Skeiðamaðurinn Hermann Örn Kristjánsson er nýr skólastjóri Sunnulækjarskóla á Selfossi en hann tók við starfinu um síðustu mánaðamót. Hermann Örn hefur starfað við Sunnulækjarskóla síðan 2011 sem kennari og deildarstjóri, nú síðast sem deildarstjóri Setursins, sérdeildar Suðurlands. Hann svaraði spurningunum í flugvél á leið til Bandaríkjanna.

Fullt nafn: Hermann Örn Kristjánsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 28. september 1978 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég er í sambúð með Ragnhildi Guðrúnu Eggertsdóttir og saman eigum við tvær frábærar stelpur í 6. og 8. bekk í Vallaskóla.
Menntun: Ég hef lokið námi í kerfisfræði, kennslufræðum og rekstrarstjórnun.
Atvinna: Ég tók nýlega við skólastjórastöðu af Birgi Edwald í Sunnulækjarskóla.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég er svo gleyminn að það er oftast síðasta bókin sem ég las. Ég er nýlega búin að lesa Vertu úlfur og hlusta á Egilssögur. Mjög ólíkar en báðar frábærar.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Það er sama sagan og með bækurnar. Það nýjasta sem ég hef séð og haft gaman af er Strange Angel og Godfather of Harlem. Svo sá ég að Klovn var að byrja aftur með 8. seríuna og það gladdi mig mikið.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Til dæmis Forrest Gump og Coming to America.
Te eða kaffi: Bæði gott en kaffið betra.
Uppáhalds árstími: Það hafa allar árstíðir sinn sjarma en ég er sammála Bubba og segi að sumarið sé tíminn.
Besta líkamsræktin: Líkamleg alhliða vinna, sund og góðar teygjur. Ég hef gaman af göngum og held að dagleg ganga sé bæði góð líkams- og geðrækt.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég held ég sé geggjaður kokkur og finnst gaman að elda af fingrum fram. Ég hef borið fram marga vinsæla rétti á heimilinu sem ég get ekki sagt að muni hvernig ég eldaði því það var í núvitundar ástandi sem verður ekki endurtekið. Einhverra hluta vegna er samt alltaf spaghetti carbonara rétturinn minn vinsælastur og oftast eldaður.
Við hvað ertu hræddur: Ég er hræddur við fávisku þeirra sem geta tekið ákvarðanir sem hafa áhrif á líf annarra.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer á fætur um sjö á morgnana í miðri viku. Milli átta og níu um helgar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Það er mikil slökun í því að breyta um umhverfi. Það er vel hægt að slaka á frá vinnu með því að sinna öðrum verkefnum á öðrum vettvangi. Við fjölskyldan reynum að fara saman í eitt gott ferðalag á ári, ýmist innanlands eða erlendis og það er mjög nærandi að upplifa nýja staði. Annars er það bara sveitin á Blesastöðum og Kirkjulæk þar sem foreldrar mínir og tengdaforeldrar búa.
Hvað finnst þér vanmetið: Svefninn er vanmetinn. Það er ótrúlegt hvað góður svefn getur gert fyrir marga, unga sem aldna.
En ofmetið: Samfélagsmiðlar og snjalltæki.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Þau er mjög mörg og Queen á sum þeirra. Don’t Stop Me Now er t.d. mjög stuðandi lag.
Besta lyktin: Mig dreymdi eitt sinn lyktina af kleinunum hennar Eyrúnar (Eyju) heitinnar á Kálfhóli. Hún kom stundum og bakaði kleinur á Blesastöðum þegar ég var ungur og ég held að það sé besta lykt og bestu kleinur sem ég man eftir.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að taka til í bílskúrnum. Verk sem klárast aldrei.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér er það sem kemur manni lengst í lífinu og notaðu brjóstvitið þegar þú ert í vafa.
Nátthrafn eða morgunhani: Næturnar hafa verið minn tími.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég hef ferðast mikið um Ítalíu sem er án efa eitt fallegasta land sem ég hef heimsótt. Gjáin í Þjórsárdal í góðu veðri er líka á meðal fallegustu staða.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ómarkviss vinna. Mikill tími sem skilar litlu.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þau eru nokkur og sitt sýnist hverjum hvað er neyðarlegast. Ég man að ég gisti eitt sinn á hóteli í Glasgow þegar brunakerfið fór af stað um miðja nótt. Í örvinglan minni kíkti ég fram á gang heldur fáklæddur til kanna hvað væri að gerast. Það vildi ekki betur til en svo að hurðin á herberginu lokaðist og læstist á eftir mér. Hótelið var rýmt vegna þess sem reyndist svo vatnsleki á hæðinni fyrir ofan mig. Sú rýming var heldur neyðarleg fyrir mig þar sem ég beið ásamt öðrum gestum sem höfðu haft vit á því að klæða sig í tæpa tvo tíma úti á götu áður en okkur var hleypt aftur inn á herbergi.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bóndi og reykja pípu. Það er ekki búið að slá það endanlega út af borðinu.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég vann með Sverri Þór (Sveppa) í eitt ár hjá ÞG verktökum. Ég held það hafi ekki liðið sá dagur í vinnu með honum að ég hafi ekki hlegið að eða með honum. Ég er líka svo heppinn að eiga bróðir sem er uppspretta góðs húmors og gleði.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Yngri dóttir mín. Hún segir svo oft að ég skilji hana ekki. Ég myndi þá kannski skilja hvað það er sem ég ekki skil.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég veit ekki hvaða breytingum ég gæti komið í gegn sem ekki væri hægt að afturkalla daginn eftir. Það mætti kannski leiðrétta eignarhald og skipta auðæfum heimsins betur. Það væri samt eflaust komið í sama far innan skamms.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Það er þá eitthvað sem þeir ættu ekki að vita.
Mesta afrek í lífinu: Ég held að það séu allir litlu sigrarnir sem skipta mestu máli og verða stærstu afrekin þegar upp er staðið. Nú er maður bara að lifa lífinu og svo verða afrekin metin eftir á ef einhver eru.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara um 4.600 ár aftur í tímann til Egyptalands og fylgjast með byggingu pýramídana. Ég er mjög forvitinn að vita hvort það hafi verið einhverjar geimverur hér á undan okkur sem tóku þátt í þessu.
Lífsmottó: Það er allt hægt er viljinn er fyrir hendi.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég verð í New York með dóttur minni á tónleikum með Billy Joel.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSandvíkurtjaldurinn mættur
Næsta greinFundaröð Íbúalistans í dreifbýli Ölfuss