Það hefur mætt mikið á viðbragðsaðilum í þessari viku en í óveðrinu mikla fóru björgunarsveitirnar á Suðurlandi í vel á annað hundrað útkalla. Sunnlendingur vikunnar að þessu sinni er fulltrúi þessa öfluga hóps, Jóhann Valgeir Helgason, formaður Björgunarfélags Árborgar.

Fullt nafn: Jóhann Valgeir Helgason.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur 4. febrúar árið 1995 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Ókvæntur og barnlaus.
Menntun: Vélfræðingur.
Atvinna: Starfa hjá RST-Net í Hafnarfirði.
Besta bók sem þú hefur lesið: Útkallsbækurnar hafa lengi heillað, ætli það eigi ekki ágætlega við.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég hef verið þekktur fyrir frekar sérstakan smekk á sjónvarpsefni. Til að mynda var sjónvarpstöðin ÍNN lengi í uppáhaldi, annars hefur Landinn nú aldrei klikkað.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Home Alone er alltaf klassík.
Te eða kaffi: Kaffi, læt teið eiga sig.
Uppáhalds árstími: Allir hafa þeir sína kosti en vetrartíminn stendur alltaf uppúr.
Besta líkamsræktin: Fjallgöngur og útivist í góðra vina hópi.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Almennt er ég góður á grillinu og leikur hvers konar grillkjöt í höndunum á mér, eða ég er a.m.k. á því…
Við hvað ertu hræddur: Er eitthvað að óttast?
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég er að fara á fætur um 6:30 flesta morgna, svo vakna ég eitthvað aðeins seinna.
Hvað gerir þú til að slaka á: Tek stuttan lúr í sófanum.
Hvað finnst þér vanmetið: Að þekkja sín takmörk.
En ofmetið: Öfgar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Lagið Higher með Taio Cruz er algjör bomba, var frekar oft spilað þegar ég þóttist vera plötusnúður á sínum tíma.
Besta lyktin: Gróðurlykt á góðum sumardegi í Þórsmörk.
Bað eða sturta: Tek sturtuna alltaf framyfir, að liggja í baði finnst mér frekar ofmetið.
Leiðinlegasta húsverkið: Skúringar eru það allra leiðinlegasta, enda alls ekki mín sterkasta hlið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að standa með sjálfum sér, það er eitthvað sem á alltaf við.
Nátthrafn eða morgunhani: Sennilega bara bæði, kann ekki að fara snemma að sofa og ekki að sofa út.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Á hálendi Íslands er um marga fallega staði að velja og er frekar erfitt að gera þar upp á milli. Annars er Mýrdalurinn alltaf einstaklega fallegur, sennilega bara sá fallegasti.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Að vera með vesen bara til þess að vera með vesen.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Maður lendir nú annað slagið í neyðarlegum atvikum og kippir sér ekki mikið upp við það. Mér er nú efst í huga þegar ég var nýkominn með bílprófið og hélt að ég væri á jeppa, en svo var ekki. Þessi misskilningur minn leiddi af sér festu á mjög neyðarlegum stað í bænum. Hef alltaf verið með skóflu í bílnum síðan.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ætlaði alltaf að verða lögreglumaður.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Litli bróðir minn er einstaklega fyndinn gaur, enda með svipaðan húmor og ég…
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri alveg til í að fara aðeins aftur í tímann og vera Ólafur Ragnar Grímsson á Bessastöðum í einn dag, hef alltaf borið mikla virðingu fyrir þeim meistara.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Nota Facebook sennilega mest enda frekar fjölbreyttur miðill.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ný brú yfir Ölfusá, er það ekki eitthvað?
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Syng í bílnum, já svona þegar ég er einn á ferð.
Mesta afrek í lífinu: Mikið afrek að vera Sunnlendingur vikunnar, það er óumdeilt.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Færi aftur í tímann um sirka 100 ár og tæki aðeins stöðuna á málefnum líðandi stundar. Ég held að maður átti sig ekki á því dagsdaglega hve mikið hefur breyst á þessum tíma.
Lífsmottó: Meira skemmtilegt, minna leiðinlegt.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla á tvö jólahlaðborð um helgina svo það verður nóg um að vera.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinDýr dagsferð í Jökulsárlón
Næsta greinSamið við björgunarsveitir í Bláskógabyggð