Stokkseyringar eru stórhuga fyrir næsta keppnistímabil á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Breytingar hafa orðið á þjálfarateymi liðsins, Kristján Freyr Óðinsson verður áfram í brúnni en með honum verður goðsögnin Arilíus Marteinsson. Þetta er í fyrsta sinn sem Arilíus kemur inn í meistaraflokksþjálfun og bindur stjórn Stokkseyrar miklar vonir við samstarf þessara herramanna.
Fullt nafn: Arilíus Marteinsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 31. maí 1984 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Ég er kvæntur Kristrúnu Helgu Marinósdóttur og við eigum þrjú börn; Erlu Maren, Rögnu Evey og Elmar Ottó.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Marteinn Sigurþór Arilíusson og Sigríður Birna Birgisdóttir.
Menntun: Ég er menntaður fangavörður.
Atvinna: Fangavörður.
Besta bók sem þú hefur lesið: Húsið eftir Stefán Mána.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Helvíti margir en Peaky Blinders standa upp úr.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Sennilega er það Nýtt líf, kann hana utan að.
Te eða kaffi: Það er klárlega kaffi.
Uppáhalds árstími: Það er sumarið allan daginn.
Besta líkamsræktin: Áður fyrr var það ekkert annað en fótbolti í dag er besta líkamsræktin að spila 18 holu golfhring í góðum félagskap.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég ætla ekkert að ljúga, ég er gjörsamlega ónothæfur í eldhúsinu. Ef ég á að nefna eitthvað þá er ég nokkuð sterkur í því að grilla samlokur.
Við hvað ertu hræddur: Ég er bullandi flughræddur.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er mjög mismunandi. Þar sem ég er vaktavinnumaður þá vaki ég oft á nóttunni en ef ég er í fríum þá er ég svona að rífa mig í gang milli 9 og 10.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hugsunin með að byrja í golfi var meðal annars til að slaka á. Það gengur illa þar sem ég missi hausinn í átta af hverjum tíu skiptum sem ég spila. Ætli mesta afslöppunin sé ekki bara að leggjast upp í sófa með podcast í eyrunum. Ekki verra ef Litla flugvélin sé pundit í því.
Hvað finnst þér vanmetið: Einvera í hóflegum skammti er gríðarlega vanmetin.
En ofmetið: Baggalútur og þríeykið finnst mér mjög ofmetið.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Here I Go Again með Whitesnake virkar alltaf.
Besta lyktin: Að spila fótbolta á alvöru nýslegnu grasi og finna lyktina af því.
Bað eða sturta: Sturta klárlega, hef ekki þessa ró til að liggja í baði.
Leiðinlegasta húsverkið: Ég er sennilega ekki sá besti þegar kemur að heimilisverkum enn mér drepleiðist að ryksuga.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: “Alli, Alli there is more in life than football”. Þetta sagði gamli þjálfarinn minn, Zoran Miljkovic, við mig einu sinni. Þetta kom kannski úr hörðustu átt, þar sem maðurinn var með fótbolta á heilanum en þetta var alveg rétt hjá honum.
Nátthrafn eða morgunhani: Þar sem ég geng vaktir allan sólarhringinn þarf ég svoldið að vera bæði en í grunninn er ég nátthrafn og verð sennilega aldrei þessi ofurhressa morguntýpa.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég var ekki gamall þegar ég fór fyrst í fjöruna á Stokkseyri og hún stendur enn þá uppúr.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Frekja og yfirgangur í allri sinni mynd fer verulega í taugarnar á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Úfff… þau eru mörg. Bara síðast í gær fékk ég skilaboð frá konunni minni að vinkona hennar væri að koma í heimsókn og bað mig um að kaupa blómvönd og annað fyrir vinkonuna. Ég ákvað það með sjálfum mér að vinkonan ætti afmæli. Kom svo heim og þar sátu konan og vinkonan og ég var fljótur að óska henni til hamingju með daginn. Tók svo eftir að það fékk ekki miklar undirtektir og svipurinn á þeim báðum frekar skrítinn. Vinkonan átti ekkert afmæli, gæludýrið hennar var því miður að deyja.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að verða atvinnumaður í fótbolta. Það gekk ekki.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Einar Ottó vinur minn er ótrúlega fyndinn. Ég er líka mikill Péturs Jóhanns maður.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ætli ég væri ekki Maradona. Hann var langbestur í boltanum og hefði með aðeins betri ákvörðunum getað verið það svo mikið lengur. Svo var hann svo áhugaverður karakter.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég er mest á X, gamla Twitter.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þetta er stór spurning, ætli ég myndi ekki stöðva öll stríð heimsins en sennilega hefði það ekki mikið upp á sig þar sem þetta er bara einn dagur og allt farið til andskotans næsta dag.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín, þó það sé klárlega ekki bara mér að þakka. Og líka að hafa verið hluti af Selfossliðinu sem fór upp í efstu deild 2009.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ætli ég færi ekki aftur til sirka 1965-1969. Ég myndi vilja hitta afa minn og nafna, sem ég hitti því miður aldrei. Ég myndi vilja spjalla við hann og kynnast honum.
Lífsmottó: Að vera betri í dag heldur en ég var í gær.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að fara til London. Ef guð lofar ætla ég að sjá Arsenal vinna Crystal Palace.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is
