Handknattleiksmaðurinn Einar Sverrisson náði því magnaða afreki í gærkvöldi að skora sitt þúsundasta mark fyrir meistaraflokk Selfoss í handbolta, þegar liðið gerði 31-31 jafntefli við ÍBV. Einar hefur spilað 228 leiki fyrir Selfoss og er hvergi nærri hættur en hann hefur verið á miklu skriði í fyrstu leikjum Olísdeildarinnar í vetur.

Fullt nafn: Einar Sverrisson.
Fæðingardagur, ár og staður: 7. maí 1992 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Er í sambúð með Lenu Rut Guðmundsdóttur og saman eigum við tvö börn, Elías Atla fæddan 2018 og Andreu Lillian fædd 2022.
Menntun: Er með stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Suðurlands. Stefnan er tekin á meira nám í náinni framtíð.
Atvinna: Sölu- og afgreiðslustjóri Set ehf á Selfossi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég hef verið talinn rosalega lélegur bókaormur en ég bað um bækur í jólagjöf síðustu jól og las Óorð eftir Jón Gnarr og Þú þarft ekki að vera svona mikill aumingi eftir Mána Péturs.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég veit ekki hvort maður eigi að segja frá því, en það er einn þáttur sem maður horfir alltaf á og það er Vikan með Gilla Malla. Einnig er Gulli byggir með fastan sess í rútínu á sunnudögum.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég á erfitt með að horfa á sömu bíómyndir aftur og aftur. En það sem vekur áhuga eru heimildarmyndir.
Te eða kaffi: Kaffi takk, helst uppáhellt ekki úr þessum kaffivélum sem eru með hylkjunum
Uppáhalds árstími: Sumarið er tíminn, það er þannig. Annars líður mér líka vel í snjóstormi og ófærð. Ástæðan fyrir því er að þá er maður bara heima hjá sér í rólegheitunum.
Besta líkamsræktin: Slökun og íhugun! Það er vanmetið að vera í ró og rækta andlegu hliðina, sérstaklega í þessum hraða sem er í þjóðfélaginu í dag.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég tel mig vera nokkuð liðlegan í eldhúsinu. Allt frá því að sjóða pylsur upp í að grilla nautalund… ekkert mál.
Við hvað ertu hræddur: Það er það það sem allir geta gengið að sem gefnum hlut, dauðann. Ég er frekar lífshræddur maður.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það fer eftir því hvenær börnin vakna. Yfirleitt er það í kringum 7:30 ca. Ég gæti vel sofið til 9 ef ég fengi að ráða.
Hvað gerir þú til að slaka á: Það er misjafnt, fara í heita pottinn sem dæmi, mér þykir líka fínt að hitta góða vini og spjalla, það er fínasta slökun.
Hvað finnst þér vanmetið: Persónuleg samskipti. Hlusta og að vera til staðar, sérstaklega fyrir bornin.
En ofmetið: Samfélagsmiðlar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ekkert sérstakt lag þannig, tölvutónlist kemur mér frekar oftar fyrr í gírinn fremur en önnur tónlist.
Besta lyktin: Matarlykt, hvítlauksleginn humar sem dæmi espir upp bragðlaukana.
Bað eða sturta: Sturta verður nú oftast fyrir valinu, það er nú einkum vegna þess að það er fljótlegast.
Leiðinlegasta húsverkið: Allt sem tengist ryki. Ryksuga er afskaplega leiðinlegt verk og þurrka af. Hvaðan kemur allt þetta ryk?
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Vera ekki að eyða orku í að hafa áhyggjur af hlutum sem ég hef enga stjórn á eða get ekki með nokkru móti breytt.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn. Minn prime tími er milli 21:00 – 01:00.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hér á landi er það Gjáin í Þjórsárdal, erlendis fannst mér rosalega fallegt í Slóveníu auk þess sem Tokyo gaf manni aðra sýn á heiminn. Það var öðruvísi flott.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ég gæti skrifað rosalega langan lista hér, ég á það til að tuða yfir öllu mögulegu og er ég að vinna í að hætta láta allt fara í taugarnar á mér. En það sem fer sennilega mest í taugarnar á mér er að vera fastur í bílaumferð.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það var þegar ég bað Lenu um að fara út í garð og athuga hvort það sæist mikið inn um baðherbergishurðina, sem er filmuð með svona sandblástursfilmu, eftir að hafa búið í húsinu í nokkra mánuði. Það kom í ljós að það sást ansi mikið inn og ekki nema 5 metrar í stofugluggann hjá nágrannanum. Þannig að, Óli nágranni, ef þú lest þetta: Verði þér að góðu!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Það var þetta týpíska þegar maður var pjakkur. Lögreglumaður og slökkviliðsmaður. Núna veit ég ekkert hvað ég ætla mér að gera þegar ég verð stór.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Jón Gnarr.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að vera Óskar Guðjónsson, vinur minn. Það er ansi margt sem mig vantar svör við, sem aðeins finnst í vinstra heilahveli í hans haus.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Nota sennilega lang mest Facebook messenger. En eins og ég nefndi áðan þá er þetta ofmetið dót.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég breyta ansi mörgu. Ég myndi byrja á því að færa alla frídaga sem lenda á fimmtudegi yfir á föstudaga. Ég myndi breyta fæðingarorlofi þannig pör fengu alfarið að ráða skiptingu úthlutaðs orlofs á milli sín eins og þeim hentar. Ég myndi reyna stuðla að meiri jöfnuði. Og fleira og fleira. Ég yrði frábær einræðisherra.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Þegar kom að því að velja á milli akademía á sínum tíma í FSu þá var ég staðráðinn í að velja fótboltann, en á endanum þá endaði ég í handbolta akademíunni. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvernig það gerðist en þannig endaði þetta.
Mesta afrek í lífinu: Að hafa náð í hana Lenu Rut, sem hefur gefið mér margt og alið okkar börn meira og minna, ég geri mest lítið og er sjaldan heima. Hún á hrós skilið fyrir sitt afbragðs umburðarlyndi.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég færi sennilega aftur í tímann og kæmi fram með allskonar hugmyndir um vörur og búnað sem hafa selst vel og hafa vakið lukku meðal allmennings.
Lífsmottó: Reyna lifa í núinu.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla vera með létta 4 ára afmælisveislu og njóta þess að vera í fríi frá æfingum og vinnu.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHeitasta bjórhátíð landsins um helgina
Næsta greinHraði og spenna í 74 marka leik