Dr. Katrín Ýr Friðgeirsdóttir frá Selfossi útskrifaðist um síðustu helgi frá Háskólanum í Reykjavík en hún er fyrsti nemandinn til að ljúka doktorsprófi úr íþróttafræði við skólann. Doktorsritgerð Katrínar ber heitið; The Role of Physical Activity and Exercise in Sleep-Disordered Breathing. Þar rannsakaði hún hlutverk daglegrar hreyfingar hjá einstaklingum á aldrinum 18-50 ára með kæfisvefn.
Fullt nafn: Katrín Ýr Friðgeirsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd þann 2. janúar 1990 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Gift Hilmari Þór Jónssyni og saman eigum við tvö börn, þau Henning Þór Hilmarsson 10 ára og Hrafnhildi Stellu Hilmarsdóttur 7 ára.
Hverra manna ertu: Ég er dóttir Friðgeirs Jónssonar, bílasmíðameistara frá Steingrímsstöð í Grafningi og Árnýjar Steingrímsdóttur frá Torfastöðum í Grafningi.
Menntun: Ég er doktor í íþróttavísindum.
Atvinna: Frá árinu 2021 hef ég starfað sem stundakennari við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, en í ágúst mun ég hefja störf sem lektor við deildina.
Besta bók sem þú hefur lesið: Undanfarin ár hefur lítill tími gefist í að lesa annað en rannsóknargreinar og bækur um hreyfingu, þjálfun og svefn. Why We Sleep er til dæmis góð.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég elska góða læknadrama þætti, Grey’s Anatomy, New Amsterdam, The Good Doctor og nýir þættir á Netflix sem heita Pulse eru í miklu uppáhaldi.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ætli ég sé ekki frekar væmin týpa, því ég get horft aftur og aftur á The Notebook og Purple Heart.
Te eða kaffi: Uppáhellt kaffi, svart og sykurlaust.
Uppáhalds árstími: Að mínu mati hafa allar árstíðir sinn sjarma, en ef ég ætti að velja eina, þá er sumarið tíminn.
Besta líkamsræktin: Að hlaupa úti í fallegri íslenskri náttúru er best í heimi.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég held ég sé almennt ágæt í eldhúsinu og finnst gaman að elda, en ég geri mjög gott rækju taco.
Við hvað ertu hrædd: Ég er lofthrædd og mjög hrædd við gas, gæti fyrir mitt litla líf ekki kveikt á gasgrilli.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer á fætur þegar ég þarf, get vaknað snemma ef ég þarf en finnst líka fínt að sofa til 9.
Hvað gerir þú til að slaka á: Að prjóna er mín núvitund og slökun.
Hvað finnst þér vanmetið: Mér finnst mikilvægi hreyfingar og svefns almennt vanmetin. Regluleg hreyfing og nægur svefn er undirstaða heilbrigðs lífs. Læknar ættu í ríkara mæli að skrifa upp á reglulega hreyfingu og 8 klukkustunda svefn sem viðbótarmeðferð við hinum ýmsu sjúkdómum.
En ofmetið: Hamborgarhryggur í jólamatinn er stórkostlega ofmetið dæmi.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Stumblin’ In með CYRIL.
Besta lyktin: Rakspírinn sem maðurinn minn notar.
Bað eða sturta: Ég er klárlega sturtu týpa.
Leiðinlegasta húsverkið: Sækja skítug föt um allt hús sem rata ekki sjálf í þvottakörfuna.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Kannski ekki beint ráð en það sem íþróttir kenna manni: Vinnusemi, metnaður og þrautseigja. Þessir þættir koma manni langt í lífinu.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er nátthrafn sem afkasta oft miklu eftir að aðrir fjölskyldumeðlimir eru sofnaðir.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Gjáin í Þjórsárdal er stórkostleg náttúruperla sem lengi hefur verið í uppáhaldi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ég er með bráðaofnæmi fyrir metnaðarleysi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég lendi mjög reglulega í því að rennihurðir opnast ekki þegar ég stend fyrir framan þær, alltaf jafn vandræðalegt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði mér alltaf að verða tannlæknir og fótboltakona.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Hrafnhildur Stella dóttir mín er ekkert eðlilega fyndin týpa og svo er hann Tómas Karl Guðsteinsson æskuvinur minn trúður í mannsmynd.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að vera vinkona mín hún Dagný Brynjarsdóttir sem er að fara að keppa á EM í knattspyrnu, en mótið hefst 2. júlí. Til að uppfylla æskudrauminn um að vera knattspyrnukona, væri ég til í að fá að spila einn leik á stórmóti fyrir Íslands hönd.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota mest Instagram og Facebook messenger.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Fyrir hádegi myndi ég stilla til friðar í heiminum, eftir hádegi myndi ég útrýma einræðisherrum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef spilað fótboltaleik á heimavelli Real Sociedad í San Sebastián á Spáni.
Mesta afrek í lífinu: Að eignast yndislegu börnin mín tvö, giftast manninum mínum og að klára doktorsnám eru mín mestu afrek hingað til myndi ég segja.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi afþakka boðið því lífið er núna.
Lífsmottó: Með dugnaði, metnaði og þrautsegju er allt hægt.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Við erum á Orkumótinu í Eyjum þar sem strákurinn minn er að spila fótbolta.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is