Sara Mjöll Magnúsdóttir, jazztónlistarkona frá Hellu, hefur verið á mikilli siglingu í íslensku jazz tónlistarsenunni undanfarið og hefur einnig verið að koma sér á framfæri í New York borg og nágrenni þar sem hún hefur átt heima síðustu 5 ár. Í síðustu viku gaf hún út sína fyrstu plötu, A Place to Bloom, og verður útgáfunni fagnað með tónleikum á Jazzhátíð Reykjavíkur í Hörpu á laugardag.
Fullt nafn: Sara Mjöll Magnúsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 22. desember 1994, í Bandaríkjunum.
Fjölskylduhagir: Ég er einhleyp og bý í New York.
Hverra manna ertu: Pabbi minn er Magnús Hrafn Jóhannsson líffræðingur frá Kópavogi og mamma mín Anna María Ágústsdóttir jarðfræðingur, líka úr Kópavogi.
Menntun: BM í Jazz píanóleik og MM í tónsmíðum og útsetningum frá William Paterson University í New Jersey í Bandaríkjunum.
Atvinna: Sjálfstætt starfandi tónlistarkona, bæði við að koma fram og semja og útsetja tónlist fyrir mig og aðra.
Besta bók sem þú hefur lesið: Vá, það er erfitt. Ég er að lesa The Artist’s Way í annað skiptið sem er bók sem hefur gert rosalega mikið fyrir mig. Annars las ég eins og hestur þegar ég var yngri og er að reyna komast á þann stað aftur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég er að horfa á Insecure í annað skiptið. Derry Girls og Severance fá líka tilnefningu.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Stella í Orlofi. Alltaf jafn góð.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Sumar. Ég get séð alveg sjarmann í hinum árstíðum en þær komast samt ekki nálægt, sorrý.
Besta líkamsræktin: Að dansa salsa eða að lyfta þungum lóðum.
Hvaða rétt ertu best að elda: Spicy tófurétt í hnetusósu.
Við hvað ertu hrædd: Ég er ímyndunarveik í myrkri.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 9-10 leytið nema ég þurfi að fara fyrr á fætur.
Hvað gerir þú til að slaka á: Anda djúpt og reyni að hafa enga dagskrá.
Hvað finnst þér vanmetið: Að eiga áhugamál sem listamaður. Listin sem þú vinnur við má ekki vera eina áhugamálið þitt! Ég þurfti að læra það að minnsta kosti.
En ofmetið: Allt of dýr og metnaðarlaus brunch á sumum veitingastöðum.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Skvísulög frá táningsárunum mínum með t.d. Rihanna. Já og íslensk sveitaballalög. Betri tíð með Stuðmönnum.
Besta lyktin: Nýbökuð kaka.
Bað eða sturta: Dreymir um gefa mér tíma til að fara í bað (og að eiga baðkar) en það er sturta eins og er.
Leiðinlegasta húsverkið: Að þrífa baðherbergið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ekki bíða eftir að verða tilbúin, byrjaðu bara.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn sem vill verða morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Sierra Nevada í Kólumbíu.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem tekst að leggja í mörg stæði eða keyrir hægt á vinstri akrein.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Er það ekki góðs viti að ég man ekki eftir neinu ákveðnu akkúrat núna? Ég er alltaf að mismæla mig eitthvað en ekkert hræðilegt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Rithöfundur eða tónlistarkona.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Erfið spurning. Ég er alltaf að hlusta á einhver íslensk podcöst með fyndnu fólki til að halda íslenskunni við. Uppháhaldið mitt þó þær séu hættar er Athyglisbrestur á lokastigi, mjög oft hlegið upphátt í lestinni í New York af þeim.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég held bara eitthvað barn í sumarfríi með engar skyldur og bara hafa gaman. Fara í vatnsstríð og borða mikið af ís.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Tiktok.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Mig langar að segja eitthvað fyndið en þegar við vitum heimsmyndina í dag þá finnst mér augljóst. Ég myndi stoppa þjóðarmorð eða að minnsta kosti gæti ég gefið öllum að borða.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er með fáránlega gott minni þegar kemur að ákveðnum hlutum, að því marki að öðru fólki finnst það stundum óhugnanlegt.
Mesta afrek í lífinu: Að gefa út plötuna mína A Place to Bloom sem kemur út í þessari viku!
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara fram í tímann, ég er svo forvitin.
Lífsmottó: Treystu innsæinu og ekki efast um þig. Þú getur fundið út úr hverju sem er.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég ætla að spila á útgáfutónleikunum mínum á Jazzhátíð Reykjavíkur á morgun, laugardag kl. 20!
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

