Sölvi Björn Sigurðsson, rithöfundur frá Selfossi, hlaut í síðustu viku Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsögu sína Selta: Apókrýfa úr ævi landlæknis. Sölvi Björn gaf út sína fyrstu bók árið 2000 og síðan hefur hann jöfnum höndum sent frá sér ljóð og skáldsögur en hann hefur einnig skrifað fræðibækur um stangveiðar, veiðimenn og veiðisögur, auk þess sem hann hefur þýtt ljóð, leikrit, skáldsögur og smásögur úr ensku og frönsku.

Fullt nafn: Sölvi Björn Sigurðsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 7. október 1978. Selfoss.
Fjölskylduhagir: Ég bý með tíu ára einhyrningi sem á góða mömmu sem pússar á henni hornið, þessa viku sem hún er ekki hjá mér.
Menntun: Grunnskólinn á Selfossi.
Atvinna: Rithöfundur.
Besta bók sem þú hefur lesið: Heimsljós er sú sem ég hef lesið oftast. Það er svo stór tilfinning í henni. Smekkur breytist kannski eitthvað þegar maður eldist en ég held að bókin hafi ekkert breyst, þótt það séu tíu ár síðan ég las hana síðast og áttatíu ár síðan hún var skrifuð.
Te eða kaffi: Kaffi. Ertu að spyrja í alvöru?
Uppáhalds árstími: Desember.
Besta líkamsræktin: Ganga er án efa sú besta. Ég hitti einu sinni íþróttafræðing frá Ljubljana sem staðfesti þetta. Vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar og þetta er niðurstaðan. Meira gaman er kannski að hlaupa skáhaltur á milli Steinholtslæks og Skefilstaðaár, en það getur verið varasamt ef maður er með flatfót.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Svona grænar flatar baunir. Og svo rétt úr maís, með smjöri og hálfri teskeið af lyftiefni. Svo varð nú einu sinni Kjötbollusumarið mikla, svokallað. Þá fitnaði fólk, líka út af lauksósu, en þvílík hamingja. Viltu að ég haldi áfram?
Við hvað ertu hræddur: Ég varð einu sinni skíthræddur við mjólkurkýr. Þær voru svona sextíu á móti mér og eltu mig upp alla heiðina á Hörgárdal, ætluðu aldrei að hætta. Héldu eflaust að ég væri með eitthvað fjós þar sem enginn maður hafði búið í 700 ár. Ég þekkti þessar kýr ekki neitt, en þær tóku upp á þessu í sameiningu. Ég var þarna með GPS-tæki að skrá fornleifar. Svo settust þær nú bara niður á endanum, einhvers staðar lengst uppi á tindi, og horfðu á mig svolítið ánægðar með sig: Ha, þú af mannkyni, þarna komum við þér á óvart, þú hélst að við gætum þetta ekki?
Hvað gerir þú til að slaka á: Setjast með kúm á fjöllum, þegar ég hef fengið fullvissu um að þær ætla ekki að drepa mig.
Hvað finnst þér vanmetið: Má segja aftur: Kýr á fjöllum?
En ofmetið: Kýr á fjöllum.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: My baby’s coming back now on the next train. I can hear the whistle blowing, I can hear the mighty roar.
Besta lyktin: Þú ert alveg að fara með mig núna. Má spyrja svona? Svo ég svari bara án ákefðar en samt af einhverri einlægni þá finnst mér svona sjampólykt af nýþvegnu hári rosa góð. Annað svar væri of róttækt, og eflaust óholl og óþörf uppeldisábending fyrir fólk sem hefur þvegið sig mestmegnis úr mykju. Sjampó er fyrir styttra komna, en flest erum við nú stutt komin. Gott að mætast þar. Ekki beinlínis í skítnum, bara í sjampólykt.
Bað eða sturta: Alltaf sturta. Svo heiti potturinn ef mann langar í bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Tja, uppþvottavélin mín hagar sér stundum eins og geit. Jarm hefur reynst fallegra. Ekkert toppar íslenska náttúru.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Vera góður við dýr og menn.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn, klárlega.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hér er erfitt að velja. Ég fékk að ferðast svo víða þegar ég var yngri. Eflaust klisja að þykja vænst um sína heimabyggð, en þannig er það stundum. Hráleiki sunnlesku sandanna er með því fallegasta sem ég hef séð, hraunið, fágæti gróðurinn, lækirnir, jöklarnir og auðnin. Risavaxið landslag og þar segir náttúran manni að maður á til langs tíma litið engan séns í hana.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Kyssa páfann þegar ég átti að heilsa. Honum eru auðvitað takmörk sett, út af sínu embætti, en hann hló bara að þessum trúleysingja sem kunni ekki að fylgja reglum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Það kemur kannski ekki sérstaklega á óvart en ég ætlaði mér alltaf að vera rithöfundur. Alveg síðan ég man eftir mér.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Þau eru nokkur. Mörg. Alltof breið spurning. Ég met fátt betur í fari fólks en húmor. Hef verið svo lánsamur að kynnast mjög mörgu ótrúlega fyndnu fólki.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ætli ég yrði ekki bara Kermit. Hann er með grænni og grófari húð en ég en samt með eitt af breiðari brosum. Frábær náungi. Ég myndi ganga Skólavörðustíginn í Kermit-gervi og heilsa fólki sem þekkir mig og segja: Hæ, þetta er Sölvi, finnst þér ég ekki flottur í dag? Ég er Kermit.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Það er nú bara FB.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég eflaust reyna að stilla til jafnaðar, banna að börn deyi, útdeila gæðum betur og gera sjóinn ósýrðan. Viljum við ekki næstum öll það sama ef við fengjum slík völd?
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Eflaust of margt. Ég er fálátur maður og segi engum neitt. Emma Thompson vann mig einu sinni í silungsveiði. Hún tók því af miklu jafnaðargeði og gaf mér fimmu.
Mesta afrekílífinu: Það er svo hégómlegt að velta sér upp úr því. En ef ég á að að segja eitthvað þá er það kannski að finnast afrek ókomið. Halda áfram að reyna að bæta sig í því sem hægt er. Gagnvart öðru fólki og sjálfum sér. Og vita að einn sigur er lítils virði ef maður heldur að hann dugi.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ætli ég myndi ekki fara til Colorado með mömmu árið 1462 og reyna að bjarga henni úr slagsmálum við bjarndýr. Hún væri búin að stugga við dýrinu og hafa sig fram um að láta ekki svona. Ég meina, hver slæst við bjarndýr? Með hendurnar utan um skoltinn, að reyna að bíta hann í nebbann? Svo yrði hún voða glöð þegar við kæmumst heil á húfi úr því ævintýri og hún myndi segja: Jæja, nú gleðjumst við yfir þessum góðu móttökum árið 1462 og drekkum spes-te með þessum fallegu hestamönnum sem hér búa. Svo kyrja allir söng. Og við myndum stara dáleidd á fjöllin.
Lífsmottó: Horfa á fjöllin. Og vita að þau eru stærri en við, en vita samt líka að það má ganga á þau.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Hitta vini mína. Engin spurning! Þau eru ferlega skemmtileg.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSelfoss steinlá í bikarnum
Næsta greinFlæðir að orlofshúsum í Vaðnesi