaður í knattspyrnu, fararstjóri á Spáni eða frægur söngvari.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Eyþór Ingi, hann er gersamlega sturlaður, það er eitthvað að honum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ætli ég myndi ekki vilja vera Adam Lambert, þá gæti ég tekið lagið með hljómsveitinni Queen.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég tæki út alla einræðisherra, forseta og stjórnir heimsins til að tryggja völd mín áfram sem alvaldur. Síðan myndi ég tryggja það að ég yrði gerður að einhvers konar guðlegri veru fyrir sögubækur framtíðarinnar!
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég ólst upp á svínabúi og var mjög efnilegur frjálsíþróttamaður. Ég fékk meira að segja boð um að fara í framhaldsnám til Sydney í Ástralíu á íþróttastyrk.
Mesta afrek í lífinu: Eiginkona mín, börnin og Lífið er yndislegt!
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég færi aftur til ársins 0027 til þess að athuga með þennan Jesúgaur. Jafnvel rétta honum vatnsglas og sjá hvort hann gæti ekki gert eitthvað meira úr því. Það væri líka gott að komast í sólina í Jerúsalem fyrir jólin.
Lífsmottó: Að koma fram við aðra eins og ég vil að fólk komi fram við mig.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég, Magni og Gunni Óla ásamt Benna Brynleifs og Árna Þór verðum með tónleika á Sviðinu á Selfossi í kvöld, föstudagskvöld. Á laugardaginn ætla ég svo bara að koma húsinu í stand fyrir jólin.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinLoksins sigur
Næsta greinFjörur gengnar á Suðurströndinni