Leikfélag Hveragerðis frumsýndi barnaleikritið Benedikt búálfur í lok september. Sýningin hefur fengið frábærar viðtökur og gengið fyrir fullu húsi frá frumsýningu og nú er búið að plana sýningar út nóvember. Það er hinn fjölhæfi leikari og söngvari, Hafsteinn Þór Auðunsson, sem fer með hlutverk Benedikts búálfs.

Fullt nafn: Hafsteinn Þór Auðunsson eða Hafsteinn Thor í listunum.
Fæðingardagur, ár og staður: 11. maí 1983 á Sauðárkróki.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Sjöfn Ingvarsdóttur og fimm barna faðir. Gabríel Elí 15 ára, Auðunn Ingi 12 ára, Ingvar Marel 9 ára, Ásta Birna 3 ára og Hlynur Sigmar 10 mánaða.
Menntun: B.A. í leiklist.
Atvinna: Stuðningsfulltrúi, leikari, söngvari og handverksmaður hjá Laufskógar Handverk.
Besta bók sem þú hefur lesið: Englar alheimsins, Grettissaga og Hobbitinn deila efsta sætinu.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Game of Thrones (fyrir utan lokaseríuna) og Cocomelon.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ace Ventura myndirnar, Braveheart og teiknimyndirnar sem börnin mín hafa horft á í gegnum ævina. Má þar nefna Horton hears a Who, Cars, Frozen 1 og 2, Big Hero 6, Moana og Encanto svo fátt eitt sé nefnt.
Te eða kaffi: Bæði betra. Chai Latte er í miklu uppáhaldi þessa dagana.
Uppáhalds árstími: Sumarið er tíminn minn þar sem ég fer mikið í fjallgöngur og nýt þess að rækta og skreyta garðinn minn. Ekki bara búálfur heldur líka garðálfur.
Besta líkamsræktin: Steinasafnara- fjallgöngur og garðavinna.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég hef ekki eldað neitt eftirminnilegt í um 14 ár en geri rosalega gott lasagne. Eldaði einu sinni pasta með fiskbollum úr dós og gerði sósu úr soðinu. Held að það sé ástæðan fyrir fjarveru minni úr eldhúsinu síðasta rúma áratuginn.
Við hvað ertu hræddur: Að lifa lengur en börnin mín.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á milli kl.6 og 7 alla daga. Jafnvel fyrr ef yngstu krílin taka völdin.
Hvað gerir þú til að slaka á: Spila á gítarinn og syng eða fer útí garð að stússast.
Hvað finnst þér vanmetið: Áherslur list- og iðngreina í grunnskólakerfinu.
En ofmetið: Störf þingmanna og ráðherra.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Eiginlega allt með Jóni Jónssyni og söngleikjatónlist heilt yfir en This is me úr The Greatest Showman er í miklu uppáhaldi.
Besta lyktin: Af nýslegnu grasi eða nýelduðum hamborgarhrygg.
Bað eða sturta: Löng og heit sturta. Sparislökun í baði eða heitum potti er samt næs.
Leiðinlegasta húsverkið: Þvo þvott og ganga frá honum. Myndi frekar þvo klósettin til að sleppa við hitt.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Við eigum bara eitt líf. Gerðu það sem þú elskar að gera.
Nátthrafn eða morgunhani: Hef alltaf verið morgunhani en er bæði þegar að jólatörnin í handverkinu er í hámarki. Sef lítið það tímabil.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Skagafjörður, Laugarvatn og Hveragerði. Get ekki gert upp á milli.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óreiða og drasl. Að finna ekki hluti sem eiga að vera á sínum stað.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég var u.þ.b. 12 ára þá flaug ég af hjólinu mínu og það þurfti að sauma nokkur spor í framhandlegginn á mér. Svo nokkrum dögum seinna var ég á frjálsíþróttaæfingu og rann á hausinn beint á grjót, rotaðist og fékk gat í hnakkann. Þurfti að láta sauma í annað sinn á 4 dögum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: NBA leikmaður, atvinnumaður í fótbolta og leikari eins og afi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Signý systir og einn af mínum bestu, hann Gilli (Gilbert Árni Hólmarsson).
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Michael Jordan, til að sjá og finna hverslags hugarfar þetta er í raun sem hefur litað hans glæsta feril.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi fá öll lönd til að samþykkja kennslu í samkennd, ást, virðingu og rökhugsun fyrstu 10 uppeldisár hvers mannsbarns í sambland við alla kennslu skapandi greina. Þá myndi ég senda alla stóra og smáa valdagráðuga einræðisherra saman á eyðieyju í þetta sama prógram.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég var rosalega feiminn og lokaður krakki og horfði oft á video upptökurnar Elsu ömmu og Steina afa af Bold and the beautiful.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara aftur heim í hlað á Narfastöðum í Skagafirði sumarið ’95, faðma og kyssa pabba og Odd bróðir. Eiga langt og innihaldsríkt samtal við þá og segja að ég elski þá.
Lífsmottó: Það eru þónokkur sem ég gæti talið upp en það eru tvö sem ég nota mest. Lífið er einfalt – Njóttu þess. K.I.S.S. – Keep it simple stupid.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Skemmta leikhúsgestum fyrir fullum sal er ég stíg á stokk í Álfheimum sem Benedikt búálfur hjá Leikfélagi Hveragerðis.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.i

Fyrri greinGröfutækni bauð lægst í gatnagerð
Næsta greinPerlað af Krafti á Selfossi