Áshreppingurinn Sveinn Skúli Jónsson hefur verið að gera það gott á hlaupabrautinni í sumar. Hann varð á dögunum Íslandsmeistari í 10 km götuhlaupi í flokki 20-22 ára þar sem hann hljóp á nýju HSK meti. Hann stórbætti svo eigin árangur og setti HSK-met í sama aldursflokki í Laugavegshlaupinu sem fram fór um síðustu helgi, þar sem hlaupið er á milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Fullt nafn: Sveinn Skúli Jónsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist á Selfossi 11. júlí 2005.
Fjölskylduhagir: Ég er einhleypur og bý hjá foreldrum mínum rétt fyrir utan Hellu.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru þau Jón Sæmundsson og Guðrún Lára Sveinsdóttir.
Menntun: Ég er með stúdentspróf frá FSu.
Atvinna: Ég vinn við að skera þökur núna yfir sumarið.
Besta bók sem þú hefur lesið: Man svosem ekki eftir neinni sérstakri bók en er að glugga í bók sem heitir The Norwegian Method núna fyrir svefninn.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Suits eða Prison Break eru mjög góðir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Heimildarmyndina um Laugaveginn, hef nokkrum sinnum tekið hana meðan ég er á hlaupabrettinu og ég fæ alltaf gæsahúð yfir henni.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn.
Uppáhalds árstími: Sumarið.
Besta líkamsræktin: Fara út að hlaupa.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég kann að búa til ekkert eðlilega góða skál af skyri með mjólk, banana og rúsínum.
Við hvað ertu hræddur: Ég er rosalega lofthræddur.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er mjög misjafnt en oftast vakna ég í kringum 7:30.
Hvað gerir þú til að slaka á: Er svosem ekki með neitt eitt sem að lætur mig slaka á en finnst það rosa slakandi að taka rólegt skokk með góða tónlist eða podcast í eyrunum.
Hvað finnst þér vanmetið: Mér finnst fólk vera að sofa á því hvað það er mikilvægt að hreyfa sig reglulega og að sofa nóg.
En ofmetið: Hvítur Monster.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég hlusta alltaf svo oft á þau lög sem koma mér í stuð þar til ég fæ leið á þeim en Story of A Star með Ultra Mega Technobandið Stefán kom mér í gírinn í dag.
Besta lyktin: Lyktin af nýslegnu heyi. Hef alltaf sagt það að ef það væri til rakspíri sem væri eins og nýslegið hey þá myndi ég ekki nota annan rakspíra.
Bað eða sturta: Sturta allan daginn.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst ekkert meira leiðinlegt en að taka til.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ef þú gefst aldrei upp þá taparðu aldrei.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég hugsa að ég sé bara þarna mitt á milli finnst best að vakna í kringum 8 leytið.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Chamonix í Frakklandi er alveg ofboðslega fallegur staður.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Myndi segja að það fari nú ekki margt í taugarnar á mér en finnst rosa pirrandi þegar það er svitalykt af fólki.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég var að kynna eitthvað atriði með Karlakór Rangæinga og ég var að telja upp hvaða borð ættu að vera fyrst í eftirréttinn en þá öskraði einhver karl á mig að það væri verið að bera út eftirréttinn.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði mér alltaf að verða bóndi, hlaupari og fótboltamaður.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það er vinnufélagi minn Palli Rolla. Það er alltaf gaman í kringum hann.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Myndi líklega velja Jim Walmsley sem er einn besti fjallahlaupari sögunnar og prófa að keppa eitthvað alvöru hlaup í svona sturluðu formi eins og hann er í.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég eyði alltof miklum tíma á TikTok en er að reyna minnka það.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég lögfesta KFR í bestu deildinni.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég kann ekki að ropa og hef aldrei getað ropað en ég er að reyna að læra það því það er alveg hræðilegt ef maður getur ekki ropað í langhlaupunum.
Mesta afrek í lífinu: Hingað til er það örugglega þegar ég hljóp 70 km hlaup úti í Króatíu í vor.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Veit ekki afhverju en mig hefur alltaf langað til þess að prófa að vera jafn gamall og ég er í dag fyrir kannski 40-50 árum.
Lífsmottó: Sá getur allt sem trúir.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Heyrðu, ég er að fara á mitt fyrsta Hyrox mót með vini mínum. Svo hef ég verið ótrúlega duglegur við því að segja nei við djammferðum undanfarnar vikur út af hlaupunum en núna er smá hvíldartímabil framundan allavega í keppnum svo ætli maður kíki ekki eitthvert út með félögunum.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is
