Um þessar mundir er vetrarstarf eldri borgara að fara af stað víða um Suðurland. Í Rangárvallasýslu er öflugt og fjölbreytt starf eldri borgara með hátt í þrjúhundruð meðlimum. Formaður félagsins er Jón Ragnar Björnsson sem hefur heldur betur nóg að gera og líkar það vel.
Fullt nafn: Jón Ragnar Björnsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 21. maí 1943 á Ölvaldsstöðum í Borgarfirði.
Fjölskylduhagir: Fráskilinn og einn á báti (alveg pláss fyrir tvö! í bát), fjórar frábærar dætur, ellefu barnabörn af bestu gerð og fjögur efnileg barna-, barnabörn.
Menntun: Búvísindi frá danska landbúnaðarháskólanum.
Atvinna: Hættur að nenna að vinna. Vann ýmis störf á langri ævi. Eftir að námi lauk vann ég sem landbúnaðarsérfræðingur hjá nokkrum landbúnaðarstofnunum, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra loðdýrabænda o.fl. Síðasta starfið mitt hjá öðrum var hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti. Svo rak ég endahnútinn á vinnuferilinn og rak gistiheimilið Guesthouse Nonni í 6 ár á Hellu. Það var mjög skemmtilegt, en krefjandi. Aðal hobbýið mitt er að vera formaður Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu. Það er krefjandi því starfsemi félagsins er blómleg, félagsmenn 300 og fer fjölgandi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Engin spurning. Það er Góði dátinn Svejk. Dásamlegur húmor og mikil vitleysa með sterkum og alvarlegum undirtóni.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég er alger fréttafíkill og horfi á fréttir og fréttaskýringaþætti á RÚV og Norrænu sjónvarpsstöðvunum. Hvað er að gerast á Íslandi og í heiminum? Hvers vegna? Hvaða afleiðingar hefur það? Mér finnst nauðsynlegt að velta þessu fyrir sér. Við erum ekki eyland þótt við búum á eyju!
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég hef einfaldan smekk. Ætli það sé ekki Stella í orlofi?
Te eða kaffi: Rótsterkt kaffi allan daginn!
Uppáhalds árstími: Allar árstíðir góðar. Þó er eitthvað alveg sérstakt við vorið þegar allt er að vakna til lífsins og eitt pínulítið fræ spírar og verður að óstjórnlega flókinni plöntu.
Besta líkamsræktin: Ganga. Ég er í sjálfsprottnum gönguhópi sem við köllum Fótfráir Hellubúar. Við erum 7-15 manns af eldri gerðinni sem göngum meðfram Ytri Rangá, en mér finnst hún ein alfallegasta á sem ég hef séð í heiminum. Hún er aldrei eins en alltaf eitthvað nýtt að sjá. Cavalíerhundurinn minn hann Zorro stjórnar hópnum með harðri hendi og fær að launum nammi frá göngufólki.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Dálítið góður með mig, þykist vera ágætis kokkur. Þegar dætur mínar voru litlar gerði ég ýmsar tilraunir á sviði matreiðslu. Einu sinni spurðu þær: „Pabbi, þurfum við að borða þetta. Ég smakkaði og sagði nei og skrapp eftir pizzu.“
Við hvað ertu hræddur: Dauðhræddur við að Trump verði forseti. Hann kann bara að skandalísera og eyðileggja og mun hafa mikil og neikvæð áhrif á heiminn allan ef hann nær kjöri.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Misjafnt, á bilinu 8-10.
Hvað gerir þú til að slaka á: Les góða bók, fer í innhverfa íhugun.
Hvað finnst þér vanmetið: Eldra fólk er vanmetið. Merkilegt að velta þessu fyrir sér. Hverjir vanmeta eldra fólk? Það eru afkomendur okkar, sem flestir verða með tíð og tíma eldra fólk!
En ofmetið: Ríkidæmi. Máltækið „Margur verður af aurum api“ er bæði satt og rétt!
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Erfitt að nefna eitthvað eitt. Bítlarnir eru sér á parti, mörg góð íslensk lög t.d. er Magnús Kjartansson einn af mínum uppáhalds.
Besta lyktin: Af nýþurrkaðri töðu.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Fara út með ruslið í byl og 10 stiga frosti.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Bannað að gefast upp!
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn. Var bestur frá kl. 21-03 og alveg ómögulegur á morgnana. Var kominn upp á lag með að sofa aðeins áfram meðan konan græjaði börnin fyrir leikskólann. Við fórum svo saman á bíl með krakkana í leikskólann og í vinnuna. Þrjú hnipp á morgnana „komdu þér á lappir“ voru algeng. Einn morguninn var sælan úti því konan sagði: „Hér með er ég hætt að vekja þig, þú verður skilinn eftir heima ef þú kemur þér ekki á lappir sjálfur.“ Þetta hefur samt breyst með aldrinum og ég upplifi alveg að morgunstund gefur gull í mund.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Óteljandi marga fallega staði á Íslandi og annars staðar í heiminum. Ég get ekki gert upp á milli.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Undirferli og slúðursögur.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Líklega búinn að steingleyma því. Kannski eins gott!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ákveðinn í að verða leikari og átti alveg von á því að verða frægur í Hollywood.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Ari Eldjárn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég er bara nokkuð ánægður með sjálfan mig og langar þess vegna ekkert að vera einhver annar.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Draga stórkostlega úr misrétti í heiminum með einni tilskipun.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að mig langar í rafmagnsreiðhjól.
Mesta afrek í lífinu: Að eignast frábæra afkomendur.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Aftur til 1783 þegar Skaftáreldar geysuðu. Ég vildi gjarnan sjá hvernig íslenska þjóðin þraukaði og lifði af ólýsanlegar hörmungar.
Lífsmottó: Taktu lífið ekki of alvarlega, þú kemst hvort sem er ekki frá því.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Alveg vís með að skreppa í bæinn, kíkja í verslanir, hitta fólkið mitt. Kannski vill einhver bjóða mér í mat? Það verður bara spennandi og gaman.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is