Elín Hjartardóttir tók við formennsku í Flugbjörgunarsveitinni Hellu á aðalfundi sveitarinnar í nýliðnum ágústmánuði. Það má segja að Elín sé fædd og uppalin í FBSH en afi hennar, Rúdolf Þ. Stolzenwald, var einn af stofnendum sveitarinnar. Elín segist spennt fyrir því að takast á við nýtt hlutverk sem formaður en hún hefur lengi starfað með sveitinni, og meðal annars verið í svæðistjórn, sjúkraflokki og flugeldanefnd. Þá hafa dætur hennar báðar fetað sömu leið og eru félagar í flugbjörgunarsveitinni. 

Fullt nafn: Elín Hjartardóttir Stolzenwald.
Fæðingardagur, ár og staður: 10. apríl 1972, á Sólvangi í Hafnarfirði.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Viðari R. Guðnasyni. Ég á tvær dætur og hann á tvær dætur, einn son og eitt barnabarn og annað á leiðinni.
Menntun: Er með stuðningsfulltrúa- og leikskólaliðamenntun. Dreif mig svo í háskólanám og er að mennta mig í að verða kennari.
Atvinna: Vinn sem leiðbeinandi og stuðningsfulltrúi í Grunnskólanum Hellu. Þetta árið er ég svo heppin að fá að kenna eitt af uppáhaldinu mínu, sem er umhverfis og útivist í 5. bekkjum, ásamt því að vera einn af smiðjukennurum og fæ að vera með 1.-2. bekk í myndmennt og SNS í 3.-4. bekk og þar erum við að gera allskonar spennandi í vetur í spilum og leikjum. Núna er það skák sem verður skemmtilegt að rifja upp og læra með þeim. Síðan er ég í stuðningi við 4. bekk sem er líka ótrúlega skemmtilegt. Mér finnst mjög gaman að vinna með börnum og hef verið svo heppin að fá það tækifæri líka að vera ein af þremur með leikjanámskeið undanfarin 4 ár.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þjóð bjarnarins mikla eftir Jean M. Auel og eins hinar bækurnar um Aylu; Dalur hestanna, Mammútaþjóðin og Seiður slétturnar mér finnst þær allar æðislegar.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég get alltaf horft aftur og aftur á allar seríurnar í CSI, Elementary og Lucifer.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Love Actually, hún er svo dásamlega grilluð.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn, þó ég reyni að drekka te svona þegar koffeinið er orðið aðeins of mikið.
Uppáhalds árstími: Finnst einhvern veginn hver árstími eiga sinn sinn sjarma og ég get bara engan veginn gert upp á milli.
Besta líkamsræktin: Gönguferðir og fjallgöngur.
Hvaða rétt ertu best að elda: Held ég get sagt að það sé humarsúpan mín. Ég elska að brasast í eldhúsinu og finnst skemmtilegast að elda einhverja villibráð.
Við hvað ertu hrædd: Er hressilega lofthrædd og þá sérstaklega í bíl, svo að það er stundum vandræðalegt.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er ótrúlega misjafnt en oftast kl 7.
Hvað gerir þú til að slaka á: Gönguferðir eru mjög slakandi. Ég fer stundum í svona hugleiðslugöngur með steinana mín og heilagt kakó. Það er ótrúlega ljúft. Yoga Nidra er líka ein slökunarleið sem ég nota.
Hvað finnst þér vanmetið? En ofmetið?: Ég held einhvern veginn sama hvernig á það sé litið að þá er vanmetið að vera ofmetinn og eða ofmetið að vera vanmetinn. Nei, veistu mér dettur hreinlega ekki neitt í hug.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Þau eru svo ótrúlega mörg. Ég elska tónlist og vil helst alltaf vera með hana á.
Besta lyktin: Lyktin uppi í Hekluhrauni af gróðrinum þegar það er nýbúið að rigna.
Bað eða sturta: Eiginlega bara bæði sko.
Leiðinlegasta húsverkið: Það er nú ekki margt sem mér þykir leiðinlegt og ég á bara erfitt með að svara þessari, en jú, að þrífa svona eldhúsviftur. Það er eiginlega bara svo ógeðslegt.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þetta líður hjá.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Umhverfið í kringum Dalakofann okkar inni á Fjallabaki og Hekluhraunið eins og það leggur sig. Vestmannaeyjar eiga líka alltaf stað í hjarta mínu. Íslensk náttúra er svo óendanlega falleg.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Allan daginn óheiðarleiki og fals.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þau eru svo mörg. Ég er algjör snillingur í að lenda í allskonar en er bara sem betur fer fljót að gleyma því, enda með hressilegt ADHD. Ég hef til dæmis setið heila kennslustund og glósað eins og enginn sé morgundagurinn og reynt að tengja það við það sem ég las fyrir tímann og fattaði það svo að ég var aðeins búin að ruglast á kennslustofu og sat í kolröngum tíma. Er líka snillingur að labba utan í hurðakarma og á ýmislegt, oftast á asnalegum augnablikum þegar ég er að mæta einhverstaðar.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Dýralæknir.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ohh… mér finnst margt svo fyndið að ég get varla valið einhvern einn. En til dæmis gaurinn sem reynir að skila kókflöskunni í eldgamalli mynd sem heitir Guðirnir hljóta að vera geggjaðir. Það er alveg hillaríus atriði. Og svo eru bara til endalaust margar manneskjur sem eru fyndnar og mér finnst oft allskonar hlutir fyndnir. Ég bara elska að hlægja og hafa gaman.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég er bara ótrúlega sátt í eigin skinni. Það eina sem mér dettur í hug er, mögulega jú, að sleppa að vera hrakfallabálkur. Ég er stundum svo mikið á undan sjálfri mér og lendi oft í allskonar sem fáir lenda í nema mögulega kannski einu sinni á ævinni. En ég lendi í ýmsum óhöppum oftar en einu sinni. En aðalatriðið er bara að hafa húmor fyrir því.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram og hef mjög gaman af TikTok, það er svo ótrúlega margt skemmtilegt þar inni.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég útrýma fátækt.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég held að ég sé svolítið eins og opin bók þannig að mér dettur ekkert í hug.
Mesta afrek í lífinu: Ég er bara óendanlega þakklát fyrir svo margt og þá aðalega lífið, því það er ekki sjálfgefið. Þakklát fyrir yndislegu dætur mínar og allt það sem ég á í dag.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Mér dettur bara ekkert í hug. Svo kemur það pottþétt þegar ég hætti að velta þessu fyrir mér, það er svo týpískt ég.
Lífsmottó: Brostu framan í heiminn og þá mun heimurinn brosa við þér, því ég á bara eitt líf og það er núna.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Læra og mögulega fara eitthvað til fjalla.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinStóð fastur í sandi upp að mitti í nokkrar klukkustundir
Næsta greinSigríður Kristín ráðin á Breiðabólsstað