Rangæingnum Birtu Sólveigu Söring Þórisdóttur hefur skotið hratt upp á stjörnuhimininn síðustu misserin. Hún sló í gegn sem Auður í Litlu hryllingsbúðinni hjá Leikfélagi Akureyrar og hlaut nýverið fyrir það tilnefningu til Grímunnar sem besta leikkonan í aðalhlutverki. Á dögunum var svo tilkynnt að Birta muni leika Línu Langsokk í uppsetningu Þjóðleikhússins næsta vetur. Verkið verður frumsýnt í september en tilefnið er 80 ára afmæli Línu.

Fullt nafn: Birta Sólveig Söring Þórisdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 3. apríl, 1997 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Búsett í Reykjavík með kærastanum mínum, Nikulás Hansen Daðasyni. Á eina flotta guðdóttur sem er dóttir systur minnar, Þórey Ösp Ólafsdóttir.
Hverra manna ertu: Pabbi minn heitir Þórir Jónsson og er fæddur og uppalinn á Selalæk. Mamma mín heitir Guðný Söring Sigurðardóttir og er ættuð frá Hellu. Við systkinin, Sesselía Söring og Þráinn, ólumst öll upp á Selalæk.
Menntun: Ég hóf námsgöngu mína í Grunnskólanum á Hellu, færði mig svo yfir í FSu og kláraði BA-gráðuna mína í Listaháskóla Íslands.
Atvinna: Ég vinn sem leikkona í dag.
Besta bók sem þú hefur lesið: Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Norskir raunveruleikasjónvarpsþættir sem heita Kompani Lauritzen inná TV 2, þar sem norskar opinberar persónur taka þátt í heræfingum.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Úff, sko… ég get horft á The Notebook aftur og aftur. Hef gert það í hvert einasta skipti sem ég fer úr landi.
Te eða kaffi: Ég er stemmnings-kaffi týpa. Ég get alltaf sleppt bollanum en hef gaman af kaffisopanum með þeim sem eru að fá sér líka.
Uppáhalds árstími: Haustin eru að koma sterkt inn akkúrat núna. Sérstaklega á Íslandi. Nýtt upphaf eftir sumarið og bestu útivistarferðirnar gerast þá.
Besta líkamsræktin: Að dansa er lang besta líkamsræktin. Þá get ég gleymt mér algjörlega í mínu zóni. Annars finnst mér útivistar íþróttir frábærar! Göngur, hlaup og hvað annað.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er búin að missa smá töfra í eldhúsinu en ég er mjög góð í að gera eftirrétti eins og til dæmis bökuð epli í smjörhafraklessu-mauki. Borið fram rjúkandi heitt með ís.
Við hvað ertu hrædd: Ég er sjúklega myrkfælin.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Yfirleitt um áttaleytið.
Hvað gerir þú til að slaka á: Í neyð þá fer ég í sund eða hugleiði. Ég hef náð, upp á síðkastið, að gera yfirleitt eitthvað eitt lítið á dag sem fær mig til að slaka á. Í þeim tilgangi til að koma í veg fyrir óþarfa streitu. Til dæmis nota andlitsmaska, prjóna, syngja, teygja á vöðvum – eða kaupa á netinu.
Hvað finnst þér vanmetið: Að eyða laugardagskvöldi upp í sófa.
En ofmetið: Emojis.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Fullkomið farartæki með Nýdönsk.
Besta lyktin: Lykt af nýslegnu grasi og reykelsi.
Bað eða sturta: Sturta. Ég tengi ekki neitt við baðferðir.
Leiðinlegasta húsverkið: Þrífa baðherbergið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani, allan daginn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Seyðisfjörður.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem leyfir sér að leggja illa í stæði.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar vinkona mín á Akureyri spurði mig „Hefuru prófað Affogato?“ og ég segi „Ha? Segið þið Akureyringar affogato fyrir avókadó?“. Svo hlógum við bara að þessu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að verða ferðalangur og ferðast um heiminn. Það er nægur tími til stefnu.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það eru sumar manneskjur sem bara láta mig alltaf hlæja og það er vinur minn Egill Gauti Sigurjónsson sem er í hljómsveitinni Inspector Spacetime. Gull af manni.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Hreinskilnislega, þá er enginn annar sem ég vil vera en ég sjálf.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Messenger.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Stoppa þennan einræðisherra í Bandaríkjunum og gera Gretu Thunberg að drottningu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég tala og rökræði mikið við sjálfan mig, mér til skemmtunar og oft í nokkra klukkutíma. Hef gert þetta síðan ég var mjög ung.
Mesta afrek í lífinu: Ég gisti ein í tjaldi úti í skógi í fyrrasumar. Fyrir mig, sem er ótrúlega ímyndunarveik, þá var þetta stórt afrek.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast aftur í tímann og ná að knúsa pabba aftur.
Lífsmottó: Það er enginn að fara að hífa þig upp, nema þú sjálf/ur/t.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Fermingarveislur og taka pack-raft bátana okkar Nikulásar og gista einhversstaðar í tjaldi.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSunnlenskt hey fyrir íslensku hrossin á HM
Næsta greinMikill viðbúnaður vegna slyss við Brúará